20.8.2010 | 14:58
ESB - alls konar fyrir aumingja
Þegar allt um þrýtur má alltaf reyna að kaupa atkvæði. Það var gert á Nýfundnalandi með sorglegum afleiðingum, ESB hefur gert þetta í A-Evrópu og hikaði ekki við að brjóta gróflega eigin reglur þegar kosið var (aftur) um dulbúnu stjórnarskrána á Írlandi.
Nú hefur heil tylft ráðamanna í Brussel sagt okkur að það verða engar varanlegar undanþágur, þýsk-franska töframyntin reynist jaðarríkjunum fótakefli og lýðræðinu var úthýst með Lissabon samningnum. Um leið var sambandinu breytt í sambandsríki og vægi smæstu ríkjanna skert um meira en 90%. Og nú eru menn smátt og smátt að sjá að það sem kallað var viðræður er í raun aðlögunarferli.
En þegar rökin gufa upp og undanhald ESB-sinna er orðið eins og ítalskur skriðdreki, með einn gír áfram og fimm afturábak, verður gripið til styrkjanna. Að veifa peningum framan í fólk. Það falla alltaf einhverjir fyrir ölmusum.
Stærsti "styrkurinn" eru milljarðarnir sem ESB ætlar að verja til að greiða sinn hluta af aðlögun Íslands. Það þarf að höggva tær og tálga hæla svo allir geti notað sömu stærð af skóm. Þetta er að sjálfsögðu kallað styrkur í glansmynda- og áróðursskyni. Honum var gaukað að okkur um leið og ESB samþykkti nýjar reglur um merkingar á eggjabökkum!
Svo dúkka þeir upp hver af öðrum: Lagadeildin fær einn og Matís fær annan. Og HÍ fær styrk vegna þátttöku í verkefni um fiskveiðistjórnun. Það hlýtur að ganga vel í landann. Nýlega birti svo Fréttablaðið grein um nauðsyn ESB-styrkja fyrir framtíð íslenskrar menningar, sem þó hefur staðið traustum fótum, fjölbreytt og blómleg, frá því löngu fyrir daga Evrópusambandsins. Fleiri ölmusur má finna með hjálp Google.
En hverjir borga svo styrkina?
Jú auðvitað, við sjálf. Þetta er allt í plati. Greiðslur Íslands til ESB yrðu alltaf talsvert meiri en það sem kæmi til baka sem framlög og styrkir. Tölulegar upplýsingar hjá Eurostat, sem koma beint frá Evrópusambandinu sjálfu, sýna þetta glögglega. Hagræðið, sem aðildin á að færa, slagar ekki nema upp í þriðjung af kostnaði, samkvæmt úttekt fyrrum kommissars Gunthers Verheugen og framkvæmdastjórnar ESB. Skrifræðið étur upp ávinninginn og gott betur.
Þeir sem trúa því að það sé einhver glóra í því að framselja forræði yfir eigin velferð til fjarlægrar valdastofnunar munu samt tala um styrki og ávinning.
Aðildarsinnar ættu að fá lánað slagorð frá grínaranum Gnarr: "ESB - alls konar fyrir aumingja." Því það falla alltaf einhverjir fyrir ölmusum. Og sanniði til, næstu mánuðina munum við reglulega heyra fréttir um að "við fáum alls konar styrki frá ESB", en þeim fylgja ekki upplýsingar um að peningarnir séu sóttir í okkar eigin vasa.
![]() |
Ný staða í ESB-málinu með „aðlögun“ í stað umsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |