3.10.2011 | 21:49
Excel hefur enga sál
Tölur um alvarleg vanskil og árangurslaust fjárnám segja ekki nema hálfa sögu. Þeim, sem harka af sér, líður ekki vel. En þeir borga, ennþá. Að tíunda hver fjárráða Íslendingur sé í þessum sporum er grafalvarlegt mál.
Þeir sem tekið hafa út séreignarsparnaðinn eru ósáttir. Sumir settu aurana í afborganir af lánum; greiddu inn á skuld sem hefði verið niðurfærð hvort sem er, með 110% þrældómnum. Þetta fólk sér ekkert fyrir peningana sína. Sparnaðurinn fór, réttlætiskenndinni er misboðið. Greiðsluviljinn hlýtur að fara líka.
Þótt hægt sé að reikna út bærilega stöðu með hjálp Excel eru til forsendur sem forritið þekkir ekki. Forritið getur ekki svarað spurningunni: Hvernig líður fólki?
Excel hefur enga sál og engar tilfinningar.
Excel skilur ekki vonleysi þess vaxandi fjölda sem getur borgað af lánum og keypt í matinn, en ekki leyft sér neitt. Excel skilur ekki vanlíðan fólks sem á sífellt erfiðara með að láta enda ná saman.
Ef hér væru gerðar breytingar/leiðréttingar á lánum og framfærslukostnaði hefði það jákvæð áhrif á þjóðarsálina. Alvöru lækkun á bensínverði og almenningur yrði strax sáttari. Það væri a.m.k. verið að gera eitthvað fyrir fólk.
Sáttur maður er líklegur til að vera ánægður og bjartsýnn. Það er ekki hægt að setja "ánægju" eða "bjartsýni" inn í Excel og reikna út áhrifin á þjóðarhag. Það felst mikill kraftur í líðan þjóðar. Kraftur sem hægt er að virkja til að bæta þjóðarhag. Kraftur sem ekki er hægt að útskýra fyrir Excel.
Nú þegar séreignarsparnaður og varasjóðir ganga til þurrðar hjá mörgum fjölskyldum er hætt við að fjöldi fólks í alvarlegum vanskilum fari vaxandi. Því miður er þetta með sósíalistakreppuna rétt hjá framsóknarmanninum.
![]() |
Erum stödd í sósíalistakreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.10.2011 | 08:40
Naflaframboð Guðmundar/Gnarr
Traust kjósenda á stjórnarflokkunum er svo lítið að það getur ekki talist ásættanlegt. Traustið á stjórnarandstöðunni er helmingi minna. Þetta eru kjöraðstæður fyrir ný framboð.
Guðmundur Steingrímsson hefur fengið talsverða fjölmiðlaathygli vegna vinnu að nýju framboði, eftir að hafa gengið úr bæði Framsókn og Samfylkingunni. En fyrir hvað mun nýr flokkur hans standa? Ekkert, enn sem komið er.
Fyrir utan að vilja klára samningaviðræður við Evrópusambandið er með öllu óljóst fyrir hvað þingmaðurinn stendur. Hann átti hlut að einni tillögu til þingsályktunar á síðasta vetri, um bjartari morgna og seinkun klukkunnar. Hann tók sjaldan til máls og talaði lítið. Tveir töluðu minna á síðasta vetri, annar þeirra var í löngu fríi. Guðmundur hafði ekki mikið til málanna að leggja.
Þetta undirstrikaðist í fréttaviðtali nýlega. Hann nefndi frjálslyndi og lýðræðisumbætur, sem allir flokkar gætu skreytt sig með. Rétt eins og allir vilja bæta kjör fatlaðra" í stefnuskrám sínum. Það sem hann þó nefndi var að tengja fólk og "finna nafn á flokkinn". Ekki baráttumálin, heldur nafnið. Ekki innihaldið, heldur umbúðirnar. Ef menn nýta ekki viðtal eins og þetta til að ná til fólks með baráttumál sín, þá eru málefnin ekki merkileg.
Í framhaldi af þessu má spyrja: Er Guðmundur Steingrímsson stjórnmálamaður? Það verður seint sagt að hann geisli af pólitískum metnaði.
Ný framboð hafa jafnan snúist um eitthvað áþreifanlegt og klofningsframboð stundum líka. Borgarahreyfingin var uppreisn gegn fjórflokknum undir kjörorðinu Þjóðina á þing". Frjálslyndi flokkurinn átti sitt stóra baráttumál, sem var breyting á fiskveiðistjórn, en innanmein urðu honum að falli. Bandalag jafnaðarmanna var flokkur sem Vilmundur heitinn Gylfason stefndi gegn varðhundum valdsins" og vantaði hvorki metnað né ástríðu.
Guðmundur hefur leitað til Besta flokksins. Eitt af helstu stefnumálum Jóns Gnarr var, að hans sögn, að útvega sjálfum sér þægilega innivinnu og góð laun. Kannski er einmitt við hæfi að Guðmundur Steingrímsson leiti til Jóns Gnarr. Engin sjáanleg stefnumál. Nafnlausa aflið virðast snúast um nafla Guðmundar; að tryggja honum þægilega innivinnu og prýðileg laun.
Vonandi koma fram ný framboð og nýtt fólk. Marktæk framboð sem snúast um eitthvað sem skiptir máli. Framboð sem hreyfa málum, hreyfa við fólki og verða til bóta.
Það þarf eitthvað mikið að breytast hjá Guðmundi og Gnarr til þess að nýja aflið" verði eitthvað annað en naflaframboð. Hreyfing án baráttumála og án ástríðu er ekki svar við pólitískri kreppu og vantrausti. Naflaframboð Guðmundar og Gnarr fyllir ekki í neitt tóm. Og það er síður pláss fyrir grínframboð til löggjafarþings en sveitarstjórna.