24.11.2009 | 18:19
Sjómannaafsláttur í 55 ár
Þessi samantekt er innlegg í umræðuna um sjómannaafsláttinn. Krafan um að fella hann niður hefur heyrst nokkrum sinnum síðustu vikur. Hún er stundum rökstudd með því að hann sé niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðarinnar. Það er rétt að vissu marki, en á sér meira en 50 ára gamlar skýringar, sem tengjast ekkert rekstrarumhverfi útgerðarinnar í dag.
Upphafið að sérstökum ívilnunum til handa sjómönnum er hlífðarfatafrádráttur sem festur var í lög árið 1954. Hann náði eingöngu til slysatryggðra fiskimanna vegna kostnaðar sem þeir höfðu umfram aðra launamenn. Hann gilti ekki fyrir alla í togaraáhöfn og ekki fyrir sjómenn á farskipum.
Fæðisfrádráttur
Sjómenn á fiskiskipum, sem þurftu að sjá sér fyrir fæði sjálfir, fengu einnig fæðisfrádrátt. Hann var líka lögfestur 1954. Þessir frádrættir voru til að jafna kjör sjómanna, en hvorki til að veita þeim umfram fríðindi eða lækka launakostnað útgerða.
Sérstakur frádráttur
Breyting var gerð 1957, í tengslum við kjarasamninga. Þá var m.a. tekinn upp sérstakur frádráttur" í þeim tilgangi að fá fleiri Íslendinga til að stunda sjómennsku, en þriðjungur flotans var þá mannaður erlendum sjómönnum. Árið 1967 var síðan gerð sú breyting að frádrættirnir giltu líka fyrir sjómenn á farskipum. Fram að því höfðu þeir eingöngu verið ætlaðir fiskimönnum.
Nýr frádráttur fyrir sjómenn á fiskiskipum var tekinn upp árið 1972, sem var 8% af launum. Árið eftir fengu hlutaráðnir beitningamenn frádrátt í fyrsta sinn. Þessi frádráttur var hækkaður í 10% árið 1975 og síðan í 12% árið 1984. Ári síðar var hann einnig veittur farmönnum.
Sjómannafrádráttur
Hlífðarfatafrádráttur og sérstakur frádráttur" voru sameinaðir í einn sjómannafrádrátt árið 1978. Hann gilti samhliða fiskimannafrádrættinum. Reglur um fæðisfrádrátt voru áfram óbreyttar og áttu aðeins við um þá fiskimenn sem þurftu að sjá sér fyrir fæði sjálfir.
Frádrættir lagðir niður
Alls voru fjórir mismunandi frádrættir í gildi þegar mest var. Þeir voru allir lagðir niður 1987 (skattlausa árið) en í staðinn kom sjómannaafsláttur þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp 1988.
Munurinn á frádrætti og afslætti er að frádráttur kemur til lækkunar á launum (stofni) áður en skattur er reiknaður, en afsláttur er til lækkunar á reiknuðum skatti. Fyrirsögn þessarar færslu er því ekki tæknilega rétt, þannig séð.
Sjómannaafsláttur hefur verið óbreyttur í megin atriðum í 22 ár. Fjárhæðinni hefur verið breytt og gerðar lítilsháttar breytingar á reglum um útreikning. Þær tengjast m.a. orlofs- og veikindarétti, lögskráningu og ákvörðun dagafjölda á smábátum. Einnig hefur verið tekist á um rétt til afsláttarins, m.a. til manna á ferjum, hafnsögubátum og dráttarbátum.
Á að leggja sjómannaafsláttinn niður?
Þessari spurningu læt ég ósvarað. Bendi aðeins á að frádrættir og afslættir vegna starfa á sjó eiga sér langa sögu og margs konar skýringar. Þeir voru ekki settir á til að spara útgerðinni launakostnað, þótt þeir geri það og hafi oft komið til tals í umræðum um kjör sjómanna og rekstur útgerða. Kvótinn var ekki heldur settur á fyrir útgerðina, en það er önnur saga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Haraldur.
Þetta var frábær samantekt.Ég þakka fyrir.
Eins og hefur komið fram.Þá voru togarasjómenn á fríu fæði,en ekki bátasjómenn.Það þótti nokkuð dýrt fæði á bátunum.Það var allt innkeypt hráefni,auk þess var eldamennskan greidd með einum hlut frá sjómönnum og 1/4 hl.var kostnaður,sem útgerðin greiddi.Þetta er þannig í dag,auk þess,sem að togarar eru allir komnir á bátasamninga.Sem þýðir að þeir greiða allir fæði að frádregnum fæðipeningum.
Ingvi Rúnar Einarsson, 24.11.2009 kl. 21:15
Ég er algjörlega mótfallinn því að fella niður skatta-afslátt sjómanna. Störf þeirra eru erfið og hættuleg og halda þjóðarbúinu á floti. Ef skera á niður einhverstaðar þá er það hjá hinu opinbera þar sem hver silkihúfan er ofan á annari. Ríkisstofnanir eru fjölmargar algjörlega ofmannaðar illa skipulagðar og fáránleg launakjör stjórnenda eru hreinlega útúr kú. Eftirlaunakjör opinberra starfsmanna eru í engum takti við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Hér á landi hafa vanhæfir stjórnmálamenn lagt mikið kapp á að blása út hið opinbera og koma nógu mörgum flokksvinum og flokksgæðingum í þægilegar stöður og er núverandi ríkisstjórn að ná nýjum hæðum í slíkum stöðuveitingum. Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar miða allar að því að koma í veg fyrir uppsagnir hjá hinu opinbera, m.ö.o láta höggið af kreppunni lenda á skóflupakkinu, verkalýðnum, iðnaðarmönnum og ómenntuðu fólki í þjónustugreinum. Að ráðast að sjómönnum væri alveg dæmigert fyrir þessa vanhæfu ríkisstjórn.
Þórir Kristinsson (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 21:36
Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Ingvi Rúnar: Fæðiskostnaður er ekki lengur tengdur sjómannaafslætti, eins og hann var í gamla kerfinu, svo ég fjalla ekki um hann. Það hefði verið hægt að nefna margt fleira, t.d. afslátt til manna sem eru í áhöfnum skipa sem gerð eru út undir erlendum fána. Það hefur hins vegar ekki áhrif á "þróunarsögu" afsláttarins, svo ég sleppti því.
Þórir: Umræðan um sjómennsku litast mikið af hugmyndum um innköllun veiðiheimilda og galla í kvótakerfinu. Það má samt ekki rugla því saman við kjör sjómanna, sem í langflestum tilfellum eru óbreyttir launamenn.
Vil bara benda á jákvæðustu innlendu frétt dagsins (hér) og einnig ágætan pistil á vef Ungra jafnaðarmanna (af öllum stöðum!) í dag þar sem hvatt er til þess að fjalla jákvætt um þessa undirstöðu atvinnugrein (hér).
Haraldur Hansson, 24.11.2009 kl. 22:14
Takk fyrir góða samantekt. Sjómenn okkar eiga allt gott skilið.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 24.11.2009 kl. 22:20
Sæll Haraldur
Takk innilega fyrir þessa söguskíringu. Hárrétt og vel orðuð. Er ekki í lagi að ég noti hana aðeins sjálfur?
Kveðja
Valmundur Valmundsson, 24.11.2009 kl. 22:58
Arinbjörn: Tek undir þetta með þér. Ef þú hefur lesið greinina sem ég vísaði á í fyrri athugasemd sýnir könnun að aðeins 2% ungs fólks getur hugsað sér að starfa í greininni. Kjörin verða því að haldast góð og ímynd greinarinnar að batna.
Valmundur: Sjálfsagt mín vegna. Þá er rétt að ég taki fram að mín helsta heimild er grein í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra, frá apríl 1993. Hún er því miður ekki aðgengileg á netinu.
Haraldur Hansson, 24.11.2009 kl. 23:37
Sæll aftur Haraldur.Grein sú,sem þú vísar frá FUJ.segir allt,sem segja þarf.Ég er ánægður með það,að það er til ungt fólk,sem veit á hverju það lifir.En það kemur fram að aðeins 2% af ungu fólki,sem vill stunda þá iðja,að vinna í fiski,til sjós eða lands.
Ímynd sjómannsins er svo til horfin.Ég tel að það sé af tveim ástæðum.Annars vegar útflöggun farskipa,og hins vegar kvótasetning með framsali.Íslensk stétt skipstjórnarmenn(farmenn)er að deyja út.Meðalaldur er að nálgast 60 ár.Tvær kynslóðir farmanna hafa horfið.Fækkun skipa í fiskveiðiflotanum hafa fækkað,sem gerir það að verkun að færri ungir menn komast á sjó,þótt þeir vilja.
Þessu verður ekki breytt nema með fyrningu kvóta,til að fleiri komist að veiðunum.Hitt er að skráning farskipa,sem er nú í hluta í eigu ríkisins (Óskabarn þjóðarinnar)verði hér á landi.Ég vil að það verði einkunnarorð næsta sjómannadags"Íslenskan fána á íslensk skip".
Ingvi Rúnar Einarsson, 25.11.2009 kl. 00:36
Leiðrétting.Fækkun skipa skal vera Skipum.
Ingvi Rúnar Einarsson, 25.11.2009 kl. 00:41
Ingvi Rúnar: Ég er sammála þér með greinina. Það væri óskandi að eldri og áhrifameiri kratar hugsuðu á svipaðan hátt og Ísfirðingurinn ungi sem þarna stýrði penna. Því miður er ég svartsýnn á það.
Hvort fyrningaleiðin sé það rétta veit ég ekki. Hvað á að koma í staðinn? Nýtt kvótakerfi sem stýrt er af pólitíkusum? Það er sjálfsagt að laga gallana í núverandi kerfi eða koma með eitthvað nýtt og betra. En það þarf þá að vera betra.
Ég setti saman hugleiðingar um það í sumar, sem hægt er að lesa hér.
Haraldur Hansson, 25.11.2009 kl. 01:01
Útgerðarmenn hafa svarað tillögum um fyrningu á kvótanum,með því að þá fari flest útgerðarfyrirtæki í gjaldþrot.Auðvitað er þetta áróður,til að skelfa þjóðina.Hún má nú ekki við miklu,nú til dags.En ástæðan fyrir því,að gjaldþrot fyrirtækja,sé yfirvofandi,er þá vegna þess að kvótinn er veðsettur upp í topp.Gífurleg skuldasöfnun hefur átt sér stað,frá því að kvótinn var settur á,segir manni að mikil eignaskipting hefur orðið á kvótanum,og mikið fjármagn hefur farið út úr greininni.
En gallinn á kvótanum er,að hér er ekki átt við áhveðinn tonnafjölda að fiski,heldur er hér ákveðið hlutfall af úthlutuðum kvóta.Ef það væri ekki,myndi t.d. núna ef aukið verður við kvótann,skiptist aukningin í hlutfalli við kvóta hvers skips.
Þarna gæti verið ein aðferð til fyrninga,er að auknar aflaheimildir,yrðu skipt á annan veg.
Annars skil ég ekki,af hverju sjávarútvegsmálaráðherra,er að kalla fulltrúa L'I'U til nefndar,til að gera breytingar.Eins og hefur komið á daginn,að þeirra svar í þeim þrengingum,sem þjóðin er nú í,að allir eiga fórna einhverju,en ekki við.
Ingvi Rúnar Einarsson, 25.11.2009 kl. 02:06
Er niðurstaða greinarhöfundar sú að svona hefur þetta lengi verið og þess vegna skal það vera svona áfram? Mér sýnist það.
Ég er ekki á sömu skoðun og lít svo á að sjómannaafsláttur sé styrkur til útgerðarinnar, þetta er hluti af launakjörum sjómanna og ef það á að afnema hann verður útgerðin að bæta sjómönnum það.
Þessi styrkur var auðvitað til að auðvelda útgerðinni að manna skipin og gera sjómennskuna að þessu leyti eftirsóknarvert starf. Sjómennskan er það nefnilega að sumu leyti ekki og var það ekki. Þegar menn voru teknir fullir um borð og lentu í 6 vikna túrum í saltfisk á Grænland.
Annars á Haraldur þakkir skilið fyrir greinina og til hamingju með sigurinn í gær.
Jón Halldór Guðmundsson, 25.11.2009 kl. 15:53
Jón Halldór; takk og til hamingju sömuleiðis. Við fögnum í hvert sinn sem 3 stig bætast í safnið og vonum að stuðið endist til vors.
Færslan er um sögu afsláttarins en án þess að taka afstöðu með eða á móti afnámi hans. Átti a.m.k. að vera það. Þegar menn setja fram svona hugmyndir er nefnilega skynsamlegt að skoða söguna og skilja hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. Sama gildir um kvótann.
En ég neita því ekki að margt mælir með því að sjómenn fái sérstakan afslátt og ég tel ekki heppilegt að ráðast í breytingar á þessu kjörtímabili. Leyfa kreppunni að grynnka fyrst og sjá svo til.
Ingvi Rúnar; þarna ertu kominn út í mál sem færslan fjallaði ekki um, en takk samt. Við tökum kannski kvótaumræðuna síðar.
Haraldur Hansson, 25.11.2009 kl. 19:30
Sæir allir
Mig langar til að koma með nokkrar hugleiðingar.
Hvernig gekk að manna skip árin "góðærinu" ? afhverju ?
Hvernig voru laun sjómanna í "góðærinu" ?
Eftir þessar hugleiðingar þá held ég að pistlahöfundur hafi hitt á marga rétta takka á lyklaborðinu í röð sem bjuggu til eftirfarandi setningu.
Tilvitnun í Jón Halldór
"En ég neita því ekki að margt mælir með því að sjómenn fái sérstakan afslátt og ég tel ekki heppilegt að ráðast í breytingar á þessu kjörtímabili. Leyfa kreppunni að grynnka fyrst og sjá svo til. "
Einnig vill ég vekja fólk til umhugsunar um það hvað sjómenn hafa gert gríðarlega hluti fyrir land og þjóð í gengum tíðina. Síðan þegar sjómenn fá eitt árið meira borgað en gengur og gerist í þjóðfélaginu þá þarf að klippa allt af sem hægt er að klippa af og rúmlega það. Hvað með öll hin árin þar sem laun sjómanna hafa ekki verið upp á marga fiska ?
Held að við ættum að virða þessar hetjur hafsins, sem hafa staðið vaktina fyrir okkur í alla þessa áratugi í hvernig veðrum sem er.. hvort sem það sé að náttúrunnar völdum eða af völdum krónunnar.
Bíðum þar til brælan gengur yfir og þá er hægt að taka þessa umræðu upp aftur og þá munu allir sitja við sama borð.
Jóhannes Jónsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 01:47
Sæll, Jón Halldór og takk fyrir fræðsluna um sjómannaafsláttinn, ágætt að vita á hverju maður á að hafa skoðun.
LÁ
lydur arnason (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 03:05
Góð samantekt. Það er prinsip mál hjá mér að við þessu verður ekki hróflað. Ég er sjómaður og búinn að vera á sjó síðan 1985. Ég er brjálaður út af þessum tillögum að fella þennan afslátt af. Ég borga mína skatta og er stoltur af því. Ég held að það ætti að taka til annarstaðar í ríkisbússkapnum áður en kemur að þessu.
Í sumum starfstéttum í landi fá menn fjarvistarálag og áhættuþóknun sem sumstaðar er vel yfir 10.000 kr. á dag. Ef við tökum sem dæmi dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands þá eru þeir sem hér segir:1. Gisting og fæði í einn sólarhring kr. 18.700
2. Gisting í einn sólarhring kr. 10.400
3. Fæði hvern heilan dag, minnst 10 tíma ferðalag, kr. 8.300
4. Fæði í hálfan dag, minnst 6 tíma ferðalag, kr. 4.150
(www.rsk.is)
Þessir dag og fæðispeningar eru skattfrjálsir í landi. Sjómenn fá fæðispening, fatapening og sjómannaafslátt sem hér segir:
1. Fæðispeningar á hvern lögskráðan dag kr. 1.295
2. Fatapeningar á hvern lögskráðan dag kr. 138
3. Sjómannaafsláttur á hvern lögskráðan dag kr. 987
(ASV)
Fata og fæðispeningar sjómanna eru skattlagðir en Sjómannaafsláttur er skattaafsláttur.
Bergþór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 09:19
Það er fráleitt að leggja að jöfnu dagpeninga og sjómannaafslátt. Dagpeningar eru greiddir fyrir tímabundin ferðalög frá heimabæ starfsmanns, en ekki varanlega viðveru í margar vikur eða mánuði. Vel að merkja er það vinnuveitandinn sem greiðir dagpeningana, ekki hið opinbera nema hjá opinberum starfsmönnum.
Ég er ekki að neita því að dagpeningakerfið er misnotað bæði af ríkinu og í einkageiranum, á því má alveg taka. Það hinsvegar réttlætir ekki mismunun á milli sjómanna og ýmissa annarra stétta sem eru oft fjarri heimili lengi, s.sl starfsfólk Vegagerðarinnar og þeim sem störfuðu við þrælabúðirnar á Kárahnjúkum.
Theódór Norðkvist, 28.11.2009 kl. 19:43
Sjómannaafslátturinn hefur nákvæmlega ekkert með það að gera hvort það er eða verður eftirsóknarvert að fara á sjó. Það myndi ekki einu sinni fjölga umtalsvert þeim sem sæktust eftir því þó að menn fengju marfaldan skattaafslátt á við það sem nú er. Það er allt annað mál.
Söguskýring þín Haraldur er vönduð og góð og mjög þarft innlegg í umræðunni.
Það er vont mál að vera að tengja núverandi aðstæður saman við fyrirhugaðar breytingar á sjómannaafslætti. En aðstæður sjómanna, sem annarra launþega hafa gjörbreyst á síðustu áratugum og það er ekki þannig að eitthvað kerfi sem einhvern tíma var tekið upp þurfi að gilda að eilífu.
Mikið er búið að krukka í allt sem snýr að skattamálum fólks í landinu en einna minnst í sjómannaafsláttinn frá því staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988.
Það sem ég hef bent á er að kerfið er óréttlátt og vitlaust og þessi afsláttur mismunar fólki. Ég hef eins og einn hér að framan m.a. bent á vinnu fólks á sínum tíma upp í Kárahnjúkum, auk þess sem það er sérkennilegt að beitningamenn í landi (sama hver viðmiðunin við laun er) séu með sjómannaafslátt og auk þess sjómenn á ferjum, hafnsögubátum og dráttarbátum. Skýring sem menn bera oftast við í rökfærslum með afslættinum er löng fjarvera að heiman. Slík skýring á einfaldlega ekki við ákveðinn hóp manna sem fær þennan afslátt.
Jón Óskarsson, 2.12.2009 kl. 14:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.