5.10.2011 | 00:58
Græðgin magnast - skaðlegt kerfi heldur velli
EUobserver birti áhugaverða fréttaskýringu um fiskveiðistefnu ESB, sem eru niðurstöður úr sjálfstæðri rannsókn ICIJ blaðamanna. Fyrirsögn greinarinnar er ESB styrkir magna græðgi spænska flotans". Íslenska samninganefndir hlýtur að taka þessa rannsókn til skoðunar.
Ofveiði í áratugi hefur stórskaðað útgerð í ESB löndunum. Boðaðar endurbætur á sameiginlegu fiskveiðistefnunni reyndust miklar umbúðir um lítið innihald. Vindurinn er farinn úr seglunum og líklegt að engu verði breytt, eins og venjulega.
Gallað og skaðlegt kerfið heldur velli.
Hundruð milljarða fara í styrki til að byggja skip, gera þau út til veiða og loks til að úrelda þau. Spánn er stærsti styrkþeginn og ofvaxinn flotinn sogar til sín styrki í vonlausan taprekstur. Litlar 928.000 milljónir króna frá aldamótum, auk 320.000 milljóna í afslátt af sköttum á eldsneyti. Spánverjar eru stærstir en hinir engu skárri. Evrópskir skattgreiðendur borga brúsann.
Íslensk útgerð má aldrei fara inn í styrkjakerfi. Um leið og tekið væri við fyrstu evrunum myndi atvinnugreininni byrja að hnigna. Afleiðingarnar fyrir íslenskt samfélag yrðu miklar og neikvæðar.
Vönduð greining ICIJ blaðamannanna er mjög fróðleg lesning. Lýst er inn í skúmaskot hins spillta styrkjakerfis ESB. Ekki neinn gleðilestur fyrir aðildarsinna, en þeir ættu samt að kynna sér niðurstöðuna. Kannski þeir rumski.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.