Æ, æ, kjaftshöggið gleymdist

Það stefnir allt í rauð-græna stjórn eftir kosningar og hefur svo sem gert það lengi. Á sama tíma og könnun sýnir þriðjungs fylgi við S-lista er kosningastefnan kynnt.

Inngangurinn er uppgjör við bankahrunið og geta menn eflaust haft margar skoðanir á því. Í kafla 2 er eitt sem mér finnst höfunum þessarar 74 síðna skýrslu ekki til sóma.

Á bls. 18 ef kafli sem ber yfirskriftina "Varnir gegn kreppunni" og segir þar "mikilvægt er að byrðum sé réttlátlega dreift og stutt við þá sem veikast standa." Gott og vel, það geta allir tekið undir það. Meðal þeirra sem hér er átt við eru lífeyrisþegar.

Á bls. 24 er svo kaflinn "Nýskipan almannatrygginga" þar sem því er haldið fram að réttindi og kjör lífeyrisþega hafi verið bætt undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Í tölulið 6 segir síðan:

Frítekjumark á fjármagnstekjur, tæpar 100 þúsund krónur á ári. Lágmarks-framfærslutrygging lífeyrisþega upp á 150 þúsund krónur á mánuði var innleidd 1. september og hækkuð í 180 þúsund 1. janúar 2009.

Hér vantar talsvert upp á sannleikann.

Í desember var tekjutenging fjármagnstekna nefnilega tvöfölduð hjá ellilífeyrisþegum. Þegar gefin var út reglugerð á Þorláksmessu, undirrituð af Jóhönnu Sigurðardóttur, hefði verið eðlilegt að tvöfalda frítekjumarkið til samræmis. Sér í lagi vegna þess að hún bitnar eingöngu á þeim sem eiga minnst. En það var sko aldeilis ekki gert. Það var hækkað úr 90.000 krónum í 98.640 krónur.

Gamla fólkið fékk kjaftshögg í jólagjöf. (Nánar hér)

Það er óvéfengjanleg staðreynd að gamalt fólk með takmörkuð lífeyrisréttindi varð fyrir skerðingu. Þetta liggur fyrir. Bæði í lagatexta og reglugerð. Það eitt er nógu skammarlegt, en að ætla að breyta kjaftshögginu í skrautfjöður er fyrir neðan allar hellur.

Á Nýja Íslandi átti heiðarleikinn er vera í hávegum hafður. Þetta er smekklaust. Svo eru svona karlar eins og Helgi í Góu að reyna að benda á óréttlætið en verður því miður lítið ágengt.

 

 


mbl.is Þriðjungur myndi kjósa Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

EVRAN að kæfa gríska ferðaþjónustu

"Hátt gengi evrunnar gagnvart breska pundinu og gjaldmiðlum ríkja í Austur-Evrópu hefur dregið úr samkeppnishæfi Grikkja gagnvart nágrannaríkjunum svo sem Tyrklandi og Egyptalandi sem eru með sinn eigin gjaldmiðil..." segir m.a. í þessari frétt.

Bara að Grikkir væru nú með gömlu drökmuna sína ennþá, þá væri þetta ekki svona erfitt hjá þeim. En hún hefur líklega verið ónýt, gagnslaus og dauð.

Annars finnst mér alltaf truflandi að sjá talað um ferðaþjónustu sem "ferðamannaiðnað". Bæði í fyrirsögninni og fréttatexta er talað um þessa iðnframleiðslu.

 

 


mbl.is Erfið staða grísks ferðamannaiðnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töfralausn #4 fyrir Joð

Það á að hætta að miða allt út frá hagsmunum fjármálakerfisins einum saman, segir maður að nafn Jón P. í bréfi sem Bogi Jónsson birtir á bloggi sínu í dag.

Það er alltaf gaman að lesa smellin bréf. Ofangreind orð eru í einni af tillögum Jóns P. til fjármálaráðherra, sem hann leggur til að komi í stað töfralausna sem ekki eru til.

Ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af fjármálakerfi sem hefur verðtryggingu, okurstýrivexti, breytilega vexti, einhliða samningsskilmála, bankaleynd, hundruð hagfræðinga og lögfræðinga, skattaskjól, gervifyrirtæki, huliðshjálm, krosseignarhald í þrívídd, spillingu, shejk, bónusa, kaupauka, alþjóðlega útbreiðslu, neyðarlög, margendurtekna gjaldþrotareynslu, þjóðarábyrgð, belti, axlabönd og Steingrím Joð. Eða það telur bréfritari.

Það er fleira áhugavert í bréfinu, t.d. er Ástþóri hrósað fyrir framgöngu sína í framboðsþættinum á RÚV um daginn! Bréfið má sjá á bloggi Boga. Menn geta svo verið sammála eða ósammála, eftir atvikum.


Bloggfærslur 8. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband