9.11.2009 | 18:43
Það sem kjósendur mega ekki vita
Hvort sem það eru rússneskir ólígarkar, amerískir auðjöfrar, kínverskir kommúnistar eða evrópskir embættismenn, alls staðar er spilling sjáanleg. Íslenska stjórnsýslan er því miður engin undantekning frá þessari reglu.
Spilling verður tæplega upprætt nema þar sem til staðar er opin stjórnsýsla, frelsi, jafnrétti og almenn mannréttindi. Hornsteinn alls þessa er lýðræðið sjálft, þar sem allir eiga jafnan rétt til að kjósa og að geta tekið upplýsta ákvörðun, byggða á traustum upplýsingum.
Þess vegna gildir sú góða regla innan Evrópusambandsins að Framkvæmdastjórn ESB er óheimilt að hafa afskipti af afgreiðslu einstakra aðildarríkja á samningum þess. Enda gengi slík íhlutun gegn lýðræðinu.
En það er ekki nóg að setja falleg orð á blað. Því miður varð Framkvæmdastjórn ESB uppvís að spillingu af þessu tagi á Írlandi 26. september þegar hún braut gegn reglum sambandsins og misnotaði almannafé til að dreifa ólöglegum áróðursbæklingi inn á írsk heimili. Þetta var fimm dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon samninginn.
Á þetta var bent í færslu fyrir helgina. Hér er upptalning á nokkrum atriðum sem var vísvitandi gengið framhjá í hinum ólöglega áróðursbæklingi.
- Ekki eitt orð um veigamestu breytinguna: Atkvæðavægi stóru ríkjanna er aukið verulega en dregið úr vægi þeirra minni. Vægi sex fjölmennustu ríkjanna fer úr 49% upp í rúm 70%. Atkvæðavægi hinna ríkjanna, sem eru 21 talsins, er núna 51% en lækkar niður í tæp 30%.
- Hvergi er minnst á hvernig völd Brussel stjórnarinnar munu aukast við lögtöku samningsins þegar margir nýir málaflokkar færast frá aðildarríkjunum til ESB.
- Ekki er sagt frá hinni nýju 290. gr. TFEU, sem gefur Brussel heimild til að auka eigin völd, án þess að sækja til þess lýðræðislegt umboð til kjósenda.
- Ekki er útskýrt hvernig grein 217.7 TFEU heimilar Framkvæmdastjórn ESB að breyta alþjóðlegum samningum án þess að leita samþykkis kjörinna stjórnvalda í nokkru aðildarríki.
- Ekki er nefnt að framvegis geta aðildarríki ekki tilnefnt fulltrúa í Framkvæmdastjórnina, aðeins gert tillögur. Breyting sem gerir yfirvaldið enn fjarlægara kjósendum. Í stað þess að valdið sé sótt til grasrótarinnar (bottom-up procedure) mun það koma að ofan (top-down procedure).
- Ekki er minnst á nýjar klausur í greinum um samkeppni (113. gr. TEFU) og heimild til að leggja á ESB-skatt (311. gr. TEFU). Hins vegar er skrifað með glassúr að samningurinn " ... verndi rétt aðildarríkja, sérstaklega í viðkvæmum málaflokkum eins og um skatta og varnarmál".
- Ekki er sagt frá nýjum ákvæðum um sameiginlegar varnir eða ákvæðum um að auka herstyrk aðildarríkja (42. gr. TEU).
Öllu þessu er haldið leyndu fyrir írskum kjósendum í bæklingnum vonda. Þegar stjórnvald getur búið til einhliða áróðursefni á kostnað skattgreiðenda eru menn komnir út fyrir öll velsæmismörk í því að lítilsvirða lýðræðið. Það gerði Framkvæmdastjórn ESB á Írlandi í september. Hefur Ísland styrk til að standa gegn pólitísku ofbeldi af þessu tagi?
TFEU = Treaty on the Functioning of the European Union (Rómarsáttmálinn)
TEU = Treaty on European Union (Maastricht samningurinn)
Hinn ólöglega áróðursbækling Framkvæmdastjórnar ESB má sjá hér
Erlenda umfjöllun um þessi makalausu lögbrot ESB er að finna hér
Meirihlutinn telur spillingu ríkja í stjórnsýslunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk kærlega fyrir þetta Haraldur.
Þetta er átakanlegt og svívirðilegt. Kveðjur
Gunnar Rögnvaldsson, 9.11.2009 kl. 20:45
Já, og þetta vill Jóhanna og samflækjan endilega troða okkur í... phohh mér er flökurt
mass manipulation kalla ég ESB
anna (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 21:38
Hafðu þökk fyrir Haraldur hversu óþreytandi þú ert að hamfletta þetta skrímsli sem Esb er í raun og veru. Pólitísk rétthugsun vill banna fólki að segja sannleikann eins og handónýtir fjölmiðlar á Íslandi hafa gert síðustu ár og RUV er þar einna verst þar sem hreiðrað hafa um sig evrópusinnar sem falsa fréttir eða rangtúlka eftir því sem flokkslínu Samfylkingarinnar hentar best. Í raun og veru Lissabon gjörningurinn enn eitt skrefið í stofnun ríkisins Stór- evrópu sem er ´algjörlega sambærileg hugsjón og stofnun Stór-þýskalands var á sínum tíma. eins og bloggvinur þinn Jón Steinar ofl hafa réttilega bent á þ.e.a.s að ESB er stjórnarfarslega fasískt að uppbyggingu og algjörlega andlýðræðislegt. Vald sambandsins er dregið inn í æ smærri einingu þar sem hún á endanum verður alræðisklíka undir einræði þeirra stóru. Væri ekki táknrænt að Brussel-valdið keypti fæðingaheimili Adolfs Hitlers í Austurríki sem nú er falt til kaups bara til að undirstrika hvers konar fyrirbrigði er þarna á ferðinni.
Þórir Kristinsson (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 21:42
Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.
Þar sem Þórir nefnir RÚV er það heill kapítuli útaf fyrir sig. Að ríkisfjölmiðill í skylduáskrift skuli ekki standa sig betur í þessu stóra máli er raun ber vitni er algerlega óásættanlegt.
Hvorki í fréttum né þáttargerð hefur RÚV tekist vel upp við að fylgja þeim hlutleysisreglum sem eru í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf (6/2007).
Haraldur Hansson, 10.11.2009 kl. 00:19
Samfylkingin mun reyna að fela sem flestar mikilvægar staðreyndir sem mæla gegn inngöngu Íslands í ESB. En sem betur fer er meirihluti þjóðarinnar á varðbergi. Takk fyrir góðar ábendingar.
Birgir Viðar Halldórsson, 10.11.2009 kl. 10:50
Góðir punktar hjá þér Haraldur, en gott væri að fá þetta útlistað þannig að hægt sé að klóra sig í gegnum þessar staðhæfingar sem virðast æði upphlaupskar.
Mig langar til að heyra nánar um alla punktana hjá þér.
Atkvæðavægi stóru ríkjanna! hvar er að finna þessa punkta?
hvernig völd Brussel stjórnarinnar munu aukast við lögtöku samningsins þegar margir nýir málaflokkar færast frá aðildarríkjunum til ESB. ?
290. gr. TFEU, sem gefur Brussel heimild til að auka eigin völd, án þess að sækja til þess lýðræðislegt umboð til kjósenda.
Er í boði skilgreining á þessari túlkun þinn? Td. hvar kemur inn vöntun á lýðræði eftir að skrifað er undir í þessu tilfelli?
217.7 TFEU heimilar Framkvæmdastjórn ESB að breyta alþjóðlegum samningum
Erum við ekki öll meðvituð um að ESB kemur þá fram fyrir hönd aðildarríkja sinna í milliríkjamálum, þetta er margrætt mál. Þú gætir td. borið þetta saman við BNA
að framvegis geta aðildarríki ekki tilnefnt fulltrúa í Framkvæmdastjórnina, aðeins gert tillögur. Breyting sem gerir yfirvaldið enn fjarlægara kjósendum.
Erum við ekki hér að tala um að við getum boðið fram, enginn er sjálfkjörinn, eitthvað svo ólíkt íslenskri pólitík ekki satt.
(113. gr. TEFU) og heimild til að leggja á ESB-skatt (311. gr. TEFU
Viltu spila frítt? En samt hafa eitthvað um málið að segja, BNA aftur?
ákvæðum um sameiginlegar varnir eða ákvæðum um að auka herstyrk aðildarríkja (42. gr. TEU).
Ertu strax farinn að sakna NATO? Það er þegar fyrir EBS her og lögregla, vitum við þetta ekki öllsömul.
Félagi gefðu okkur eitthvað bitastætt til að henda í þessa ESB sinna. Eins og málin standa þá förum við í ESB og sameinumst einu öflugasta bandalagi jarðar. Ef ekki þá verðum við eyja í miklum öldusjó og munum trúlega hafa það bara ágætt enda vön því að þurfa að sækja langt og punga út vegna þess að við erum ein meðan Flugleiðir ásamt öðrum hafa okkur að féþúfu.
Njáll Harðarson, 10.11.2009 kl. 18:51
Sæll Njáll og takk fyrir innlitið.
Breyting á atkvæðavægi tekur gildi í lok þessa kjörtímabils og getur þú séð allar tölur um það í næstu færslu.
Þar sem vísað er í lagagreinar getur þú séð textann í þessari útgáfu af Lissabon samningnum. Maastricht er á bls. 14-41 og Rómarsáttmálinn á bls. 42-158. Þetta er skýr uppsetning með athugasemdum á spássíum. Breytingar/nýjungar eru feitletraðar.
Löggjöf á sviði orkumála er dæmi um nýjan málaflokk sem færist til Brussel en mest er það í utanríkis- og varnarmálum. Þú sérð þetta með því að skanna spássíurnar.
Það er einn í Framkvæmdastjórninni frá hverju ríki. Það er ekki "boðið fram" í þessi embætti. Athugaðu að þetta er upptalning á atriðum sem skautað var framhjá í bæklingi sem dreift var á Írlandi.
Haraldur Hansson, 11.11.2009 kl. 09:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.