8.11.2011 | 12:55
Hræsni
Þótt Berlusconi sé bæði skrýtinn og spilltur er hann réttkjörinn leiðtogi á Ítalíu með lýðræðislegt umboð frá kjósendum. Vilji menn losna við hann á að gera það á ítölskum forsendum eftir leikreglum lýðræðisins.
Það skiptir nefnilega miklu máli hvernig hlutina ber að.
Engum dylst að Merkozy hefur grafið undan trausti Berlusconis, meira að segja hló að honum í beinni. Skriflegar fyrirskipanir frá ECB og kröfur ESB um niðurskurð, skattahækkanir og eignasölu eru afskipti sem miða að því að bola Berlusconi frá völdum. Þá fá þau einhverja Bossi dyramottu í staðinn.
Þegar Berlusconi missir embættið mun Merkozy mæra hann af sömu hræsninni og þegar þeim tókst að bola forsætisráðherra Grikklands frá. Það þótti algjör nauðsyn, annars hefði hann leyft þjóð sinni að kjósa um stöðu sína og framtíð.
Merkozy tjáði sig þá, í sitt hvoru lagi. Merkel sagðist virða ákvörðun Papandreous og talsmaður Sarkozys hrósaði Grikkjum fyrir þá góðu lausn að mynda þjóðstjórn. Þvílík hræsni.
Eftir að hafa fellt tvær lýðræðisleg kjörnar ríkisstjórnir, er Merkozy komin í hörkuþjálfun. Fyrst Slóvakía, svo Grikkland og lýðræðinu hent í ruslflokk. Þegar Ítalía bætist á afrekaskrána mun ekki vefjast fyrir þeim að þakka Berlusconi góð kynni og hrósa honum smá um leið og kætast yfir að hafa bolað honum í burtu líka.
Og allt er þetta gert til að bjarga evrunni!
Bossi vill að Berlusconi segi af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Finnst þér eitthvað skrýtið að þeir sem þurfa að borga brúsann fyrir óráðsíuna hjá þessum mönnum telji sig hafa rétt til að skipta sér af. Það eru skattborgarar Þýskalands, Frakklands og fleiri ríkja sem borga brúsann.
Ef þú þyrftir að borga skuldir ættingja þíns vildir þú væntanlega hafa hönd í bagga og sjá til að hann eyddi ekki peningunum þínum í vitleysu.
Hvað Berlusconi varðar hefur honum sjálfum tekist ágætlega hingað til að grafa undan eigin trausti og að láta ummheiminn hlægja að sér.
Einar Steinsson, 8.11.2011 kl. 13:30
En fullkomlega sammála- lýðræðislegar kosningr en ekkert Steingríms J. og/eða kommúnista kjaftæði.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 8.11.2011 kl. 15:07
Afar glögg greiningarskrif hjá þér, Haraldur. Nú fellur Berlusconi – og það fyrir þrýsting "Merkozy", eins og þú segir – eins og ég leyfði mér í takt við vísbendingar í fréttum að spá hér í fyrradag.
Leitt, að margir skuli vera sofandi fyrir þessu, sem þú ræðir um hér. Dæmi Slóvakíu var nógu slæmt, en nú hefur heldur betur bætzt við. Annars er þetta gamalkunnugt mynztur (í nýrri og alvarlegri birtingarynd þó), sbr. Tékkland, Pólland, Írland ... og ef við förum lengra aftur: sbr. höfnun franskra og hollenzkra kjósenda á stjórnarskrá Esb., sem þó var troðið í gegn og þá án þess að spyrja kjósendur eins né neins (= Lissabon-sáttmálinn, sem tvöfaldar t.d. nánast atkvæðavægi Þýzkalands í ráðherraráðinu – og annað eftir því).
Þín vakt á atburðarásina þarna úti er mjög dýrmæt.
Jón Valur Jensson, 8.11.2011 kl. 15:58
Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.
Einar Steinsson: Ég er ekki að bera í bætifláka fyrir Berlusconi heldur að benda á það stórhættulega athæfi að ýta lýðræðinu til hliðar og fjarstýra með hótunum frá Brussel stóru ríki sem sumir trúa enn að sé sjálfstætt og fullvalda.
Ítalir hafa skuldsett sig hraustlega áður og skuldað meira en þeir gera í dag, án þess að setja Evrópu í uppnám eða ESB í fallhættu. Þá voru þeir með sinn eigin gjaldmiðil. Þetta er nefnilega ekki skuldavandi heldur evruvandi. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Með því að taka upp evru kastaði Ítalía frá sér peningalegu fullveldi. Aðgerðirnar núna snúast ekki um "að borga brúsann" heldur að slá skjaldborg um nokkra stóra banka. Allt til að bjarga evrunni.
Það skelfilega er að fólki skuli finnast það allt í lagi að ítalska þingið sé núna þvingað, eins og það gríska, til að fjalla um niðurskurðarkröfur frá Frankfurt og Brussel. Að Merkozy geti ýtt til hliðar réttkjörnum stjórnvöldum þriggja ríkja - algerlega óháð því hversu góð eða slæm okkur kann að finnast þau.
Þegar lýðræðinu er úthýst fer samfélaginu að hnigna.
Haraldur Hansson, 8.11.2011 kl. 20:27
Vel mælt.
Jón Valur Jensson, 8.11.2011 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.