Frumvarp til laga um spellvirki gegn íslensku þjóðinni

Nú rennur stóra stundin upp. Í kvöld verða greidd atkvæði um frumvarp til laga um að leyfa Samfylkingunni, með aðstoð Vg, að fremja skelfileg spellvirki gagnvart íslensku þjóðinni.

Það er merkilegt að sjá hversu mörg blogg hafa verið skrifuð um málið þar sem hvergi kemur fram um hvað frumvarpið raunverulega snýst. Menn tala um „að ljúka málinu" sem er aldeilis fráleitt. Því lýkur ekki með því að samþykkja drápsklyfjarnar, þá fyrst hefst IceSave fyrir alvöru.

Aðrir segja „við getum ekki neitað að borga". Málið snýst ekki um það heldur. Ríkisábyrgð vegna IceSave var samþykkt á þingi í lok ágúst, illu heilli. Lögin þar um tóku gildi 3. september.

Hér er smá samantekt til að stytta þeim leið sem kynnu að líta á þessa bloggsíðu og vilja skoða frumvarpið og kynna sér út á hvað það gengur.


Samningarnir og lögin:

Það þarf engan snilling til að sjá að samningarnir tveir, við Breta (hér) og Hollendinga (hér) eru alveg hreint skelfilegir fyrir Ísland. Það er óþarfi að fara nánar út í þá sorgarsögu hér. En í júní lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um ríkisábyrgð vegna IceSave, sem var svohljóðandi:

Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, og afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna, þ.m.t. um endurskoðun þeirra. Fjármálaráðherra setur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta frekari skilyrði vegna ábyrgðarinnar einkum varðandi eftirlit með fjárhag hans og endurheimtu eigna úr búi Landsbanka Íslands.

Þetta er ein lagagrein auk gildistökuákvæða. Engir fyrirvarar og engar varnir. Þetta frumvarp átti að verða að lögum með hraði og helst án þess að þingmenn fengju að kynna sér samningana fyrst. Ekki þarf að taka fram að hver einasti krati í Samfylkingunni var tilbúinn til að segja já strax. Þeir þurftu ekki að hugsa sig um.

Sem betur fer tókst að stöðva þessa atburðarrás og í lok ágúst samþykkti Alþingi lög, eftir mikla vinnu. Þau lög töldu níu greinar (hér), en innihald greinanna er sem hér segir:

  1. grein:   Ríkisábyrgð á Icesave-lánasamningum.
  2. grein:   Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar.
  3. grein:   Efnahagsleg viðmið.
  4. grein:   Lagaleg viðmið.
  5. grein:   Endurskoðun lánasamninganna.
  6. grein:   Eftirlit Alþingis.
  7. grein:   Skilmálar ríkisábyrgðar.
  8. grein:   Endurheimtur á innstæðum.
  9. grein:   Gildistaka.

Þetta eru sem sagt lögin frá því í sumar, nr. 96/2009, sem eru í gildi. Nýja frumvarpið gengur út á að breyta þeim til hins verra.


Nýja frumvarpið

Það frumvarp sem nú er þjarkað um (hér) verður borið undir atkvæði í kvöld. Samkvæmt því skal fella niður bæði 3. grein og 4. grein laganna, þó þannig að tvær málsgreinar um efnahagsleg viðmið eru færðar til og fá að halda sér. Grein um lagaleg viðmið er felld brott. Einnig er 2. greininni breytt þannig að ákvæði um forsendur hverfa út en tvær málsgreinar um lagalega stöðu koma í staðinn.

Fjármálaráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi 19. október, tæpum sjö vikum eftir að lög 96/2009 tóku gildi. Það tók Gordon Brown ekki langan tíma að taka íslenska krata á taugum. Hann vissi að þeir myndu bretta upp ermar og fara í stríð gegn íslensku þjóðinni. Kratar gera hvað sem er til að komast í Evrópuríkið.

Verði þetta nýja frumvarp að lögum eykur það hættuna á að hér skelli á efnahagsleg ísöld af fullum þunga þegar sjö ára svikalogni lýkur. Kannski fyrr. Varnir Íslands eru veiktar. Það getur líka leitt til greiðsluþrots þjóðarinnar.

Það er sorglegt að horfa upp á að Samfylkingin komist upp með það að fremja slík spellvirki gegn þjóðinni, bara vegna ESB draumsins. Þeir líta á IceSave sem aðgöngumiða að Evrópuríkinu. Enn verra er ef Vinstri grænir veita þessum ófögnuði brautargengi. Þó þeim kunni að finnast það göfugt verkefni að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum eru takmörk fyrir því hversu miklu má fórna.

Það er jú þjóðin sem borgar brúsann ... ef hún getur.

 


mbl.is Bjóða eiðsvarinn vitnisburð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kyrkja lítið dýr

„Vont er þeirra ránglæti, verra þeirra réttlæti" sagði Jón Hreggviðsson, ein frægasta persóna Halldórs Laxness. Líklega bar snærisþjófurinn frá Rein meira skynbragð á réttlæti en þau sem nú fara með stjórn Íslands og hafa ekki í sér dug til að stand vörð um rétt þjóðarinnar. Samt buðu þau sig fram og voru kjörin til þess.

Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.

Ef varnarlaus þjóð hefur mitt í sinni ógæfu borið gæfu til að eignast mátulega sterkan óvin mun tíminn gánga í lið með henni einsog því dýri sem ég tók dæmi af. Ef hún í neyð sinni játast undir tröllsvernd mun hún verða gleypt í einum munnbita.

Þetta sagði Arnas Arnæus, önnur fræg persóna úr Íslandsklukkunni, þegar honum var boðið að gerast landstjóri Þjóðverja á Íslandi. Og hann bætti við: "Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima."

Því miður er reisn af þessu tagi ekki að finna meðal þeirra sem nú sitja á valdastólum. Mörg þeirra vilja játast undir tröllsvernd af dugleysi og hugleysi einu saman. Arne Arnæus sendi Jón Hreggviðsson frá Rein heim til Íslands með þessi skilaboð:

Þú getur sagt þeim frá mér að Ísland hafi ekki verið selt; ekki í þetta sinn. Þeir skilja það seinna.

Vonum að Ísland verði ekki selt núna heldur. IceSave uppgjöfin gæti verið forleikur að hinni endanlegu uppgjöf kratanna, sem enn trúa á blíðskaparyfirbragð og halda að Evrópuríkið sé bara efnahagsbandalag. Svo sterk er trú þeirra að þeir vilja leggja IceSave drápsklyfjar á þjóð sína til að komast þangað inn.

 


mbl.is Svavar neitaði að mæta á fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valgerður/valkostur í Kastljósinu

Er konan klikkuð? spurði ég sjálfan mig upphátt þegar ég horfði á Valgerði Bjarnadóttur í Kastljósinu í kvöld. Umræðuefnið var IceSave, hvað annað. Meðal annars var spurt um hvort bera ætti málið undir þjóðaratkvæði. Valgerður sagðist alls ekki vantreysta fólki, en bætti svo við:

Ég tel þetta mál hins vegar þess eðlis, að ég tel að það sé betra að kjörnir fulltrúar fjalli um það, beri ábyrgð á því takist á við afleiðingarnar og sé þá hent út af þingi þegar þar að kemur, ef fólkið telur að það hafi verið rangt.

valgerðurÞað er nefnilega það.

Ef kjörnir fulltrúar taka ranga ákvörðun á að leysa málið með því að henda þeim út af þingi og kjósa nýja. IceSave skuldin hverfur ekki við það. Þjóðin situr samt eftir með drápsklyfjar, en það á að vera í lagi af því að það eru komnir nýir þingmenn.

Má ég biðja um nýjan valkost? Að henda kjörnum fulltrúum útaf þingi ÁÐUR en þeir valda skaða. Það er orðið deginum ljósara að þeim er ekki treystandi í þessu máli, því miður.

Bara í kvöld birti Mbl.is 6 fréttir um IceSave á þremur tímum. Eyjan og Vísir birtu 6 fréttir til viðbótar en DV virðist ekki vera með kvöldvakt. Fréttirnar eiga meira og minna rætur að rekja til bakhandarvinnubragða ríkisstjórnarinnar.

Stjórnin hefur klúðrað málum á öllum stigum, leynt gögnum, haft í hótunum og ítrekað orðið uppvís að því að segja þingi og þjóð ósatt. Hún eyðir kröftum sínum í að réttlæta vondan samning. Ver hagsmuni Breta og Hollendinga með kjafti og klóm en gætir ekki hagsmuna þjóðar sinnar. Íslenskur almenningur hefur enga ástæðu til að treysta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í þessu máli.

Þingmenn Samfylkingar virðast í keppni um hver getur þagað mest í umræðunni um þetta stóra og erfiða mál. Þeir bíða bara eftir því að Jóhanna segi þeim að mæta í þingsal og styðja á já-hnappinn. Þá er nú heilbrigðara að láta þjóðina um að taka ákvörðun.

 


mbl.is Icesave-umræðu frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband