20.7.2011 | 08:32
Förum í stríð! Það eru 133 krónur í húfi
Ef 133 krónur er ekki ástæða til að fara í stríð, hvað þarf þá til? Eftir að Stöð 2 birti hræsnisfréttina sína tók samfylkingarvefurinn Eyjan við undir fyrirsögn í binga stíl. Athugasemdirnar eru í samræmi við það.
Það skal ráðist á bændur og lumbrað á þeim. Þeir geta ekki farið í verkfall eins og launamenn til að sækja kjarabætur. Leið þeirra er að fá afurðaverð hækkað þegar nauðsyn krefur. Það er notað sem tylliástæða fyrir árásunum.
Bændur eru sagðir skerða kjör landans með frekjulegum hækkunum. Ef rýnt er í tölur Hagstofunnar um neysluútgjöld og dæmið reiknað til enda, kemur í ljós að hin frekjulega hækkun" kostar meðal Íslending 133 krónur á mánuði.
Einn hópur manna þarf enga tylliástæðu.
Síðustu daga hafa komið þrjár árásir úr þeirri átt. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ vill sniðganga lambakjöt, Þorsteinn Pálsson fulltrúi í ESB samninganefndinni fór langt út fyrir mörk skynseminnar í Fréttablaðsgrein og Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri sama blaðs leggur leiðara undir hnútukast í garð bænda.
Lykilatrið í þessu sambandi er þetta:
Þeir Gylfi, Þorsteinn og Ólafur eru allir samfylkingarmenn sem dreymir um inngöngu í Evrópusambandið. Tveir þeirra eru reyndar flokkavilltir felukratar sem eiga skírteini í öðrum flokki, en kratar samt.
Aðildarsinnar ráðast reglulega á bændur til að lækka varnir þeirra, enda líta þeir á þá sem hindrun á leiðinni til Brussel. Það er hin raunverulega ástæða fyrir stóra lambakjötsmálinu. Þeir "gleyma" smáatriðum eins og að við inngöngu myndu íslenskir skattgreiðendur borga 100 milljónir á mánuði í niðurgreiðslu á evrópskum landbúnaði.
Ólafur ritstjóri endar leiðara sinn á þessum orðum:
Búnaðarþing virðist vilja setja íslenzkan landbúnað í einhvers konar tímahylki og varðveita hann þar. Viljum við hin vera með í þessu hylki?
Hvar hefur maðurinn verið? Fáar stéttir, ef nokkur, taka bændum fram í hagræðingu, nýbreytni og góðu framtaki síðustu tvo áratugina eða meira. Þeir hafa tekið upp nýjungar í búskap og aukið framleiðni stórkostlega. Kornrækt, gróðurhús, orkuframleiðsla, skógrækt, ferðaþjónusta og nýjungin Beint frá býli eru dæmi um kraftinn í bændum.
Hugmyndir Ólafs um bændur eru hins vegar pikkfastar í tímahylki. Eða þá að það hentar ekki málstaðnum að opna augun. Það sem ég hef að segja um íslenska bændur má sjá með því að smella hér.
Nýjasti þátturinn í stóra lambakjötsmálinu er að ráðast gegn ráðherra fyrir að leyfa ekki innflutning. Er ekki best að hann sæki sér fyrirmynd til Evrópuríkisins? Það er jú fyrirheitna land uppgjafarsinna.
Þar er innflutningur á matvælum hressilega tollaður eða beinlínis bannaður frá löndum utan sambandsins. Styrkir og tollvernd eru nefnilega ekki íslensk fyrirbæri, aldeilis ekki. En það hentar tilgangi árásanna best að "gleyma" aukaatriðum eins og sannleikanum.
Þetta 133 króna stríð er orðið átakanleg della.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:13 | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill,ég segi við bændur,,látið ekki svínbeygja ykkur.,,
Helga Kristjánsdóttir, 20.7.2011 kl. 10:17
Ég vil sko hafa mitt kjet og engar refjar! Ég kippi mér nú ekki mikið upp við það þó Gylfi Arnbjörnsson hafi hátt. Bændur eru ekki of sælir af sínu, og ég mun því ekki breyta lambakjötsneyslu minni neitt. Og skora á landsmenn að gera slíkt hið sama :-)
Sigríður Jósefsdóttir, 20.7.2011 kl. 12:28
það er ekki hægt orðið að kaupa Lambakjöt lengur,það er ekki nógu feitt..
Vilhjálmur Stefánsson, 20.7.2011 kl. 16:19
Þetta snýst ekki bara um þessa hækkun heldur gífurlega háa styrki til landbúnaðarins auk einokunaraðstöðu í skjóli tollverndar. Þegar landbúnaðurinn er að svona miklu leyti fjármagnaður í gegnum skatta þá vekja allar svona auka hækkanir mikla athygli hvort sem þær eru réttmætar eða ekki.
Það er ágætt að einhver taki loksins upp hanskann fyrir neytendur en ég er fylgjandi því að neytendur hafi frjálsara val. Núverandi kerfi hefur mjög heftandi áhrif á vöruúrval. Ég ætla nú ekki að fara að dásama ESB en með því að leyfa frjálst flæði varnings innan ESB þá eru amk fjölbreyttari valmöguleikar heldur en að mega bara kaupa íslenskt. Tollamúrar utanum ESB takmarka auðvitað vöruskipti við lönd utan sambandsins en þá getum við amk flutt inn vörur þaðan í staðinn fyrir engar. Ekki koma með tugguna um tvíhliða samninga við önnur lönd. Bændur vilja auðvitað enga þannig samninga og myndu berjast á móti öllu slíku af hörku eins og hingað til.
Frjálsari verslun með landbúnaðarvörur er eitthvað sem mig dreymir um hvort sem við förum í ESB eða ekki.
Auk þess finnst mér yfir 30.000 kr á íslending á ári í styrki til landbúnaðarins vera út í hött. Inni í þessu eru líka íslendingar sem greiða ekki skatt ss. börn og gamalmenni svo skattbyrðin er í raun töluvert hærri á skattgreiðendur.
Svo má líka velta upp af hverju fólk sem borðar ekki íslenskar landbúnaðarafurðir þurfi að borga fyrir þær? Þetta er eins og nefskattur RÚV nema bara hærri.
Kommentarinn, 20.7.2011 kl. 17:18
Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.
Kommentari: Það er sama hversu fallegt er um að litast í Útópíu, raunveruleikinn er eins og hann er. Í öllum vestrænum ríkjum er landbúnaður styrktur og/eða varinn með tollum.
Í USA eltu bændur styrkina, skiptu yfir í soja og maís og lögðu milljónir hektara undir ræktina. Stærsta einstaka verkefni ESB eru styrkir til landbúnaðar eftir tveimur ólíkum kerfum þar sem sumir eru jafnari en aðrir. Aðeins Nýja Sjáland braut upp mynstrið með fínum árangri. Önnur ríki eru ekki líkleg til að gera eins og enn síður stórt ríkjasamband.
Frjálsari verslun með landbúnaðarvörur væri til bóta, en það er ekki í sjónmáli að einn felli varnir sínar ef hinir gera það ekki. Og hvers vegna má ekki nefna tvíhliða samninga? Við erum nú þegar með 22 slíka.
Athugasemd þín er flott ... þangað til í lokin.
Er einhver til sem ekki notar landbúnaðarafurðir? Ekki einu sinni mjólk og ost fyrir börnin? Borðar eingöngu fisk og innflutt grænmeti? Ef svo væri mætti eins spyrja hvort sá sem er fílhraustur og leitar aldrei læknis ætti ekki að borga minna til samfélagsins. Eða sá sem hættir í skóla eftir skylduna. Eða sá sem á ekki bíl. Eða sá sem fer aldrei á Sinfóníuna.
Hinn óskráði samfélagssáttmála einfaldlega virkar ekki þannig. Nema menn vilji minnka „ríkisafskipti“ niður í næstum ekkert og einkavæða grunnþjónustu. Það er sjónarmið, en á sér lítinn hljómgrunn.
Haraldur Hansson, 21.7.2011 kl. 01:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.