19.2.2009 | 14:23
Blóm og brauð og Tónlistarhúsið
Ef þú tvo peninga skaltu kaupa blóm fyrir annan og brauð fyrir hinn. Brauð til að halda lífi og blóm svo að lífið sé þess virði að lifa því. Eitthvað í þessa áttina hljómar kínverskt máltæki.
Tónlistarhúsið gæti verið slíkt blóm. En blómið má ekki vera svo dýrt að það kosti báða peningana. Þá er ekkert eftir fyrir brauði.
Nýja tónlistarhúsið verður glæsileg bygging og til mikillar prýði. En 13-14 milljarðar á tveimur árum eru líka miklir peningar. Meira en hálfur milljarður á mánuði í miðri kreppu.
Allar afborganir allra lántakenda hjá íbúðalánasjóði voru um 50 milljarðar á síðasta ári. Ef 8% þeirra hafa misst vinnuna og þurfa frestun á fjórðungi gjaldfallinna greiðslna til að forðast gjaldþrot, gerir það um einn milljarð. Bara til að nefna eitt lítið dæmi til samanburðar.
Þetta með tónlistarhúsið er klemma. Ef ekkert er unnið við húsið skemmast mikil verðmæti sem í því liggja, en áframhaldandi vinna skapar störf. En í ljósi stöðunnar getur varla skipt öllu máli hvort húsið er fullklárað 2011 eða 2013. Það eru ríki og borg sem greiða kostnaðinn.
Það að setja hálfan milljarð á mánuði í þetta hús í miðri kreppunni getur ekki virkað sem "rétt aðgerð" á þá sem verst standa og eru að tapa eignum sínum. Þetta hlýtur alltaf að vera spurning um forgangsröðun.
![]() |
Tónlistarhúsið fær grænt ljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2009 | 21:00
Hver vill eiga Ísland?
Bilyana Ilieva Raeva heitir kona nokkur frá Búlgaríu. Hún er formaður Íslandsnefndar Evrópuþingsins. Í viðtengdri frétt er vitnað í þingmanninn og þar eru tvær setningar sem eru nokkuð sláandi.
"Þá geti þeir (Íslendingar) hugsanlega fengið tímabundna undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB"
" ... en ekki sé útilokað að gera sáttmála um að Ísland fái undanþágu að hluta eða að fullu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, að minnsta kosti yfir eitthvað tímabil."
Með því að nefna undanþágu er Raeva að gefa til kynna að sjávarútvegsstefna ESB falli ekki að Íslenskum hagsmunum.
Fiskveiðar eru algjör aukabúgrein hjá ríkjum ESB, sem gengur fyrir styrkjum og vegur ekki nema eitt lítið prósent. Hér á Íslandi þarf sjávarútvegurinn að vera rekinn á arðbæran hátt og verða ein af okkar meginstoðum til framtíðar.
Eftir bankahrunið verður mikilvægi fiskveiða enn meira og því skiptir miklu máli hvernig til tekst að endurskipuleggja útgerðina og hugsanlega stokka upp kvótakerfið. Verði útvegurinn rammaður inn í sjávarútvegsstefnu sem ekki hentar og settur á styrki, mun það draga úr honum mátt á fáum árum. Þá verður hann ekki sú stoð sem hann þarf að vera.
Það er því alveg ótrúlegt að tilboð Raevu hljóði upp á að ekki sé útilokað að hugsanlega sé hægt að fá tímabundna undanþágu. Skilur hún ekki hina miklu sérstöðu Íslands í fiskveiðimálum, eða er hún bara að gera þetta viljandi til að fæla Íslendinga pent og endanlega frá ESB? Miðað við hversu áfjáðir Olli Rehn og félagar eru í að fá Ísland í klúbbinn verður fyrri skýringin að teljast líklegri.
Ef taka ber orð formanns Íslandsnefndar Evrópuþingsins alvarlega er hægt að hætta strax að hugsa um inngöngu Íslands í ESB og beina kröftunum annað.
![]() |
Vill Ísland í Evrópusambandið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2009 | 18:50
Meintur lýðræðishalli ESB
Í viðtengdri frétt er sagt frá erindi sem Björg Thorarensen, lagaprófessor við Hásóla Íslands, hélt á málþingi um löggjafarvald Evrópusambandsins og lýðræði. Þessi sama Björg afþakkaði að taka sæti dóms- og kirkjumálaráðherra í nýju ríkisstjórninni og kaus að vinna að nýrri stjórnarskrá.
Margt fróðlegt kemur fram í erindi Bjargar og löngu tímabært að fjallað sé um stjórnkerfi ESB, en umræðan hingað til hefur mest snúist um gjaldmiðil og fiskveiðar. Einnig hefur inngöngu í Evrópusambandið verið veifað framan í fólk sem lausn á kreppunni.
Það er ekki bara meintur lýðræðishalli innan Evrópusambandsins sem Björg gerir að umtalsefni. Það sem er jafnvel enn athyglisverðara, og kemur fram í lok fréttarinnar, eru athugasemdir hennar um lýðræðishalla hér heimafyrir.
Ég tel að stærsta verkefnið framundan sé að endurreisa Alþingi sem raunverulegt og leiðandi afl í stjórnskipulaginu og leiðrétta þann lýðræðishalla sem íslenska stjórnkerfið stendur sjálft frammi fyrir.
Björg telur rétt að umræðan um framsal á fullveldi Íslands eigi ekki að fara fram fyrr en eftir að tekist hefur að "endurreisa Alþingi" eins og hún orðar það.
Fyrst þegar því marki er náð er tímabært að þjóðin taki yfirvegaða afstöðu til þess hvort rétt sé að framselja löggjafarvald til yfirþjóðlegrar stofnunar.
Þetta er mjög athyglisvert í ljósi þess að eitt af því sem nýja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lofað (eða hótað) er að gera breytingar á stjórnarskrá til að liðka fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Innganga hefði í för með sér svo mikla breytingu á íslensku þjóðfélagi, til frambúðar, að það er ábyrgðarhluti að gefa pólitíkusum færi á að stytta sér leið í þeim efnum. Skiptir þá ekki máli hvort menn eru með eða á móti inngöngu.
![]() |
Lýðræðishallinn heimafyrir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.2.2009 | 15:23
ESB ... og hvað svo?
Ef Diana Wallis vill í alvöru taka tillit til sérhagsmuna Íslendinga þá gerir hún það best með því að hætta að reyna að tæla okkur inn í Evrópuríkið. Hún var í viðtali við BBC í haust þar sem hún talaði um spillinguna á Evrópuþinginu sem "viðloðandi vandamál" og boðaði bætur á árinu 2009. Hún ætti að sinna því frekar en koma hingað og misnota kreppuástandið til að koma íslensku ríkisvaldi til Brussel.
Það er sorglegt hvernig einangrunarsinnar - þessir sem vilja einangra Ísland í Evrópusambandinu - hamra endalaust á "krónan-er-dauð" slagorðinu af því að það gengur í lýðinn. Bjóða upp á aðild sem "stefnu í peningamálum" og benda á hana sem leið út úr kreppunni! En að útskýra stjórnkerfi Evrópusambandsins er ekki líklegt til að afla trúboðinu fylgis, þó meiri þörf væri á þeim skýringum.
Enginn virðist vilja horfa fram fyrri nef sér og spyrja: En hvað svo? Hvað þegar kreppan er búin? Við vitum að hún tekur enda, en verðum við sátt innan ESB eftir 10 ár eða 15 ár? Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur.
Ísland kemst ekki út úr kreppunni nema fyrir eigin vélarafli. Þó innganga geti hugsanlega stytt kreppuna um eitt ár er það léttvægt í hinu stóra samhengi. Afsal á fullveldi leiðir alltaf til tjóns og við verðum að horfa til hagsmuna komandi kynslóða.
Kreppan er tímabundin, en tjónið af inngöngu verður varanlegt.
![]() |
Tekið verði tillit til sérhagsmuna Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2009 | 19:25
Jóhanna skoðar og skoðar og skoðar og skoðar og skoðar
"Við þyrftum þá að skoða málið í því ljósi og taka afstöðu til þess" svaraði Jóhanna. Og ef bankastjórar sitja sem fastast? "Við mundum skoða þá næsta skref í málinu ef þeir ætla ekki að bregðast við þessari ósk okkar."
Auðvitað áttu seðlabankastjórar að víkja í október, en það er annað mál.
Þessi svör eru í takt við Kastljósþáttinn sem Jóhanna mætti í á mánudaginn, nýorðin forsætisráðherra. Hún byrjaði af krafti meðan rætt var um seðlabankann og stjórana þar og endurskipulagningu.
Talaði því næst um breytingu á stjórnarskrá til að auðvelda inngöngu í Evrópusambandið. Svo þegar öll hin málin voru rædd svaraði Jóhann öllum spurningum með því að það væri verið að skoða málin. Svona svarði hún:
Við munum auðvitað skoða það, þegar þetta liggur fyrir ...
Við munum skoða hvað er hægt að gera í því sambandi ...
Við erum núna til dæmis að skoða varðandi myntkörfulánin
Við erum að skoða hvað við getum gert fyrir þá sem verst eru settir ...
Við höfum þegar í dag verið að skoða ýmsar leiðir ...
Við erum að skoða það hvort við getum komið fram einhverju bráðabirgðauppgjöri
Við erum að skoða hvernig getum gert ... það gegnsærra
Við höfum í dag verið að skoða ákveðnar leiðir
Þetta er það sem við erum að skoða (um hátekjuskatt)
Við erum að skoða það, að þeir sem geti borði byrðarnar ...
Þetta verður auðvitað skoðað ....
Það sem við erum auðvitað að skoða ... (um bjargráðasjóð)
Auðvitað eitthvað sem við viljum skoða (um kyrrsetningu eigna)
Það er auðvitað eðlilegt að skoða hvaða möguleikar ...
Við munum fyrst og fremst skoða ... að það standist eignarréttarákvæði
Það munum við nú skoða (hvernig við semjum um skuldir)
Hún vill líka skoða hvað kemur út úr aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún telur að innganga í sambandið sé "grundvallaratriði til að styrkja hér krónuna". Hún er á sömu skoðun og Ingibjörg Sólrún sem kallaði inngöngu í Evrópusambandið "stefnu í peningamálum" í þættinum Í vikulokin um áramót.
Spurning hvort Skoðunarstjórn Jóhönnu starfi áfram eftir kosningarnar í apríl. Þá þarf hún að gera meira og skoða minna.
![]() |
Blæs á tal um pólitískar hreinsanir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2009 | 18:25
Með klofinn hjálm og rofinn skjöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.2.2009 | 19:25
D-listi stærstur: Kemur ekki á óvart!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)