27.10.2009 | 21:36
Jæja Jóhanna, þetta er komið gott
Ísland mun leggja sitt af mörkum til eflingar og varðveislu sameiginlegra hagsmuna Evrópu enda fara þeir saman við sértæka þjóðarhagsmuni Íslendinga.
Veistu hvað þessi setning þýðir? Nei, ekki ég heldur.
Hún er úr ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á Norðurlandaþinginu. Þetta er sérstök ræða. Fjórðungur hennar er um hernaðarmál sem fá meira vægi með Lissabon stjórnarskránni. En Jóhanna talar líka um Ísland og segir m.a.:
Sjálfbærar fiskveiðar og nýting endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi á ótvírætt erindi við ESB.
Og hvaða erindi, nákvæmlega? Það er hægt að flytja út þekkingu og reynslu án þess að ganga í Evrópusambandið, hér eftir sem hingað til. Enda er kaupendur að finna víða um heim en ekki aðeins bakvið tollamúra ESB.
Og Jóhanna heldur áfram að tala, fyrir hönd þjóðar sinnar:
Auðvitað verður sjálfbær sjávarútvegur, endurnýjanlegir orkugjafar og norðlægur landbúnaður alltaf ofarlega í hugum Íslendinga og þetta eru málaflokkar sem falla vel að áherslum ESB í umhverfismálum og að aðgerðum til að hamla gegn loftslagsbreytingum.
Loftslagsbreytingum? Brilljant. Annars er hægt að sjá ræðuna í heild á Eyjunni (hér). Blaðsíða fimm er morandi í gullkornum.
Forsætisráðherrann flutti ræðu sína í umræðum um hlutverk Norðurlandanna innan ESB. Jóhanna talaði eins og Ísland sé nú þegar í ESB. Þjóðin fékk ekki að kjósa um umsókn og ítrekað sýna kannanir að meirihlutinn er á móti. Enn fleiri telja umsóknina ótímabæra.
Þessi ræða er samfelldur skandall, ekki bara blaðsíða fimm.
![]() |
Aukið samstarf smærri aðildarríkja mikilvægt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.10.2009 | 20:47
Stöðugleikasáttmálinn er svoddan djók
Á vormánuðum beið ráðvillt þjóð í kreppu eftir vegvísi. Nýkjörnir valdhafar lögðu áherslu á "að ná þjóðarsátt um stöðugleikasáttmála" eins og það var orðað. Stöðugleikasáttmálinn er 7 atkvæða orð, 21 bókstafur að lengd, en fæstir vissu hvað orðið þýddi.
Þetta er eitt af þessum orðum sem detta inn í málið og verða skyndilega á allra vörum. Eins og kjölfestufjárfestir, vélindabakflæði, bindiskylda og athyglisbrestur. Í júní fóru línur aðeins að skýrast og þá mátti sjá fyrirsagnir eins og þessar:
Stöðugleikasáttmálinn að fæðast
Stöðugleikasáttmálinn undirritaður
Stöðugleikasáttmálinn í höfn
Stöðugleikasáttmálinn - vegvísir út úr kreppunni
Margir liðir sáttmálans eru mjög almennt orðaðir. Annað er hreinna og beinna, t.d. áætlun um afnám gjaldeyrishafta og að vextir skulu komnir niður fyrir 10% núna 1. nóvember. Auka skal atvinnu og mikil áhersla lögð á að bæta stöðu skuldsettra heimila. Samningurinn var birtur 25. júní (stutt yfirlit hér).
Síðustu vikur hefur orðið Stöðugleikasáttmáli verið notað sem eins konar vopn í þeim orðaskylmingum sem háðar eru í fjölmiðlum. Þar fer mest fyrir átökum ASÍ, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar. Villi & Gylfi vilja ráða en AGS ræður mestu og ríkisstjórnin smá.
Nær daglega grípur einhver orðið "Stöðugleikasáttmáli" og afgreiðir andstæðinginn með því. Þetta eru algengar fyrirsagnir síðustu vikna.
Stöðugleikasáttmálinn í hættu
Stöðugleikasáttmálinn í algjörri óvissu
Stöðugleikasáttmálinn hangir á bláþræði
Stöðugleikasáttmálinn í uppnámi
Og hvað setur sáttmálann í uppnám?
... ef ekki verður byggt nýtt álver,
... ef ekki verður skrifað undir IceSave,
... ef raflínur fara í umhverfismat,
... ef stýrivextir lækka ekki,
... ef ekki verður sótt um aðild að Evrópusambandinu,
... ef endurreisn bankanna tefst,
... ef kjarasamningar verða ekki framlengdir,
... ef gjaldeyrisvarnir verð ekki lagðar niður,
... ef persónuafsláttur verður ekki hækkaður,
... ef endurskoðun AGS tefst,
þá er viðkvæðið ávallt: Stöðugleikasáttmálinn er í hættu.
Kannski er best að rýna í sjálfur í þetta margumþrætta plagg (hér) og velta fyrir sér hvaða stöðuleika er leitað sátta um, fyrir hverja hann er og hvernig til hefur tekist til þessa. Er hann kannski bara djók, eftir allt saman? Svo segir þessi hér.
![]() |
Staðan hefur lagast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2009 | 18:02
Metnaðarlítil blaðamennska
Viðtengd "frétt" Mbl.is er ekki frétt heldur ókeypis auglýsing fyrir Íslandsbanka. Þarna er birtur copy/paste texti úr auglýsingu á vef bankans þar sem auglýst er kostaboð fyrir skulduga viðskiptavini. Það vekur vonir hjá þeim sem eiga í erfiðleikum með afborganir, en það vantar mikið uppá að kostir boðsins séu gerðir skýrir.
Ég skora á Morgunblaðið að gera frétt um málið. Alvöru frétt.
Það væri best gert með því að fá frá bankanum þær forsendur sem vantar í auglýsinguna. Fá síðan töluglöggan mann (ekki úr bankanum) til að reikna nokkur raunhæf dæmi til enda. Birta svo frétt um niðurstöðuna.
Niðurstaðan ætti t.d. að sýna hversu stóran þátt framlenging lánsins á í lækkaðri greiðslubyrði. Það á síðan að bera saman við höfuðstólslækkun án lengingar lánstíma. Einnig þarf að sýna hvaða áhrif hækkaðir vextir hafa á heildargreiðslur.
Hver treystir "kostaboði" frá banka í dag?
Traust á bönkum er ekki nema brotabrot af því sem áður var. Dæmið sem Íslandsbanki sýnir á vefsíðu sinni er alls ekki skýrt, til þess vantar of mikið inn í forsendur. Eins og það lítur út er ekkert sem staðfestir að endurgreiðslur lántakenda muni lækka nokkuð.
Það má vel vera að þetta kostaboð sé hagkvæmt, en dæmið sýnir það ekki. Ef þetta er svona mikið kostaboð, hvers vegna er það þá ekki útskýrt vandlega svo menn sjái það svart á hvítu hver ávinningurinn er.
Bendi á bloggfærslu sem Marinó G Njálsson skrifaði áður en Mbl.is birti fréttina auglýsinguna frá Íslandsbanka.
![]() |
Býður lækkun á höfuðstól bílalána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.10.2009 | 12:58
Nýja Skandinavía
Sænskur sagnfræðingur vill sameina öll Norðurlöndin í eitt ríki. Það myndi líklega heita Skandinavía og verða hið eina sanna norræna velferðarríki með höfuðborg í Köben. Hann vísar til Kalmarsambandsins og vill að danska drottningin verði þjóðhöfðingi Nýju Skandinavíu.
Fyrsti þjóðhöfðingi Kalmarsambandsins var settur í embætti 1397 og fór athöfnin fram 17. júní, svo líklega er þjóðhátíðardagur nýju Skandinavíu sjálfgefinn. Sagnfræðingurinn sænski, sem heitir Wetterberg, telur það til helstu kosta að Skandinavía yrði 10. stærsta hagkerfi heims og fengi aukið vægi innan Evrópusambandsins. Hann reiknar því trúlega með að bæði Ísland og Noregur gangi í þann félagsskap.
Kannast einhver við þessa uppskrift?Wetterberg telur að ekki sé hægt að steypa öllum ríkjunum saman í eitt strax. Til að byrja með yrði þetta ríkjasamband. Þar þarf að lágmarka áhættuna á að ríki geti orðið undir og einnig koma í veg fyrir að eitt ríki geti (stærðar sinnar vegna?) stöðvað framgang mála. Lykillinn er einróma samþykki. Þetta yrði síðan þróað áfram í eitt ríki með sameiginlega ríkisstjórn og þing, þar sem íbúafjöldinn einn ræður ekki fjölda þingmanna.
Er þetta ekki sama uppskrift og notuð er í ESB? Byrja á efnahagsbandalagi, sem síðan verður pólitískt samband sjálfstæðra ríkja og þróast loks í eitt sjálfstætt sambandsríki. Höfuðborg og forseti. Þing og ríkisstjórn. Í kjölfarið fylgja dómstólar. Allur pakkinn.
Hugmynd Svíans er ekki annað en bergmál af stórveldishugmyndinni á bakvið ESB og jafn galin. Norræn samvinna er af hinu góða en yfirþjóðlegt ríkisvald er dæmt til að verða fjarlægt og breytast í bákn. Við höfum fyrirmyndina í Brussel.
Líklega taka fáir Wetterberg alvarlega. Menn ættu ekki að taka fyrirmyndina alvarlega heldur.
![]() |
Vill stofna norrænt ríki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)