31.12.2008 | 12:38
EVRAN ER BYRJUÐ Í SKÓLA
Á morgun verður evran sjö ára, ef talið er frá þeim tíma sem byrjað var að nota seðla og mynt í daglegum viðskiptum. Evran er því enn á tilraunastigi" og rétt að komast á skólaaldur.
Þegar Adonnino-nefndin var sett á fót 1985 var megin áherslan á að taka upp sameiginleg tákn fyrir Evrópu. Þannig átti að skapa Evrópuvitund því þá hefðu stofnanir Evrópusambandsins sterkari stöðu til að auka valdsvið sitt".
Helsti hvatinn fyrir stofnun nefndarinnar var að skoðanakannanir Eurostat sýndu að 70% íbúanna vissu lítið sem ekkert um sambandið. Þó myntin hafi ekki verið eitt af verkefnum nefndarinnar hefur evran ímyndarhlutverk.
Afrakstur af starfi Adonnino-nefndarinnar var m.a.:
- Fáni ESB; gular stjörnur á bláum grunni
- Þjóðhátíðardagur, sem er Evrópudagurinn 9. maí
- Þjóðsöngur; Óðurinn til gleðinnar úr 9. sinfóníu Beethovens.
- Evrópsk vegabréf - dumbrauð að lit og stöðluð að stærð
- Evrópsk frímerki
Einnig kom nefndin fram með hugmyndir um samevrópska sjónvarpsstöð og Evrópulottó, stöðluð ökuskírteini og staðlaðar bílnúmeraplötur, svo eitthvað sé nefnt, sem og samvinnu á sviði mennta- og menningarmála. Með Lissabon samningnum er ætlunin að bæta nýjum sameiningartáknum í safnið, með stofnun embættis þjóðhöfðingja og sameiginlegs utanríkisráðherra.
Með Maastricht samningnum 1992 var grunnur lagður að evrunni, þó aðdragandinn hafi verið lengri. Í dag eru evran og fáninn þekktustu tákn" Evrópusambandsins. Evran er ekki aðeins gjaldmiðill, með henni á líka að samræma peningamála- og efnahagsstefnur ríkjanna og henni er ætlað að tengja alla Evrópubúa" í fyllingu tímans.
Hér á landi eru margir talsmenn þess að taka upp evruna sem gjaldmiðil í staðinn fyrir krónuna. Hafa þær raddir gerst háværar eftir bankahrunið og lækkun á gengi krónunnar. Þá má spyrja hvort rétt sé að kasta krónunni fyrir mynt sem er nýbyrjuð í skóla?
Hinn strangi skóli evrunnar verður kreppan í Evrópu. Þar mun koma í ljós hvers hún er megnug; hvort hún reynist eigendum sínum sá styrkur sem vonast var eftir.
Menn hafa ýmsar skoðanir á því og æði misjafnar. Aðeins tíminn mun skera úr um hver hefur rétt fyrir sér í þeim efnum. Václav Klaus, sem á morgun tekur við embætti forseta ESB, gefur evrunni ekki háa einkunn. Tekur jafnvel svo djúpt í árinni að lýsa henni sem misheppnaðri tilraun!
Ef Ísland þarf á sterkari gjaldmiðli að halda hlýtur það að vera mjög varasamt að taka upp mynt sem er ómótuð, enn á tilraunastigi og ekki búin að slíta barnsskónum. Mynt sem á sér pólitískar rætur, meira en efnahagslegar, og er ætlað að vera sameiningartákn. Standist hún ekki prófið væri það ávísun á að fara úr öskunni í eldinn.
Líklega er hollast að fara sér hægt og sjá hvernig málin þróast í kreppunni áður en teknar eru stórar ákvarðanir í þessum efnum og skoða alla kosti sem í boði eru. Láta evruna ljúka prófinu fyrst. Kapp er best með forsjá.
Evrópumál | Breytt 5.1.2009 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2008 | 10:44
ÍSLAND punktur ESB
# 1 Hvað er þetta Evrópusamband?
Íslenskir kjósendur þurfa að fá svör við þessari spurningu áður en þeir geta ákveðið hvort stjórnvöldum verði veitt umboð til að ræða við ESB um aðild að sambandinu.
Spurningin Hvað er ESB?" er ekki um aðildarviðræður, samninga, eða einstaka málaflokka. Aðeins kerfið sjálft.
Nokkrir spurningar sem varða veginn eru þessar:
- Hvað felst í valdaafsali til stjórnar Evrópusambandsins?
- Hvernig breytist hlutverk Alþingis við inngöngu í ESB?
- Hve mikið fjölgar þeim lögum sem Alþingi fær beint frá ESB?
- Hve miklu ráða Íslendingar um eigin velferð eftir inngöngu?
- Hvaða málaflokkar flytjast til ESB sem ekki heyra undir EES?
- Mun Ísland eiga fulltrúa í Framkvæmdastjórninni?
- Hvert verður hlutverk forseta ESB og hvert er valdsvið hans?
- Verður sjálfstæð utanríkisstefna ekki leyfð?
- Hver yrði atkvæðaréttur Íslands og áhrif á ákvarðanatöku?
- Ætti Ísland fulltrúa í mörgum nefndum ESB og hvað gera þær?
Ég ætla að láta pólitíkusum eftir að svara en set fókusinn á hvort innganga í ESB sé holl fyrir stjórnkerfið, dragi úr spillingu, klíkuskap og einkavinavæðingu og bæti lýðræðislega stjórnarhætti. Þannig hefur umræðan verið, sem er skiljanlegt í ljósi sukksins sem bankahrunið afhjúpaði.
Stjórnarskráin
Nigel Farage, er annar leiðtoga Eurosceptics flokksins á Evrópuþinginu. Í byrjun ávarpsins hér fyrir neðan nefnir hann að ársreikningar ESB hafi ekki verið endurskoðaðir, en þeir hafa ekki hlotið áritun endurskoðenda síðan 1994 vegna óreiðu.
En ræða Farages er annars um svindlið með stjórnarskrána.
Eins og fram kemur í ræðunni var Stjórnarskráin felld í Hollandi og Frakklandi og síðan umskrifuð og samþykkt sem Lissabon samningurinn". Það var gert til að sniðganga lýðræðið. Markmiðið með stjórnarskránni er að breyta ESB úr sambandi 27 sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki. Einn helsti kosturinn við hina dulbúnu stjórnarskrá er að þar er gert ráð fyrir möguleikanum að segja sig úr ESB. Frábært!
Lýðræðið í framkvæmd
Í stuttu ávarpi hér fyrir neðan gerir Daniel Hannan athugasemd við hvernig ESB gefur skít í lýðræðið, með því að hundsa úrslitin í þjóðaratkvæðinu á Írland. Við reynum ekki einu sinni að þykjast" segir hann, bara höldum áfram í eigin heimi og látum eins og kjósendur séu ekki til.
Fjármál og þingmenn
BBC Newsnight gerði úttekt á fjármálaspillingu meðal þingmanna ESB, sem þeir kalla Euro Bureau Bluff". Í ljós kom að flestir þingmenn taka við risnugreiðslum án tilefnis, ferðapeningum umfram kostnað o.s.frv. Chris Davis, þingmaður frá Bretlandi, segir að verði skýrsla um málið dregin fram í dagsljósið muni það leiða til fangelsisdóma. Enda fær enginn að sjá hana nema í lokuðu herbergi að undangengnum þagnareiði.
Það er verið að vinna í málinu" segir Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins. Hún segir þetta viðloðandi vandamál" ekki síst eftir að launalægri þingmenn frá A-Evrópu tóku þar sæti. Þeir sem telja að eftirlaun ráðamanna á Íslandi séu ósómi ættu að kynna sér eftirlaun þingmanna ESB. Einu úrbæturnar sem boðaðar hafa verið eru skýrari reglur um ferðapeninga.
Framkvæmdastjórnin (EU Commission)
Framkvæmdastjórn ESB, eins konar ríkisstjórn Evrópu, fer með framkvæmdavaldið. Þar situr nú einn fulltrúi frá hverju ríki. Í framkvæmdastjórn Barrosos eru nokkrir fulltrúar sem hafa þurft að víkja sæti í pólitík heimafyrir og aðrir sem hlotið hafa refsidóma í sakamálum. Í ræðunni sem hér fylgir gerir Nigel Farage stutta úttekt á ráðherralistanum". (Úttektin á íslensku í þessari færslu.)
Ef Íslendingar ættu sæti í EU Commission þyrftum við að tilnefna Árna Johnsen til að eiga fulltrúa á pari við hinar þjóðirnar. Eurosceptics er flokkur sem telur 37 þingmenn (5%) frá 10 löndum, sem gagnrýna mjög spillingu og ólýðræðislega stjórnarhætti innan ESB. Evrópusambandið er í grunnin byggt á 19. Aldar hugmyndum um heimsveldi. Það er kjörið fyrir Íslendinga að kynna sér störf Eurosceptics.
Aðildarumsókn Íslands
Áður en stjórnmálamenn fara í viðræður þurfa Íslendingar að veita þeim umboð í þingkosningum (eða þjóðaratkvæði ef þing er ekki rofið). Komist meirihlutinn að þeirri niðurstöðu að ESB sé fínn klúbbur, sem er vænlegur fyrir Ísland, er hægt að hefja viðræður.
Þrátt fyrir sáran skort á lýðræði, virðingarleysi fyrir borgurunum, peningasukk og spillingu gætu Íslendingar sagt já. T.d. ef menn telja það kost að minnka spillinguna hér og fá enn meiri spillingu í útlöndum í staðinn. Eða ef menn eru svo blindaðir af evrunni sem kæmi kannski eftir 10 ár að það sé í lagi að fórna hverju sem er og bíða. Eða ef menn eru orðnir svo dofnir af kreppunni að þeir leiti að patentlausn sem er ekki til.
Líka er hugsanlegt að það sé til einhver kostur við ESB sem er svo stórkostlegur að hann vegi upp alla gallana. Ég kem ekki auga á hann. Svo kann að vera að menn trúi að innganga í ESB hafi í för með sér efnahagslegan ávinning sem munar um, umfram EES samninginn. Aðeins kosningar svara spurningunni.
Þessi færsla er eins konar framhald af inngangi ESB #0
Vangaveltur um aðildarumsókn og samning verða í ESB #2.
![]() |
Umsókn í þjóðaratkvæði? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 5.1.2009 kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.12.2008 | 19:43
Þeir eru að gera allt vitlaust, strákarnir.
Tvö álit á sama síðdeginu frá Umboðsmanni Alþingis, þar sem sett er ofaní við ráðherra í ríkisstjórninni. Á hverjum degi kvarnast úr trúverðugleikanum. Hann er fyrir löngu orðinn langt fyrir neðan þau mörk sem ríkisstjórn verður að miða við.
Já, þeir eru að gera allt vitlaust, strákarnir. Og ekki í góðri merkingu þess frasa.
Hvernig ætlar dýralæknirinn að bregðast við? Síðast þegar Umboðsmaður gerði athugasemd við embættisfærslu hans gerði hann lítið úr því og sagði að þetta væri "bara álit". Sakaði hann einnig um að hafa haft fyrirfram mótaðar skoðanir á málinu, sem snérist um ráðningu Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara.
Það er ekki við góðu að búast ef menn líta þannig á. Þó sá úrskurður sem skrifaður er af embætti Umboðsmanns Alþingis beri heitið "álit" er hann formlegur gjörningur. Hann á að vera hluti af stjórnsýslukerfinu, enda var embætti Umboðsmanns komið á fót svo þegnarnir hefðu embættismann að leita til, teldu þeir brotið á sér í stjórnsýslunni.
Umboðsmaður Alþings hefur það vandasama hlutverk að tryggja traust almennings á stofnunum hinnar opinberu stjórnsýslu. Ef ráðherra gerir lítið úr hinum formlega gjörningi á opinberum vettvangi, talar um umboðsmann sem ómarktækan eða óvirðir embætti hans, myndi það í einhverjum löndum duga til þess að ráðherra yrði krafinn afsagnar.
Vonum að enginn fari yfir strikið í þetta sinn.
![]() |
Var óheimilt að ráða án auglýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2008 | 15:34
Þarf nokkuð að rannsaka?
Jæja, svo það sótti enginn um.
Líklegir umsækjendur hafa fylgst vel með fjölmiðlum síðustu daga og séð að þetta var óþarft embætti. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már eru búnir að upplýsa að það voru engar ólöglegar hreyfingar á fjármunum frá Kaupþingi.
Jón Ásgeir upplýsti á heilli opnu að að hann setti Ísland ekki á hausinn. Svo það máli er afgreitt.
Og það sem mestu máli skiptir: Það er ekki enn búið að skipa rannsóknarnefndina. Það er dregið og dregið. Ég velti því fyrir mér í síðustu færslu hvort það væri gert af ásetningi.
Til hvers að skipa saksóknara ef ekkert á að rannsaka? Það sækir enginn um embætti sem á ekki að gera neitt. Er ástæðan ekki einmitt sú að það trúir því enginn lengur að ríkisstjórnin ætli að aðhafast neitt í málinu?
![]() |
Enginn sótti um embætti sérstaks saksóknara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2008 | 11:19
Eru þau að gera þetta viljandi?
Því lengur sem dregst, að gera eitthvað áþreifanlegt af hálfu ríkisins í rannsókn á hruninu mikla, því ágengari verður spurningin um hvort þessi ótrúlega töf sé að ásettu ráði.
Það er óverjandi að það taki 12 vikur að skipa rannsóknarnefnd, sem hefði átt að skipa strax. Að hámarki hefði það átt að taka 12 daga, svo stórt er þetta mál. Hvaða ástæða býr að baki?
Sökudólgalisti #1
Allra fyrstu dagana voru viðbrögðin í þjóðfélaginu mörkuð af undrun, reiði, sorg og áfalli. Listinn yfir helstu sökudólgana var svona:
- Útrásarvíkingarnir
- Bankarnir
- Seðlabankinn
- Ríkisstjórnin
- Fjármálaeftirlitið
Öll athyglin var á útrásarvíkingunum en FME varla í umræðunni til að byrja með. Þegar almenningur var upplýstur um að bakakerfið væri 10 sinnum stærra en sólin fóru bankarnir beint í toppslaginn og hið pólitíska bitbein sem Davíð Oddsson er, setti Seðlabankann réttilega næst þar á eftir.
Sökudólgalisti #2
Eftir því sem málin skýrðust í byrjun breyttist sakalistinn, sér í lagi þegar IceSave kom fram í dagsljósið. Einnig kom æ betur í ljós að þeir sem áttu að standa hina opinberu eftirlitsvakt höfðu sofið á verðinum. Listinn breyttist snarlega í þetta:
- Fjármálaeftirlitið
- Seðlabankinn
- Ríkisstjórnin
- Landsbankinn (IceSave) og Bjöggarnir
- Baugur - Glitnir, Jón Ásgeir og co
- Aðrir útrásardólgar
Ástæðan fyrir að FME og SÍ eru ofar á listanum en ríkisstjórnin er að það eru fagstofnanirnar sem áttu að geta séð, skilið og brugðist við. Ábyrgð stjórnvalda var/virtist fyrst og fremst pólitísk. Og Bjöggarnir eru ofar öðrum útrásardólgum á listanum vegna þess hve þungar klyfjar þeir leggja á landsmenn með IceSave.
Sökudólgalisti #3
Þegar lengra leið kom í ljós að ríkisvaldið hafði haft meiri möguleika á viðbrögðum en sýndist í fyrstu. Auk þess sýndi stjórnin máttleysi í IceSave deilunni. Þegar við bætist að ríkisstjórnin dregur það út í hið endalausa að gera eitthvað í málinu breytist listinn í samræmi við það.
Nú er svo komið að maður hlýtur að ætla að eitthvað sérstakt búi að baki því að stjórnvöld draga alvöru aðgerðir svona lengi. Það getur ekki verið tilviljun. Fyrir vikið er listinn núna svona:
- Ríkisstjórnin
- Ríkisstjórnin
- Ríkisstjórnin
- Fjármálaeftirlitið
- Seðlabankinn
- Landsbankinn/IceSave/Bjöggarnir
- Baugur, Glitnir (Stím) og skúffufélög Jón Ásgeirs og co
- Kaupþing, Exista og ýmsir útrásardólgar
Ríkisstjórnin á einn og aðeins einn raunhæfan kost. Hann er að slíta stjórn og boða til kosninga. Það þýðir ekkert að bjóða fólki upp á þær skýringar að ekki sé tímabært að kjósa. Það er tímabærara en að hafa 63 þingmenn í jólafríi í mánuð og stjórn sem er svo máttlaus að hún getur ekki einu sinni leiðrétt ósóma eftirlaunalaganna skammlaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2008 | 08:55
Stjórnmál eru ekki fag!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 12:31
Jæja, skyldi þá álverið vera úr sögunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 08:34
NÝI SÁTTMÁLI: Að ganga uppréttur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2008 | 10:06
PÓLITÍSKA: Listin að blekkja lýðinn
Evrópumál | Breytt 5.1.2009 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2008 | 17:33
Sakamenn í stjórn ESB
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.12.2008 | 13:04
Eigum við að klappa núna?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2008 | 15:54
Harder Than Your Husband
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2008 | 20:26
HÓ HÓ HÓ - Jesús var steingeit
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2008 | 12:14
Eins og greiningardeildir bankanna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2008 | 08:54
Bláeygir kórdrengir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)