Á degi íslenskrar tungu: Væri hægt að fá Maastricht á mannamáli?

Það er nauðsynlegt að almenningur fái hlutlausar upplýsingar á mannamáli um Evrópusambandið. Efst á baugi í dag er hugsanleg innganga í ESB og upptaka á evru. Jafnvel fullyrt að hægt sé að koma Íslandi inn í ESB á einu ári og taka upp evruna einhliða á mánuði. Skoðanakannanir sýna meira en 70% stuðning við aðildarviðræður og flokkar boða annað hvort breytingar eða endurskoðun á afstöðu sinni.

En hvað er Evrópusambandið? Þó pólitík snúist um fjölmargt annað verða þetta stóru kosningamálin í vor. Hvað stendur í Maastricht samningnum? Og hvað felst í EMU og ERM II? Þarf þjóðaratkvæði? Þarf að breyta stjórnarskránni? Hverju breytir Lissabon samningurinn ef hann verður samþykktur?

Nú hlýtur að styttast í kosningar og því vil ég bera fram tvær óskir til verðandi frambjóðenda:

1) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "við verðum að ganga í ESB" eða "við verðum að standa utan við ESB". Upplýstu mig frekar um alla kostina og gallana líka, af fullum heiðarleika. Þá get ég vegið og metið sjálfur og komist að niðurstöðu eins og þú.

2) Kæri pólitíkus. Ekki segja við mig "það eina sem vit er í er að taka upp evruna" eða "við verðum að standa vörð um krónuna". Upplýstu mig frekar um kosti og galla, ávinning og fórnir. Og gerðu það heiðarlega. Þá get ég sjálfur komist að niðurstöðu, eins og þú.


Og kæri pólitíkus, talaðu við mig en ekki niður til mín. Ef þú ert fullkomlega heiðarlegur og ég kemst að sömu niðurstöðu og þú, þá ætla ég að kjósa þig. En sértu ekki heiðarlegur ætla ég að ganga í lið andstæðinga þinna. Eða skila auðu.

Íslendingar eru vel læsir og skrifandi og ég treysti dómgreind almennings ekki síður en pólitíkusa. Við getum lesið bæði bókstafi og tölustafi. Jafnvel útlensku líka. Það á ekki að rétta okkur svörin í pakka með kosningaloforðum, heldur upplýsingar. Við finnum svörin sjálf og kjósum svo.

Hvíta bók á öll heimili
Ég legg til að gefin verði út bók sem gæti heitið Maastricht á mannamáli. Flokkar á Alþingi tilnefni fulltrúa í ritnefnd sem svo skipi þriggja manna ritstjórn óháðra manna sem hafa góða þekkingu á málunum. Síðan gefi Alþingi út ritið sem dreift verði til allra Íslendinga. Algjörlega hlutlaus umfjöllun, laus við flokkspólitík (ritstjórn án þingmanna).

Umfjöllunin þarf að vera skýr, þ.e. á máli sem allir skilja en ekki eitthvað torf á stofnanamáli. Þar verður að útskýra hvað Evrópusambandið raunverulega er, stoðirnar þrjár, muninn á því að hafa "bara" EES og fullri aðild, hver evruskilyrðin eru, hvaða tilgangi ERM II þjónar, hvort og þá hvaða áhrif evra hefur á vexti, hlutverk seðlabankans, muninn á myntbandalagi og EMU, um landbúnaðinn (CAP), fiskveiðarnar (CFP), verslun, tolla, sameiginlegan markað og annað sem máli skiptir. Og raunhæfan tímaramma.

Svona rit þarf ekki að verða neinn doðrantur og það er vel hægt að setja þetta allt fram á aðgengilegan máta. Það er nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir Lissabon samningnum líka, þó ekki væri nema í viðauka. Sjálfur hef ég reynt að rýna í þetta allt og er á báðum áttum. Það væri mikill fengur í hlutlausu riti sem legði grunninn að umræðu sem væri málefnalegri en verið hefur hingað til.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Sé að við erum a.m.k. að tala sama tungumál!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 24.11.2008 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband