Malta, Ísland og ESB (1)

 


"Risavaxið skrifræðisbatterí"

"Innan fárra vikna heldur hópur íslenskra embættismanna til Brussel til samninga við Evrópusambandið. Þeirra bíður það verkefni að berjast fyrir hagsmunum smáríkis og kljást við risavaxið skrifræðisbatterí Evrópusambandsins."

Þannig hófst inngangur Fréttaaukans að fréttaskýringu um Möltu og ESB. Yfirskrift hennar var: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu? Ísland og Malta eiga það sammerkt að vera fámenn eyríki í útjaðri Evrópu, sem bæði fengu sjálfstæði á liðinni öld; Ísland 1944 og Matla 1964. Það var margt forvitnilegt  í þessari 11 mínútna fréttaskýringu.

Malta 

Spurning um sjálfsmynd

Það sem helst stendur uppúr eru þau rök sem virtust sterkust fyrir ESB aðild Möltu. Þau snúa að sjálfsmynd þjóðarinnar og stöðu hennar í samfélagi þjóðanna. Fyrrverandi forseti landsins vill tryggja að framtíða maltverskra barna verði evrópsk framtíð.

Möltubúar virðast telja aðild að sambandinu tryggja að enginn telji þá smáríki við strendur Norður Afríku, heldur sé öllum ljóst að þeir séu evrópskir í húð og hár.

Möltubúar vilja tryggja sjálfsmynd sína og stöðu í heiminum með aðild að Evrópusambandinu.

Þessi rök eru bæði sterk og skiljanleg. Maltverjar vilja taka sér stöðu sem evrópsk þjóð til framtíðar. Íslendingar þurfa hins vegar ekki að "sanna" að þeir séu evrópskir. Þeir eiga djúpar evrópskar rætur, hafa tekið þátt í evrópsku samstarfi í fjölda ára og norrænni samvinnu svo lengi sem elstu menn muna.

Þótt þessi ágætu rök kunni að vega þungt á Möltu eru þau ekki veigamikið dæmi um eitthvað sem "Íslendingar geti lært af reynslu Möltubúa" svo vísað sé í yfirskrift fréttaskýringarinnar.


"Landbúnaður hefur átt erfitt uppdráttar"

Landbúnaðurinn fékk ekki nema 22 sekúndur í þættinum. Þó kom fram að veran í ESB hefur bitnað hart á bændum. Margir hafa gefist upp en "þeir framleiðendur sem eftir eru hafa margir hverjir sameinast".

Malta bóndiLandbúnaðarkaflinn er langstærstur í viðaukanum við aðildarsamning Möltu. Tvær aðlögunarreglur skera sig úr og gilda lengur en aðrar. Báðar varða maltneska styrki til landbúnaðar. Þá skal fella niður; annars vegar á 7 árum vegna kjöts og dýraafurða og hins vegar á 11 árum vegna grænmetis, ávaxta og kornræktar.

Ekki var rætt við fulltrúa bænda í þættinum eða reynt að áætla hversu margir bændur verða enn eftir þegar þessum aðlögunartíma lýkur.

Kjöt hefur hækkað í verði en vín og ostar lækkað. Hækkun á kjötverði skýrist af því að nú er bannað að flytja inn kjöt frá Nýja Sjálandi og flutt inn dýrara kjöt frá ESB löndum í staðinn.

Miðað við þá útreið sem maltneskur landbúnaður fær geta Íslendingar lært það af reynslu Möltu að tryggja hag bænda betur en þeim tókst, eða standa utan sambandsins ella.


Umhverfismálin vega þungt

Eftir að Malta gekk í ESB hafa umhverfismál komist á dagskrá. Þetta má glöggt sjá í viðauka (Annex II) við aðildarsamning Möltu. Þar er umhverfiskaflinn næst stærstur, aðeins landbúnaðarkaflinn er stærri. Fram kom að þrýstingur hafi líka verið frá almenningi um að gera umhverfismálum hærra undir höfði.

Á Íslandi hefur verið rekið Umhverfisráðuneyti síðan 1990 og "stórstígar endurbætur verið gerðar á löggjöf og stefnumótun í umhverfismálum". Mengunarvarnir, endurvinnsla og önnur umhverfismál eru því í allt öðrum farvegi hér en var á Möltu árið 2003.  Ísland þarf ekki að ganga í ESB til að taka upp flokkun sorps eða önnur umhverfisúrræði.

Umhverfismál eru sögð eitt helsta dæmið um það sem breyst hefur til hins betra á Möltu, en geta ekki talist dæmi um eitthvað sem "Íslendingar geti lært af reynslu Möltubúa".


Framhald ...

Margt fleira var áhugavert í þættinum, sem verður að bíða næstu færslu. Svo sem um viðhorf almennings, fjárhagslega aðstoð, um svör viðmælenda, manninn sem neitaði viðtali, um evruna og efnahaginn og um sjávarútveg.

Út úr öllu saman kemur svo einhver niðurstaða, sem ætti að innihalda svar við yfirskrift þáttarins: Geta Íslendingar lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu?

Svo, framhald í næsta bloggi ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Það er alveg með ólíkindum að einhver vilji ganga í ESB.  Kannski skiljanlegt hjá þjóðum sem voru undir Rússum lengi vel en ekki EES þjóðum.  Fjárhagslegur ávinningur er engin og við þurfum að borga með okkur.  Um það snúast þessar "samningaviðræður".  Hvað við þurfum að borga mikið með okkur.

Björn Heiðdal, 2.11.2009 kl. 21:43

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Við erum miklir víkingar og viljum bara gera strandhögg í öðrum löndum. Núna er markið sett á Afríku. Guð hjálpi þeim!

Sæblóm eða Fleur de Mar nefnist íslenskt útgerðarfyrirtæki sem gerir út frá Marokkó. Sæblómið var reyndar stofnað fyrir nokkrum áratugum á Grænhöfðaeyjum, starfrækt í Namibíu og víðar í heiminum. Vorið 2008 kom Björgvin Ólafsson að fyrirtækinu og yfirtók starfsemina sem var orðin lítil eða réttar sagt engin en skuldir við íslenskan banka nokkrar. En nú er allt komið á fleygiferð á vesturströnd Marokkó

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.11.2009 kl. 01:28

3 Smámynd: Gísli Foster Hjartarson

Missti af þessum þætti - langaði einmitt að sjá hann nákvæmlega útaf "fyrirsögninni" hlýt að geta séð hann á Rúv.is - reyni að muna það í kvöld - maður ætti að verða einhvers vísari

Gísli Foster Hjartarson, 3.11.2009 kl. 12:30

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk báðir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Björn, þegar þjóð er í kreppu og umvafin skuldum er hægt að freista hennar með styrkjum, bótum og ölmusum. Við verðum bara að vona að Íslendingar láti ekki draga sig inn í þetta á slíkum forsendum. Æ sér gjöf til gjalda.

Jóhannes; ég sé ekki hvernig þetta tengist færslunni. Annars voru Íslendingar með þróunaraðstoð á árum áður bæði í Namibíu og á Grænhöfðaeyjum. Ég þekki ekki þetta dæmi, en þarf þetta endilega að vera neikvæð frétt?

Haraldur Hansson, 3.11.2009 kl. 12:34

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Gísli; þátturinn er líka á netinu, getur séð hann hér.

Haraldur Hansson, 3.11.2009 kl. 12:36

6 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Af hverju tók RÚV ekki Monaco fyrir í staðinn fyrir Möltu? Það land er svo miklu líkara því Íslandi sem ESB-RUV berst fyrir.

Monaco líkist Íslandi meira en Malta því Malta er heil 0,3% af flatarmáli Íslands en Monaco er ennþá minna, það líkist því RUV-Íslandi meira.

Annars hefði Evrópusambandið átt að taka upp maltíska líru því lengi vel var hún hæst metni gjaldmiðill heimsins. Það einkennir nefnilega flesta ESB-sinna að þeir vilja fá gjaldmiðil sem hækkar og hækkar og hækkar no matter what og endar sem lofbelgur.

Flytja þarf nauðsynlega inn vitni frá Monaco. Það ætti að gerast sem fyrst. Og passa þarf að engir Norðmenn komist inn í landið okkar til segja frá neinu. Talið heldur ekki við Finna núna því það liggur ekki vel á vinum okkar þar í evrulandi.

Allt að gerast á Íslandi maður, já já, bara drífa í þessu!

Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2009 kl. 13:28

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Svo er annað.  

Monaco er líka með meiri útgerð en Malta, fleiri báta. Þeir afla líka betur en maltísku bátarnir.  

Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2009 kl. 13:32

8 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Og ekki síst þetta. 

Þegar ESB-RÚV er búið að fjalla um reynslu Monaco ætti ESB-RÚV að tala við Vatíkanið til að grennslast fyrir um reynslu þeirra af evrunni. 

Það er um að gera að fá rétta mynd af hlutunum.  

Gunnar Rögnvaldsson, 3.11.2009 kl. 13:37

9 Smámynd: Birna Jensdóttir

Tók eftir að einungis voru birt viðtöl við þá sem voru samþykkir ESB aðild,ekki einn einasta sem var á móti,mér fannst ekkert það bitastætt í þessari umfjöllun að það vekti áhuga minn.

Birna Jensdóttir, 3.11.2009 kl. 13:45

10 Smámynd: Haraldur Hansson

Gunnar; bæði Mónakó og Vatíkanið eru á lista yfir Evrópuríki, sem teljast vera 50 talsins, svo RÚV umfjöllun er ekki útilokuð. En (til upplýsingar) Jersey og Færeyjar eru meðal þeirra 13 svæða sem teljast aðeins territories.

Birna; það er líka athyglisvert að stjórnmálamaður, fyrrum ESB andstæðingur, sem ekki vildi veita Fréttaaukanum viðtal, fær meiri tíma í þættinum en landbúnaður og sjávarútvegur samanlagt.

Haraldur Hansson, 3.11.2009 kl. 18:16

11 identicon

Monaco er ekki í ESB. Hvort að þeir sækji um aðild að ESB er síðan opið til umræðu síðar. Hingað til hafa þeir ekki sýnt áhuga á því.

Reynsla Mötlu að ESB hefur verið góð, þrátt fyrir ákveðna galla sem um var fjallað í þætti Rúv. Það liggur ennfremur fyrir að staða Mötlu sem ríkis hefur styrkst umtalsvert við inngöngu í ESB.

Enginn andstæðingur ESB á Mötlu vildi veita viðtal við Rúv. Þetta kom ítrekað fram í þættinum.

Í dag eru Möltubúar ánægðir með aðild sína að ESB og með evruna, og það sem aðild þeirra að ESB hefur fært þeim í heildina. Þrátt fyrir ákveðna neikvæða hluti hér og þar. Þetta kom allt saman fram í þættinum, og kemur engum á óvart. Nema þá kannski andstæðingum ESB.

Jón Frímann (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 18:34

12 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Haraldur, Ég hnaut um þessa frétt og setti hana hér inn til að sýna fram á tvískinnung Íslendinga varðandi sínar auðlindir.  Við viljum ekki hleypa öðrum þjóðum inní fiskveiðilögsögu okkar en á sama tíma þykir það bara flott að við arðrænum Afríkuþjóðir með veiðum og vinnslu í þeirra landhelgi. Það kom meira að segja fram í fréttinni að vinnslan væri ekki mjög tæknivædd því vinnuaflið væri svo ódýrt!  Þetta minnir mig á þegar sumir kvótakóngarnir hér hófu fiskvinnslu í Kína afþví vinnuaflið var svo ódýrt. Á sama tíma voru þeir að loka frystihúsum hér á landi afþví vinnuaflið var svo dýrt.  En þetta veist þú fullvel

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 3.11.2009 kl. 18:37

13 Smámynd: Haraldur Hansson

Jón Frímann: Hér er ég að draga fram það sem fram kom í þættinum og það kemur meira í næstu færslu. Og síðan einhver niðurstaða.

Það er varla hægt að fullyrða að enginn hafi viljað veita viðtal þótt einn pólitíkus hafi sagt nei. Það hefði t.d. verið fróðlegt að heyra í fulltrúa bænda. Það sem ég vil samt helst skoða er hvort Íslendingar geti lært af reynslu Möltubúa af Evrópusambandinu, sem var yfirskrift þáttarins. Þá er átt við allt ferlið, frá umsókn til inngöngu.

Jóhannes: Þessar upplýsingar skýra fyrri athugasemd þína. Bestu þakkir. Ég vona að Marokkómenn haldi nógu vel á sínum málum til að koma í veg fyrir að Íslendingar arðræni þá! Rétt eins og við verðum að passa okkar hagsmuni.

Haraldur Hansson, 3.11.2009 kl. 19:20

14 identicon

Sæll Haraldur - athyglisvert blogg þitt um ESB. Hvar næ ég í þig í síma eða email?

Bkv

Linda Blöndal - Síðdegisútvarpið Rás tvö.

Linda Blöndal (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband