Fá þeir kosningarétt 53 ára?

Ekkert er mikilvægara fyrir stjórnmálastéttina í Brussel en að fá frið fyrir kjósendum. Hún rær nú að því öllum árum að koma í veg fyrir að þegnarnir fái að kjósa um stjórnarskrána. Það yrði meiriháttar áfall fyrir ESB ef það neyddist til að efna til lýðræðislegra kosninga.

Þetta er algjört einsdæmi í veraldarsögunni; að þegnum lýðræðisríkja sé meinað að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá. Það er líka einsdæmi að stjórnarskrá sé vísvitandi gerð almenningi óskiljanleg.

Mesta „hættan" virðist liðin hjá. Embættismenn féllust á skilyrði forseta Tékklands fyrir undirritun Lissabon stjórnarskrárinnar. Nú er þeim mikið í mun að fullgilda hana áður en þingkosningar fara fram í Bretlandi. Annars gæti farið svo að bresku þjóðinni verði leyft að kjósa um hana. Það er "slys" sem Brusselvaldið vill koma í veg fyrir með öllum ráðum.

---------- ---------- ---------- ---------- ----------
"No one under the age of 52 has ever had a say
on this important evolution and it's about time we did."
Lorraine Mullally, framkvæmdastjóri Open Europe
---------- ---------- ---------- ---------- ----------

Bretar gengu í Efnahagsbandalag Evrópu árið 1973 að undangengnum kosningum. Síðan þá hefur mikið breyst. Efnahagsbandalagið (EBE) vék 1992 fyrir Evrópusambandinu (ESB) og pólitískur samruni jókst með tilheyrandi valdaframsali. Nú hefur breska stjórnin samþykkt stjórnarskrá ESB án þess að bera það undir þjóð sína.

Í Bretlandi hefur ekki verið kosið um Evrópumálin síðan 1975. Það þýðir að þeir sem eru yngri en 52 ára hafa aldrei fengið neitt um þau að segja. Ekki fengið að tjá sig um ESB, sem í dag hefur meira vald yfir daglegu lífi þeirra en breska þingið.

Nú eygja breskir kjósendur von um að fá að greiða atkvæði um stjórnarskrána á næsta ári. En það er veik von, mjög veik von. Líklega mun stjórnmálastéttin í Brussel hafa betur og ná að koma í veg fyrir framgang lýðræðisins.

Með Lissabon stjórnarskránni tryggir Brusselvaldið sér endanlega frið fyrir kjósendum og ólíklegt að Bretar, eða aðrir þegnar Evrópuríkisins, fái nokkurn tímann að segja skoðun sína á neinu sem máli skiptir. Kerfiskarlarnir sjá fram á fullnaðarsigur yfir lýðræðinu, því miður.

Það er eðlilegt að almenningur treysti ekki slíku stjórnvaldi.

 


mbl.is Treysta ekki AGS og ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Bíðið við!  Varla koma þessi tíðindi á óvart. ESB er sú stofnun sem unnið hefur harðar að niðurbroti sjálfsákvörðunarréttar evrópuþegna síðan frá einveldistíma konunga og keisara á 16. og 17. öldinni.  Lýðrlæðishugsjónin er hættulegasta ógn ESB.  Ekkert skelfir ESB frömuði meir en að fólkið á götunni segi skoðun sína. Því er unnið að því myrkranna á milli að taka þessi "kosningaréttindi" frá folki. Aðildarland eftir aðildarland hefur fengið að lúta höfði fyrir Brusselvaldinu. Ógn refsinga og/eða útskúfunar af bitlingaborði ESB er eitthvað sem hræðir rólk óseigjanlega...   Svo vilja íslensk stjórnvöld vera með í þessu ríkjasúpudæmi gömlu landanna sem börðust í tveimur heimstyrjöldum nú síðast á 20. öldinni.   Ekki vænlegur félagsskapur þar!

Baldur Gautur Baldursson, 2.11.2009 kl. 11:39

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hvað er kosning til Evrópuþings?

Helgi Jóhann Hauksson, 2.11.2009 kl. 12:58

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Kjósum við Íslendingar um breytingar á eigin stjórnarskrá eða grunnlögum með beinum hætti?

Helgi Jóhann Hauksson, 2.11.2009 kl. 13:03

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk báðir fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Baldur Gautur; ég tek undir að lýðræðið er mesti óvinur stjórnmálastéttarinnar sem nú ræður ríkjum í Brussel. Sorglegt en satt.

Helgi Jóhann: Evrópuþingið er allt of valdalítið, sem m.a. má sjá á tvennu. Annars vegar að með Lissabon samningnum er ætlunin að auka áhrif þess að gefnu tilefni og hins vegar að kjörsóknin minnkar með hverjum kosningum og er komin niður í 43%. Almenningur verður ekki var þingið vegna valdaleysis þess og ómakar sig ekki við að kjósa.

Það er til prýðileg greining á þessu áhrifa- og áhugaleysi kjósenda í bókinni "Evrópuvitund – Rannsóknir í Evrópufræðum 2007-2008", sem út kom í fyrra í ritstjórn Auðuns Arnórssonar. Þetta er tekið fyrir í fyrstu ritgerð bókarinnar.

Haraldur Hansson, 2.11.2009 kl. 18:31

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Helgi Jóhann; varðandi stjórnarskrána:
Það er ekki hægt að leggja breytingar á einstökum greinum gildandi stjórnarskrár að jöfnu við upptöku nýrrar. Á Íslandi þurfa tvö þing að samþykkja breytingar með kosningum á milli. Það eru ekki beinar kosningar og þykir ófullnægjandi. Enda var umbóta krafist í búsáhaldabyltingunni. Einnig má benda á frumvarp sem minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði fram fyrir kosningar og nú er stjórnlagaþing í burðarliðnum.

Í sumum aðildarríkjum ESB er ekki hægt að gera slíkar breytingar án þjóðaratkvæðis. Forveri Lissabon samningsins, Constitution of Europe, var borinn undir þjóðaratkvæði í nokkrum löndum og felldur í Frakklandi og Hollandi. Síðan var honum breytt, beinlínis til að komast hjá atkvæðagreiðslu (sjá tilvitnanir hér).

Lissabon samningurinn er sérstakur að því leyti að hann er fyrsta stjórnarskrá ESB. Hann breytir eðli sambandsins þannig að það fær stöðu lögpersónu (full legal status) og aukin völd um leið. Þess vegna ætti án nokkurs vafa að bera hann undir atkvæði. Annað stríðir gegn grundvallaratriðum lýðræðisins.

Haraldur Hansson, 2.11.2009 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband