26.11.2008 | 23:16
Djöfulli ertu í ljótum kjól. Má bjóða yður salat?
Háskólabíó var fullt út úr dyrum. Þangað hafði ráðamönnum verið boðið til að vera viðmælendur svo fólkið gæti talað við þá milliliðalaust. "Fundurinn er til að spyrja og fá svör, til að upplýsa okkur um hvað er að gerast á Íslandi í dag" sagði fundarstjóri. Þung áhersla var lögð á að við værum ekki bara mótmælendur heldur viðmælendur. Dónaskapur og frammíköll ættu ekki erindi í þetta boð. Hann var sýndur í beinni á RÚV.
Gestgjafinn á fundinum var almenningur, gestirnir voru ráðherrar og þingmenn. Sjálfboðaliðar sáu um undirbúning og framkvæmd. Fundarstjóri brýndi fyrir fólki að sýna gestum sínum kurteisi. Við erum nefnilega enginn skríll. "Við fengum fólk í heimsókn og við "treatum" það eins og gestina okkar" sagði hann. Fólk var beðið um að vera gagnort, málefnalegt, kurteist og skemmtilegt.
Ég var ekki alveg sáttur við hvernig þessi fundur þróaðist. Það kemur fram í næstsíðustu færslu sem var skrifuð strax og fundinum lauk. Eftir að hafa skoðað fundinn aftur ákvað ég að blogga um hann aftur. Og það verður að fylgja að fundarmenn töluðu á eigin ábyrgð, Gunnar fundarstjóri sagði í byrjun að hann vissi ekki um hvað fólk ætlaði að tala. Ræður voru því ekki ritskoðaðar.
Byrjunin var glæsileg. Erindið sem Þorvaldur Gylfason flutti var mjög gott, skýrt, greinargott og vel flutt. Honum dugðu ekki þær 5-7 mínútur sem framsögumönnum voru ætlaðar. Það var ekki vegna orðlenginga heldur þurfti hann að gera mörg hlé á máli sínu vegna lófataks sem hann uppskar verðskuldað frá áhorfendum. Enginn framsögumaður notaði minna en tvöfaldan áætlaðan tíma.
Silja Bára Ómarsdóttir flutti sín rök fyrir því að við verðum að fá að kjósa. Benedikt Sigurðarson gerði snaggaralega úttekt á verðbótum fyrr og nú. Síðan kom Margrét Pétursdóttir verkakona. Hún átti fína spretti en var líka ókurteis. Það var snjallt hvernig hún sýndi hversu auðvelt er að standa upp úr stólunum. En það var að sama skapi fádæma ókurteist að lýsa áhyggjum af "norska skógarkettinum sem liggur í kjöltu seðlabankastjóra, malandi undan strokum hans." Hún var að tala um forsætisráðherra, einn af gestunum í boðinu.
Ef þú býður fólki í mat, sestu ekki til borðs með hópi gesta og segir við einn þeirra: "Djöfulli ertu í ljótum kjól! Má bjóða yður salat?" Sá gestur mun ekki þiggja hjá þér heimboð aftur. Alla vega ekki ótilneyddur. Þannig "treatar" maður ekki gestina sína. Við viljum ekki láta kalla okkur skríl, sagði einhver.
Mörgum fannst þetta "rosalega gott hjá henni". Fyndið og bara "gott á 'ann". Og fjölmiðlarýnir Fréttablaðsins í dag hrósar fundarstjóra fyrir "að láta skömmustulega stjórnamálamennina fá það óþvegið." En það er bara ekki hlutverk fundarstjóra. Þeim var jú boðið sem viðmælendum.
Það er einmitt þetta með fundarstjórnina. Hún er kúnst. Hlutverk fundarstjóra er að sjá til þess að spyrjendur geti spurt og viðmælendur þeirra svarað. Ekki að taka afstöðu eða láta menn fá það óþvegið. Sjálfsagt að vera á léttu nótunum og koma með smá grín. En ekki ef grínið er meinfyndni sem undantekningalaust er beint að öðru liðinu.
Fundarstjóri á ekki að bera upp tillögu með kommentinu "við reyndar treystum ykkur ekki". Og hann grípur ekki fram í fyrir iðnaðrráðherra með "ég þarf ekkert að vita þetta ég get lesið um það í blöðunum". Eða segja að dómsmálaráðherra hafi ekki getað mætt af því að "það er sprungið á löggubílnum, eða eitthvað". Og hann á alls ekki að grípa spurningu sem beint er til ráðherranna og segja: "Ég get svarað fyrir þau, þetta heitir að hlusta ekki." Þó að það sé fyndið. Ráðherrarnir voru viðmælendur og þannig "treatar" maður ekki gestina sína.
Það voru teknar nokkrar spurningar í einu og svo svarað. Undir lokin, þegar tíminn var að klárast, var hins vegar ein spurning í einu og svarað jafn harðan. Það gaf miklu betri raun og vona ég að ef leikurinn verður endurtekinn að sá háttur verði hafður á. Þá týnast síður spurningar eins og fín spurning frá Lilju seint á fundinum sem spurði hversu margar undirskriftir þyrfti til að stjórnin færi frá. Henni var aldrei svarað og aldrei beint til ráðherra. Já, hversu marga þarf til að knýja fram stjórnarskipti? En þjóðaratkvæði?
Undir lokin kom seðlabankastjóri til tals. Um hann sagði fundarstjóri: "Við skulum bara hætta að hlusta á Davíð. Það er lang einfaldasta lausnin á því máli, hættum að hlusta á Davíð. Leyfum honum bara að vera þarna. Og svo bara talar hann og talar og það hlustar enginn á hann."
Nei, herra fundarstjóri, það er ekki í lagi að leyfa honum að vera þarna. Og nei, herra fundarstjóri, við megum ekki leyfa honum að tala og tala. Hvers vegna? Ég skal koma með þrjár vísbendingar: Kastljós, morgunverðarfundur, Bretland.
Þrátt fyrir þennan útásetning tek ég ofan fyrir þeim sem stóðu að fundinum. Það er þrekvirki hjá þessum hópi, sem byrjaði smátt í Iðnó, að fylla Háskólabíó og fá ráðamennina til að mæta. Virkilega glæsilegt framtak. En það má alltaf gera betur. Jafnvel miklu betur.
Það á ekki að nota svona fund til að velgja ráðamönnum undir uggum. Menn hafa fjölmörg tækifæri til þess, á útifundum, blogginu, blaðagreinum og víðar. Það sem af er kreppu höfum við að eins fengið eitt tækifæri til að tala beint við ráðamenn og það var í Háskólabíói á mánudaginn. Bjóðist annað tækifæri þarf að nýta það betur.
Það kom heldur lítið út úr fundinum. Það má gagnrýna ráðamenn fyrir sum svör þeirra og viðbrögð og gestgjafarnir fóru heim lítils vísari. En ráðamenn fundu að það er þung undiralda og megn óánægja í samfélaginu. Þeir fengu skýr skilaboð um það og leið ekki vel á sviðinu. Kannski var það eini áþreyfanlegi árangur fundarins. Ég er ekki viss um ráðherrarnir vilji koma aftur en munu líklega mæta samt, tilneyddir, vegna þrýstings í samfélaginu.
Kannski hljóma þessi skrif eins og vörn fyrir ríkisvaldið og það er ekki sérlega svalt þessa dagana. En svo er ekki, heldur hugsað sem gagnrýni í von um að betur takist til næst. Bendi í því sambandi á fyrri færslur eins og þessa um hvers vegna ég mæti á Austurvöll á laugardögum, þessa um hugmyndir mínar um breytingar í stjórnkerfinu og kosningar, og ekki síst þessa um hvað ég óttast að muni gerast ef engu verður breytt. Árangurinn næst ekki nema við "treatum" gesti okkar á tilhlýðilegan hátt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.