Tillaga um aukið traust - en ekki vantraust

Nú er komin fram tillaga um vantraust. Hún verður vitanlega felld, enda bara táknræn. Má ég frekar biðja um tillögu um aukið traust. Ekki bara táknræna, heldur alvöru.

 

Tillaga í þremur liðum:
1) Gefin út yfirlýsing um að þing verði rofið í vor og kosið til Alþingis 20. júní.
2) Að fram að þeim tíma verði þjóðstjórn sem allir flokkar taki þátt í.
3) Að allir flokkar samþykki að kosningabarátta hefjist ekki fyrr en eftir 1. maí. 

Um lið 1:
Það er augljós meirihlutavilji fyrir því að stjórnvöld sæki nýtt umboð til kjósenda. Það er þetta með lýðræðið. Líklega eru fleiri sem vilja kjósa í vor en strax. 

Í viðtali við forsætisráðherra í Kastljósi nefndi hann að 1. úttekt IMF verði í febrúar, að lán frá öðrum lánveitendum verði að berast fram í mars/apríl og að 2. úttekt IMF verði í maí. Ef ekki er ráðlegt að kjósa núna má gera það strax að þessu loknu. 

Um lið 2:
Stjórnarflokkarnir tveir gefi eftir tvö ráðherraembætti hvor. Vinstri grænir taki við tveimur og Framsókn og Frjálslyndir við einu hvor. Allir vinni saman að lausn vandans svo flokkspólitísk rifrildi séu ekki til vandræða á meðan. Svo við eyðum ekki púðri í vantrauststillögur og annað karp.

Um lið 3:
Til að koma í veg fyrir "framboðsræður" á Alþingi, þegar menn eiga að vera að vinna þarfaverk, geri menn samkomulag um að sneiða hjá þeim. Einnig verði bannað að auglýsa í fjölmiðlum fyrr en eftir 1. maí. Sjö vikna kosningabarátta er alveg nóg.

 

Það er augljóst að stjórn Seðlabankans er byrði á forsætisráðherra og hann þyrfti því að setja nýja stjórn yfir bankann um leið og þessar breytingar yrðu tilkynntar. Þá þarf að fara fram hlutlaus kynning á Evrópusambandinu, sem verður stórt kosningamál. Fjölmiðlar mættu svo bæta sig í pólitískri umfjöllun. Ágætt fyrsta skref er að hætta að fjalla um hina ótímabæru forsetabók og setja Hvítbók á dagskrá í staðinn. Hún skiptir talsvert meira máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Áhugavert innlegg í umræðuna. En ég efast um að það sé hægt að banna kosningabaráttu þegar vitað er að kosningar eru á næsta leiti. Allir yrðu með það í huga að koma vel fyrir og benda á sitt ágæti og kosti sinnar stefnu.

Ég held, að ef stjórnarflokkarnir ætla að ná einhverri sátt við almenning í landinu þá þurfi þeir að gefa til kynna að þeir muni virða kröfu fólksins um kosningar, en áskilji sér rétt til að ljúka tilteknum verkum fyrst.

Ég er ekki stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar - en það er samt ábyrgðarhluti að hlaupa til kosninga í fljótfærni. Einhver málamiðlun þarf að eiga sér stað og stjórnin að læra að tala við almenning. Í því felst líka að hlusta, ekki bara að tala og heyra svo það sem manni hentar.

Komi til þjóðstjórnar, þá teldi ég æskilegt að í henni væru líka einhverjir ópólitískir ráðherrar. Valdir vegna sérfræðikunnáttu en ekki tengsla við flokka. Ég sting upp á að slíkir menn fari með ráðuneyti fjármála og viðskipta. Ég er ekki að sakfella þá sem nú gegna þeim stöðum - Árni ætti að vísu að yfirgefa stjórnarráðið fyrir fullt og allt, en það snýst ekki um bankahrunið heldur hegðun hans í ráðningu Þorsteins Davíðssonar og svo hefur dýralæknir ekkert í þetta að gera. Björgvin virkaði í fyrstu ekki traustvekjandi á mig en hefur bætt það upp með viðbrögðum sínum eftir hrunið. - Ég vil bara núna fagmenn í báðar þessar stöður, sem eru valdir vegna víðtækrar reynslu og þekkingar á málaflokkunum, en ekki vegna þess að þeir eru á réttum stað í pólitískri goggunarröð.

Einar Sigurbergur Arason, 23.11.2008 kl. 03:58

2 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég var ekki að tala um "að banna" kosningabaráttu heldur er hugmyndin að flokkarnir geri með sér heiðursmannasamkomulag um að birta ekki auglýsingar í blöðum og sjónvarpi fyrr en þingstörfum er lokið í vor. Það myndi um leið sýna ábyrgðartilfinningu að láta nauðsynleg verk ganga fyrir. Ekki veitir af að auka traust.

Ópólitískir ráðherrar. Auðvitað gætu flokkarnir valið ráðherra sem ekki eiga sæti á þingi. En ég held að menn myndu ekki ganga lengra en það í þjóðstjórn sem ætlað er að starfa í nokkra mánuði.

Haraldur Hansson, 24.11.2008 kl. 02:19

3 Smámynd: Jón Páll Vilhelmsson

Góðir punktar. Það sér þetta sérhver íslendingur fyrir utan ónefnda 63.

Mæli með þjóðstjórn hér http://jonpallv.blog.is/blog/jonpallv/entry/723156

Jón Páll Vilhelmsson, 26.11.2008 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband