Kúnstin að botna eitthvað í þessu kvenfólki - Leiðarvísir fyrir sanna karlmenn

Ímyndaðu þér að það sé laugardagur. Þú situr fyrir framan sjónvarpið að horfa á enska boltann í beinni. Pizzan er á leiðinni og þú ert rétt búinn að opna bjór númer tvö. Ekkert getur bætt þetta augnablik, nema kannski stærri flatskjár. Þá birtist daman þín í dyrunum og spyr:

"Hvað heldurðu eiginlega að þú sért að gera?"

Er þetta venjulega spurning?
Nei, þetta er sérstök trikk-spurning sem konur nota til að hafa stjórn á karlmönnum. Trikkið er, að það skiptir engu hverju þú svarar, innan hálftíma eruð þið saman í Húsasmiðjunni að velja rétta sturtuhengið. Kannski gardínur.

Hvernig virkar þetta?
Það veltur á eðli spurningarinnar. Konur eiga vænan forða af trikk-spurningum sem ekki er til neitt rétt svar við. Hér er eitt algengt dæmi:

"Finnst þér að ég hafi fitnað?"

Öll svör við þessari spurningu verða túlkuð sem já. "Nei", þýðir já. "Ég veit það ekki", þýðir já. "Það skiptir engu", þýðir já. Minnsta hik, er hreint og klárt já. Eini raunhæfi möguleikinn er að segja "nei". Þú verður að segja það snöggt og örugglega eins og þú sért að tala um viðurkennda staðreynd en ekki skoðun. Þetta virkar ekki, en allir aðrir kostir eru verri.

Það eru til nokkrar aðrar spurningar þar sem "nei" er eina leyfilega svarið og nokkrar þar sem fumlaust og öruggt "já" er nauðsynlegt. Í þessum tilfellum er ekki líklegt að útskýringar borgi sig. Heldur ekki tilraun til að vera fyndinn. Skoðaðu þennan hjálparlista:

        Ávallt skal svara "nei"
        Hrífstu stundum að annarri?
        Ertu orðinn þreyttur á mér?
        Er ég nokkuð fyrir sjónvarpinu?
        Hugsarðu ennþá um hana?

        Ávallt skal svara "já"
        Elskar þú mig ennþá?
        Dreymir þig stundum dagdrauma um mig?
        Finnst þér hárið á mér fínt svona?

Því miður eru yfirheyrslur kvenna oft þannig að hjálparlistar um Já og Nei duga ekki. Þær geta orðið býsna flóknar, jafnvel farið út í gátur. Til dæmis þessa:

"Hvora skóna finnst þér að ég ætti að fara í?"

Nú eru góð ráð dýr. Þið eruð að fara út að borða og þegar orðin frekar sein. Þá kemur hún, klædd í kjól og skó, leggur aðra skó á gólfið og varpar fram þessari lúmsku gátu. Að svara henni er flóknara en að leysa þetta með eggið og hænuna.

Ef þú velur skóna sem hún er í ertu að reka á eftir henni. Ef þú velur hina er það af því að þú heldur að þú eigir að segja það. Sumir karlmenn gera þau mistök að stinga upp á þriðja skóparinu, en það er ekkert annað en árás á smekk hennar. Eða tilefni fyrir hana til að gera árás á þinn. Undir engum kringumstæðum skaltu leggja til að hún fari í annan kjól, þú gætir allt eins sagt: Þú ert feit.

 

skór

En hvers vegna er hún að spyrja þig? Hún veit að þú veist ekki hvorir skórnir eru betri og hún veit að þér er alveg sama. Þetta er hluti af valdabaráttunni, sem heldur áfram þangað til þú ert orðinn húsvanur. Þetta kemur upp með reglulegu millibili, t.d. þegar hún tekur þig með sér að kaupa handklæði eða bollastell

Í þeim tilfellum ætti "ééég veit það ekki" að duga, en það máttu alls ekki nota við stóra skó-vandamálið. Þá missir þú af borðinu og kvöldmatnum. Það sem þú gerir er þetta: Þú biður hana að prófa að fara í hina skóna og segir svo að skórnir sem hún var í séu betri. Með þessu ertu laus. En því aðeins að þú segir ekki orð þegar hún velur seinna skóparið af því það passar betur við kjólinn. Næsta spurning:

"Hvernig sérðu samband okkar þróast?"

Þessi er erfið og gæti leitt þig út í langar samræður. Hér dugir ekki að reyna að komast undan með fyndni og segja "áfram" eða "upp". Þessi spurning veldur árekstri. Hún vill fá heiðarlegt og hjartnæmt svar um rómantískt samband og að þið eigið saman rósrauða framtíð. Þú vilt fá einfaldari spurningu. Ekki er hægt að sleppa undan þessari árás öðru vísi en að nefna eitthvað af því sem þú veist að hún vill heyra, nema þú kunnir leiðina út úr vandanum.

Til þess þarftu að læra þekkja þennan flokk spurninga; þ.e. spurningar sem svara skal með annarri spurningu. Svokölluð spurninga-svör. Þegar menn þekkja þær er næsta auðvelt að blaka frá sér yfirvofandi yfirheyrslum. Hér eru nokkur góð dæmi:

Hún: Hvernig sérðu samband okkar þróast?
Þú: Hvernig sérð þú samband okkar þróast?

Hún: Finnst þér hún falleg?
Þú: Hún hver?

Hún: Viltu giftast mér?
Þú: Í hvaða bíói er hún sýnd?

Hún: Hvað myndirðu gera ef ég væri ólétt?
Þú: Hvað, ertu ólétt?
Hún: Af hverju spyrðu! Finnst þér ég feit?

Úpps! Þarna lentum við í vandræðum. Þetta hefðir þú átt að sjá fyrir og nota frekar eitthvað fáránlegt svar.

Hún: Hvað myndirðu gera ef ég væri ólétt?
Þú: Hvað ef ég væri óléttur?

Auðvitað er þetta bull en þú vinnur þér smá tíma til að finna betra svar. Þá er gott að nota hjálparlista fyrir spurninga-svör sem hægt er að nota við ýmist tilefni. Þau innihalda meðal annars:

Hvers vegna spyrðu? Hvað telst vera mikið?
Ætti ég að vera það? Hvað áttu við?
Skiptir það máli? Varstu að tala við mig?
(Ath. að Ertu byrjuð á túr? er ekki í þessum flokki.)

Kíkjum næst á stærðfræðispurningu:

 "Hvað hefurðu sofið hjá mörgum?"

Í þetta sinn getur þú einfaldlega sagt henni satt (nema sannleikurinn sé meira en 12) eða þú getur giskað á töluna sem þú heldur að hún búist við. Eins og gildir um öll reikningsdæmi er mun auðveldara að svara ef maður kann formúlu. Eins og þessa:

Fjöldinn sem hún hefur sofið hjá + fjöldinn sem hún veit að þú hefur sofið hjá + fjöldinn sem þú hefur sofið hjá. Svo deilir þú í summuna með 2. Þegar útkoman hefur verið námunduð í næstu heilu persónu færðu út tölu sem ætti að vera í lagi. Ef útkoman er stærri en tólf, þá segirðu bara tólf.

Þessi formúla virkar svo lengi sem hvorugt ykkar hefur atvinnu af kynlífi. Höldum áfram.

"Af hverju ertu með þetta tuð?"

MávahláturÞessi klassíska perla er ekki spurning. Henni er beitt ef þú kvartar yfir smáatriðum; búðarhnupli eða bílstjórum sem keyra of hratt, eða yfir hávaða á djamminu og að aldrei séu lausir stólar. Henni á ekki að svara.  

Ef þú svarar með því að benda henni á að hún sé alltaf að kvarta yfir öllu sem þú gerir gæti hún átta sig á hvað þú ert vonlaus og sparkað þér. Og talandi um það ...

"Ertu að segja að þú viljir slíta sambandinu?"

Konur eru eins og lögfræðingar, þær spyrja sjaldan spurninga nema vita svarið fyrirfram. Hvernig kvenkyns lögfræðingar spyrja veit ég ekki og ég vil ekki vita það. Málið er að þegar kona spyr þig þessarar spurningar veit hún að svarið verður "nei". Annars hefði hún aldrei spurt.

Jafnvel þó þig langi til að segja já muntu segja nei. Það er alls ekki hægt að varpa þessari spurningu til baka því þú veist aldrei hverju hún myndi svara. Ef þú ert að reyna að slíta sambandinu þarftu samt að segja nei og fara í gegnum allan segja-upp-pakkann. En ef þú vilt ekki slíta því er best að skipta um umræðuefni. Kíkjum á eitthvað léttara.

"Tekurðu eftir einhverri breytingu?"

Þessi er ívið léttari. Hún er í sérstökum flokki með tveimur öðrum spurningum sem eru "Ertu búinn að gleyma hvaða dagur er?" og "Heyrirðu það sem ég er að segja?" Þar sem þetta eru spurningar sem er auðveldara að svara rangt en rétt er best að nota bara fíflaskap.

Hún: Tekurðu eftir einhverri breytingu?
Þú: Keyptirðu nýja svuntu?

Hún: Ertu búinn að gleyma hvaða dagur er?
Þú: Nei, það er þriðjudagur.

Hún: Heyrirðu það sem ég er að segja?
Þú: Já, ég veit það elskan.

Hahh fyndið? Það er ekki þín sök ef hún nær þessu ekki. Ef hún vill fá betri svö þarf hún að fara að spyrja betri spurninga. Spurninga eins og:

"Hefurðu litið á sjálfan þig nýlega?"

Þessi spurning og hin óvelkomna frænka hennar, "Hver heldurðu eiginlega að þú sért?" eru til að minna þig á að hún var hálfpartinn að aumka sig yfir þig þegar þið byrjuðuð saman. Líklega kallaðir þú þetta yfir þig sjálfur með því að segja að Brad Pitt væri að verða þybbinn eða að Jack Nicholson þurfi ekki að bíða eftir munngælum þangað til hann á afmæli. Þú þarft ekki að svara þessum spurningum. Þú getur reynt að afsaka þig, en betra er nýta réttinn til að vera ekki fullkominn - og brosa. Næsta spurning:

"Heldurðu að þú verðir mér alltaf trúr?"

Eins og flestar sálfræðispurningar sem virðast dúkka upp, alveg upp úr þurru, dúkkar þessi spurning ekki upp, alveg upp úr þurru. Þetta er dulbúið tékk á trúmennsku þinni og líklega til að athuga hvort þú hafir verið henni trúr við eitthvað sérstakt tilefni. Hér er nauðsynlegt að afrugla spurninguna og svörin þín líka, því að þau eru líka dulkóðuð. Ráðlegt er að kynna sér helstu þýðingar áður en spurningunni er svarað:

Hún spyr: Heldurðu að þú verðir mér alltaf trúr?
Þú svarar: Já.
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Hann er að fela eitthvað.

- eða, þú svarar: Það veltur á ýmsu.
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Ég vissi það!

- eða, þú svarar: Hvers vegna spyrðu?
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Drullusokkur!

- eða, þú svarar: Ég vet það ekki, en hvað um þig?
Þú meinar: Hvað veit hún mikið?
Hún hugsar: Hvað veit hann mikið?

Það eru til nokkur önnur tilbrigði sem ekki verður farið yfir hér. Þegar hér er komið sögu ertu hvort sem er í vondum málum. Það skiptir ekki öllu máli hvað þú segir svo lengi sem þú roðnar ekki.

Lítum næst á spurningar sem kerfjast þess að þú beinlínis ljúgir:

"Á hvað varsu að horfa?"

Hún meinar "þú varst að horfa á rassinn á þessari ljóshærðu". Og þú sem hélst að þú værir orðinn svo góður í að horfa án þess að hreyfa hálsinn. Bara gjóa augunum svo ekkert bæri á. Augljóslega er ekki hægt að svara með því að segja satt. Heiðarlegt svar gæti vissulega losað þig úr sambandinu sem er ekki ráðlegt nema þú sért áður búinn að tryggja þér annan samastað. Það kann að virðast einfalt að svara þessari spurningu með lygi, en þegar menn hafa sofnað á verðinum er vörnin orðin erfiðari.

Hér eru dæmi um algeng mistök sem menn gera þegar þeir eru spurðir "á hvað varstu að horfa?"

Of nákvæmt: "Hvað naglarnir eru farnir að ryðga á póstkassanum þarna."
Ekki nógu nákvæmt: "Þetta þarna."
Of gott til að vera satt: "Demantshálsfestina í glugganum, hún færi þér svo vel."
Of satt til að vera gott: "Gegnsæja undirkjólinn í glugganum, hann færi þér svo vel."
Of augljóst: "Ekkert."
Allt of augljóst: "Ljóskuna þarna með stóru ... ég meina, ekkert."

Hér er svo önnur þar sem beita þarf smá túlkunum:

"Hvað eigum við að gera í málinu?"

Þessi spurning brýst fram þegar í vanda er komið, líklega óleysanlegir erfiðleikar í sambandinu. Það sem hér þarf að túlka er hið dularfulla "við" í miðri spurningunni. Orðið þýðir oftast "þú", þ.e. hvað ætlar þú að gera í málinu?

Við sérstakar aðstæður getur "við" líka þýtt "við erum í þessu saman" til dæmis í merkingunni að þú berir jafn mikla ábyrgð og hún á því að hún missti bíllyklana niður í ræsið eða því að hún geymi tjakkinn og varadekkið í bílskúrnum svo að því verði ekki stolið.

Við þannig aðstæður er eina svarið sem þér dettur í hug "við ætlum að hætta saman, vertu bless". Líklegast er að þú segir samt ekkert. Þá er ákveðin hætta á því, eftir stutta þögn, að hún láti hina skelfilegu spurningu vaða:

"Af hverju segir þú ekki eitthvað?"

Hvort þú svarar þessari spurningu eða ekki veður þú að ákveða sjálfur. En það er ein spurning sem þú mátt aldrei svara. Segðu ekki orð. Láttu frekar eins og þú hafir ekki heyrt spurningun. Gakktu burt, gerðu eitthvað. Bara ekki svara þegar hún spyr:

"Finnst þér að ég ætti að krúnuraka mig?"

Ef þú segir eitthvað, þá verður allt þér að kenna. Þó hún segi "Britney gerði það og Shinead O'Connor líka" skaltu ekki svara neinu. Því ef hún lætur verða af því og ef hún sér eftir því (sem hún mun gera) af því að henni finnst það svo mislukkað (og það er mislukkað) þá er það allt þér að kenna. Þess vegna verður þú að passa að segja ekki neitt.

En sértu alveg búinn á því getur þú reynt að muldra eitthvað (ef þú ert búinn að tryggja þér annan samastað). Þá er þín besta von að hún komi heim krúnurökuð, horfi í augun á þér og spyrji: "Finnst þér þetta gera mig feita?" því þá veistu að þú ert einn á báti. Game over.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aradia

Ætli það sé tilviljun að það sé aðeins ein kona í bloggvinalistanum þínum?

Aradia, 1.12.2008 kl. 12:55

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

úff, þetta vakti upp minningar um hve flækja má einföldustu hluti 

Júlía, er ekki málið bara að brennt barn forðast eldinn?

Brjánn Guðjónsson, 1.12.2008 kl. 13:14

3 Smámynd: Aradia

Brennt barn forðast eldinn því það kann ekki að fara með eld ;)

Aradia, 1.12.2008 kl. 13:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband