ÖSE og atkvæðavægið

Í skýrslu ÖSE um síðustu alþingiskosningar er aðallega fundið að því að vægi atkvæða sé mismunandi milli kjördæma á Íslandi. Bent er á að það séu tvöfalt fleiri kjósendur á bak við hvern þingmann í Suðvestur- en í Norðvesturkjördæmi.

ÖSE gefur Íslandi góða einkunn hvað varðar framkvæmd, umgjörð og vinnubrögð kosningayfirvalda, auk þess sem fjölmiðlum er lýst sem frjálsum.


Landið eitt kjördæmi

Það er ekki ný hugmynd að gera landið allt að einu kjördæmi. Þá væri misvægi atkvæða úr sögunni og hver flokkur með einn framboðslista. Þá hafa hugmyndir um persónukjör skotið upp kollinum reglulega. Stundum í bland við að gera landið að einu kjördæmi.


En hvað þá um ESB?

Væri ekki rökrétt að evrópska stofnunin ÖSE beitti sér líka fyrir jöfnun atkvæðisréttar innan ESB? Ef Ísland fer þangað inn fengjum við 5 þingmenn. Til að gæta jafnvægis þyrftu Þjóðverjar að kjósa 1.290 þingmenn, en þeir hafa nú 99 sæti á Evrópuþinginu. Annar möguleiki er að Ísland kjósi einn þingmann, annað hvert kjörtímabil, til að gæta jafnvægis.

Hér ber þó að nefna að við atkvæðagreiðslu á Evrópuþinginu er líka tekið tillit til íbúatölu. Sú leiðrétting dugir þó engan veginn til að tryggja að ekki sé farið útfyrir viðmið Feneyjanefndar Evrópuráðsins. Samkvæmt því má misræmið alls ekki fara yfir 15%, nema í undantekningartilvikum "til varnar afmörkuðum minnihlutahópum".


Bara ef það hentar mér

Þeir sem vilja að Ísland verði eitt kjördæmi hljóta að fara með málið alla leið og krefjast þess að Evrópusambandið verði líka gert að einu kjördæmi, eða að fullt atkvæðajafnvægi verði tryggt á annan hátt. Við fengjum þá 0,064% þingsæta til samræmis við íbúatölu. Annað hvort vilja menn jafnt atkvæðavægi eða ekki. Annað hvort fylgja menn prinsippinu eða ekki. Það er ekki trúverðugt að gera kröfu sem á að gilda - en bara þegar það hentar okkur. Myndi það ekki kallast hugsjónir til heimabrúks?

Það sem ÖSE nefnir ekki um kosningar á Íslandi er að það eru atkvæði kjósenda í fjölmennu kjördæmunum sem ráða langmestu um úr hvaða flokkum landskjörnir þingmenn koma. Þannig var náð fram bættu atkvæðavægi milli flokka. Misvægi atkvæða gagnvart framboðum er því hverfandi, þó þingmenn komi úr "röngu" kjördæmi. 

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þessi athugasemd ÖSE verður vakin aftur fljótlega, því margir telja sig hafa hag af henni. Hins vega er við búið að tillaga þín um jöfnun atkvæða í ESB löndum fjúki út í buskann með næstu vindkviðu og sjáist aldrei aftur. En þannig er bara hin nýja jafnræðishugsun.

Einnig mun vera eitthvað í að athugasemd ÖSE um dreifða eignaraðild að fjölmiðlum verði endurvakin. 'I það minnsta meðan sú stjórn sem nú situr er við völd. Þaðan kom andstaðan við fjölmiðlalögin og allir tilburðir til að vekja þau upp aftur myndu aðeins minna menn á hverjir hindruðu framgang þeirra.

En sárast væri þeim að viðurkenna að Davíð Oddsson hafi haft rétt fyrir sér?

Ragnhildur Kolka, 31.7.2009 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband