Um bandorm og brusselskt "lýðræði"

Utanríkisráðuneytið hefur látið þýða Lissabon sáttmálann á íslensku og birt hann á vef sínum. Stærsta gallinn við íslensku útgáfuna er að það er ekki nokkur leið að átta sig á efnisinnihaldi Lissabon sáttmálans. Því mátti hæglega komast hjá, ef vilji var til þess.

Lissabon plaggið er nefnilega ekki sáttmáli (treaty) í eiginlegri merkinu, heldur "lög um breytingar á lögum", sem jafnan er kallað bandormur.

Forsagan er sú að fyrst var stjórnarskrá (Constitution for Europe) lögð fyrir þegnana, sem höfnuðu henni. Þá var gripið til þess ráðs að dulbúa stjórnarskrána sem bandorm. Sú undarlega leið var valin af tveimur ástæðum:

       1.  Að gera innihaldið óskiljanlegt.
       2.  Að sniðganga lýðræðið.

Fyrra takmarkið náist fullkomlega. Það urðu smá hnökrar á því síðara þar sem Írar fengu að kjósa um bandorminn og sögðu nei. Þess vegna urðu tafir á gildistöku á meðan Írar voru þvingaðir til að kjósa aftur og kjósa rétt. En kíkjum nánar á þessar tvær fullyrðingar:

 

Að sniðganga lýðræðið
Eftir að stjórninni í Brussel hafði mistekist að fá þegna sína til að samþykkja stjórnarskrána varð hún að finna ráð til að fá sínu framgengt. Svarið var bandormur! Þetta þótti svo mikið snjallræði að æðstu valdamenn reyna ekki einu sinni að fara í felur með tilganginn. Hér eru nokkrar umsagnir:


Það góða við að kalla þetta ekki stjórnarskrá er að þá getur enginn farið fram á þjóðaratkvæði.
- Giuliano Amato, í ræðu í London School of Economics, 21. febrúar 2007

Inntak og eðli stjórnarskrárinnar er enn til staðar. Það er staðreynd.
- Angela Merkel, í ræðu á Evrópuþinginu 27. júní 2007

Hvers vegna þessi dulbúningur? Fyrst og fremst til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæði með því að nota ekki stjórnarskrárlegt orðalag.
- V. Giscard D'Estaing, 30. október 2007

Sá síðastnefndi var forseti stjórnarskrárnefndar ESB, svo hann veit um hvað hann er að tala. Landi hans, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, lagði þunga áherslu á það á fundi með Evrópuþingmönnum í nóvember 2007 að hin dulbúna stjórnarskrá mætti alls ekki fara í þjóðaratkvæði, því að "þá verður enginn Lissabon samningur".


Að gera innihaldið óskiljanlegt
"Stjórnarskráin átti að vera skýr, þessi samningur varð að vera óskýr. Hann hefur heppnast vel" sagði Karel de Gucht utanríkisráðherra Belgíu um samninginn. Sorglegt en satt. Lissabon bandormurinn er mikið plagg þar sem tvær lagagreinar skipta megin mál; sú fyrri í 65 töluliðum og sú síðari í 295 töluliðum. Skoðum tvö dæmi úr 2. gr., í íslenskri þýðingu:

 

72)
Grein 75 skal breytt sem hér segir:
(a) í stað orðanna "skal aflögð" í 1. mgr. skulu koma orðin "skal bönnuð"
(b) í staðinn fyrir "ráðið" í 2. mgr. skal koma "Evrópuþingið og ráðið"
(c) í staðinn fyrir "efnahags og félagsmálanefndina" í fyrstu undirmálsgrein 3. mgr. skal koma "Evrópuþingið og efnahags og félagsmálanefndina"

64)
Í stað 61. greinar skal koma kafli 1 sem fylgir hér á eftir og greinar 61 til 61 i. 61. grein skal einnig koma í stað 29. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 D skal koma í stað 36. greinar þess samnings, grein 61 E skal koma í stað greinar 64(1) í Sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins og í stað 33. greinar sáttmálans um Evrópusambandið, grein 61 G skal koma í stað 66. greinar Sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og grein 61 H skal yfirtaka 60. grein þess samnings, eins og skýrt er í 62. tölulið hér að framan.

 

Eins og sjá má er ekki hægt að fá nokkurn botn í Lissabon bandorminn öðru vísi en að samlesa hann með sáttmálum sambandsins eins og þeir voru. Það er ekki hægt að ætlast við að "venjulegt fólk" leggi í þá miklu vinnu sem þarf til að skilja innihaldið, enda var tilgangurinn að fela það. Þær greinar sem eru hreinar viðbætur er þó hægt að lesa, en þá vantar samhengið.


Það sem íslenska útgáfan segir ekki ...
Íslenska útgáfa Lissabon bandormsins er meingölluð. Úttekt á henni verður að bíða næstu færslu sem kemur eftir nokkra daga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Takk fyrir gott val á dæmum og skýra framsetningu á (viljandi) óskýru viðfangsefni.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 16.6.2011 kl. 00:03

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þessa samantekt, Haraldur.

Í hlutanum Að sniðganga lýðræðið í þessum pistli kemur fram, hvernig reynt var að fela stjórnarskráreðli Lissabon-sáttmálans "fyrst og fremst til að koma í veg fyrir þjóðaratkvæði með því að nota ekki stjórnarskrárlegt orðalag," eins og sjálfur Valéry Giscard D'Estaing komst að orði haustið 2007, og orð Angelu Merkel eru þarna einnig til vitnisburðar m.m.

Já, heilar þakkir fyrir að halda áfram að afhjúpa sannleikann um Esb.

Jón Valur Jensson, 16.6.2011 kl. 02:58

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nafnið Giuliano Amato hljómaði eitthvað kunnuglega í eyrum mínum, og það reyndist ekki vera svo að ástæðulausu. Um hann segir í Wikipediu (feitletrun mín), þar sést, að þetta er ekki einhver smákarl eða bara einhver lektor í LSE (eins og einhverjir gætu haldið):

He was Prime Minister of Italy twice, first from 1992 to 1993 and then from 2000 to 2001. He was more recently Vice President of the Convention on the Future of Europe that drafted the new European Constitution and headed the Amato Group. He is commonly nicknamed dottor Sottile, (which means both "Dr. Thin" and "Doctor Subtilis", a joke about both his physical thinness and his political insightfulness). From 2006 to 2008, he was the Minister of the Interior in Romano Prodi's government.

Þetta er sem sé maðurinn, sem sagði í ræðu í London School of Economics 21. febrúar 2007 um Lissabonsáttmálann: Það góða við að kalla þetta ekki stjórnarskrá er að þá getur enginn farið fram á þjóðaratkvæði."!

Þakka þér aftur þessar uppljóstranir, Haraldur!

Jón Valur Jensson, 18.6.2011 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband