Hurðaskellir í Evrulandi - nýr þröskuldur

Hvað eru þá eiginlega mörg ár þangað til Ísland á einhverja möguleika á evru? Maður hlýtur að spyrja sig eftir lestur makalausrar greinar í Mogganum í dag. Á blaðsíðu 39 er grein eftir mann sem heitir Erik Berglof og er yfirhagfræðingur Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.

Þetta er mjög sérstök grein. Bæði er það fyrirsögnin Evrudyrunum skellt (og ekkert spurningarmerki á eftir) og svo hvernig maðurinn skrifar greinina. Hann talar ítrekað um hræsni. Hér er dæmi:

"Burtséð frá þeirri hræsni vestrænna ríkisstjórna, að setja sig á háan hest í þessu máli, um leið og þær eru að bjarga bönkum út af yfirgengilegu klúðri í sínu regluverki, er þessi tillaga meingölluð"

Hin meingallaða tillaga sem hann talar um er að bæta við nýju Maastricht skilyrði. Að sjötta skilyrðið verði "gæði bankakerfis". Þetta telur hann hækka þröskuldinn svo mjög að dyrunum að Evrulandi verði skellt.

Erik er að fjalla um fund bankamanna úr öllum heimshornum, sem haldinn var í Frankfurt. Það er óvenjulegt að embættismaður sem ber titilinn "yfirhagfræðingur" noti svona málfar í fræðilegum skrifum. Hann segir m.a. að bankamenn hafi "baðað sig í ljómanum af tíu ára tilvist evrunnar". Og aftur talar hann um hræsni: 

"Að gera gæði bankakerfis að nýju skilyrði fyrir aðild að evru er ekki bara hræsni, það gerir illt verra."

Greinin snýr að mestu að vanda banka í A-Evrópu sem flestir eru undir stjórn vestrænna banka. Vandi þeirra er mikill, hann er að miklu leyti "búinn til af vestrænum bönkum" og eftirlitsmenn hafa brugðist í að vara við öfgum. Hljómar það kunnuglega?

Móðurfélögin hafa takmarkaða getu til að styðja við dótturfyrirtæki sín í A-Evrópu. Svo spurningin er hvaða bankar það séu sem á að bjóða eignarhlut í þeim íslensku? Hvaða styrk munu þeir hafa til að styðja við dótturfélög á Íslandi?

Hvað þýðir þessi hurðarskellur fyrir Ísland? Ef skipta á út krónunni fyrir evru og fara réttu leiðina er hún löng og tímafrek. Ef það tæki Ísland fast að áratug að uppfylla núgildandi Maastricht skilyrðin fimm og ef hið nýja skilyrði verður sá þröskuldur sem Erik Berglof lýsir, er varla hægt að búast við evru á Íslandi fyrr en 2023. Kannski síðar.

Það er þá ekki um annað að velja en að hvetja íslensku krónuna til dáða!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband