27.6.2011 | 22:33
Lissabon bandormurinn: Meingölluð íslensk útgáfa
Í dag hófust formlegar samningaviðræður Íslands við ESB í Brussel og ætla uppgjafarsinnar að fagna því saman í kvöld. Það Evrópusamband sem Ísland hóf viðræður við í dag er ekki sama Evrópusambandið og Ísland sótti um aðild að 16. júlí 2009. Svo miklar eru breytingarnar sem Lissabon bandormurinn hefur í för með sér. Einhverra hluta vegna hefur það ekki fengið neitt pláss í umræðunni.
Meðal helstu breytinga má nefna:
- löggjafarvald flutt frá aðildarríkjum til Brussel í 105 málaflokkum, sem er nýtt met í valdatilfærslu
- vetó-ákvæði felld niður á 68 stöðum, þar með skerðist áfrýjunarréttur og öryggisventill smáríkjanna
- atkvæðavægi í ráðherraráðinu er breytt, smáríkjunum verulega í óhag (vægi Íslands yrði svo gott sem þukkrað út)
- embætti utanríkisráðherra ESB og forseta leiðtogaráðsins stofnuð
Þegar lesið er í gegnum íslensku útgáfuna af samningum ESB er ekki nokkur leið að átta sig á hvaða efni Lissabon samningurinn hafði að geyma. Er það mjög í takt við stjórnarhætti í Brussel.
Það er sjálfsögð krafa að íslenskur almenningur geti kynnt sér þessar miklu breytingar í átt til aukinnar miðstýringar og minnkandi lýðræðis á móðurmálinu. Utanríkisráðherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, telur greinilega að það sé óþarft, enda er hann jafnframt aðal áróðursmeistari ESB á Íslandi.
Eins og rakið er í síðustu færslu var innihald stjórnarskrárinnar sem enginn vildi dulbúið sem bandormur og þannig komið inn bakdyramegin og framhjá lýðræðinu. En nú, þegar elítan í Brussel hefur fengið sínu framgengt, gegn vilja almennings, ætti innihaldið ekki að þurfa að vera leyndamál lengur.
Sumar upplýsingar á íslensku eru villandi eða rangar.
Dæmi: Við 26. gr. hins breytta Maastricht, sem er í þremur töluliðum, stendur: "Áður 13. gr. sáttmálans um Evrópusambandið". Þetta eru rangar upplýsingar. Aðeins helmingurinn texta 1. töluliðar er úr gamla textanum en allt hitt er nýr eða breyttur texti. Lesandinn getur ekki séð að 3/4 textans er nýr. Það er fullt af svona dæmum.
Það þurfti ekki að finna upp hjólið
Það var algjör óþarfi að hafa ísensku útgáfuna svona lélega. Það er til mjög góð fyrirmynd á ensku (hér) sem danski Evrópuþingmaðurinn Jens-Peter Bonde ritstýrði. Þar eru skýringar í inngangi, allar breytingar og nýjungar feitletraðar og bent á helstu atriði á spássíum. Það hefði verið leikur einn að gera íslensku útgáfuna eins.
Svo hefði líka mátt setja hugtakaskýringar, t.d. um að þar sem talað er um "valdheimildir sem Sambandið deilir með aðildarríkjum" er ekki átt við að ESB og aðildarríkið deili með sér jöfnum rétti til lagasetningar. Heldur það að aðildarríki getur sett lög á sviði þar sem ESB hefur ekki gripið til lagasetningar. En setji ESB lög á því sviði þá ekki aðeins taka þau um leið gildi í öllum aðildarríkjum heldur falla þau lög sjálfkrafa úr gildi, sem aðildarríki hafði áður sett.
Það sem á brusselsku heitir að aðildarríki "deili valdheimildum með sambandinu" þýðir á mannamáli einfaldlega: Brussel ræður.
Það væri hægt að nefna allmörg fleiri dæmi um háskalegt innihald og lélega íslenska útgáfu, en ég læt þetta duga. Áhugasamir geta t.d. kynnt sér með aðstoð Google hvernig nýtt embætti utanríkisráðherra vex að umfangi og völdum. Því gegnir bresk barónessa sem enginn kaus, en er samt orðin valdamesta manneskja í allri Evrópu í utanríkismálum. Þannig virkar "lýðræðið" í Brussel.
Athugasemdir
Takk Haraldur:
Helga Kristjánsdóttir, 28.6.2011 kl. 03:06
Frábær að vanda Haraldur.
Gunnar Waage, 28.6.2011 kl. 18:33
Takk fyrir frábæra færslu!
Frosti Sigurjónsson, 29.6.2011 kl. 01:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.