1.12.2009 | 00:24
Flaggað í hálfa stöng
Dagurinn í dag er merkilegur. Runninn er upp 1. desember og við Íslendingar höldum upp á að 91 ár er liðið síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Á sama tíma verður fullveldi 27 annarra Evrópuþjóða formlega skert.
Í dag tekur Lissabon stjórnarskráin gildi og þar með er Evrópuríkið formlega stofnað. Það sem í gær voru aðildarríki ESB eru í dag aðildarhéröð Evrópuríkisins. Meðfylgjandi mynd er vel við hæfi, en hún sýnir fána þjóðanna 27 blakta í hálfa stöng, ásamt bláa ríkisfánanum.
Nýlega kom út endurbætt útgáfa af samningum Evrópuríkisins eins og þeim er breytt með hinni dulbúnu stjórnarskrá sem kennd er við Lissabon. Samningurinn sjálfur hefur ekkert skánað, en bókin er skýr og auðlesin.
Þessa bók (pdf) er hægt að sækja ókeypis (hér).
Ég mæli sérstaklega með því að menn kynni sér töflu fremst í bókinni, þar sem sýnt er hvernig atkvæðaréttur fámennustu aðildarhéraðanna verður því sem næst þurrkaður út.
Ég óska öllum Íslendingum til hamingju með daginn og tek heilshugar undir kröfu Heimssýnar um að draga ESB-umsóknina til baka. Ég óska þess líka að á Íslandi verði áfram hægt að flagga í heila stöng 1. desember ár hvert. Að Íslandi verði aldrei breytt í aðildarhérað í nýja Evrópuríkinu.
Vilja að ESB-umsókn verði dregin til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já til hamingju,megi það verða.
Helga Kristjánsdóttir, 1.12.2009 kl. 02:08
Ég tel til mikillar fyrirmyndar að Evrópusambandið skuli gefa út svona rit um samþykktir sínar. Almenningur á að hafa greiðan aðgang að svona upplýsingum í anda lýðræðis og frelsis.
Þú vekur líka athygli á því að smáríki hafa ekki mikið vægi og í eðli málsins væri ósanngjarnt að Malta og Lúxemborg hefðu meira vægi en Frakkland. Eigi að síður hafa þessi ríki helmingi meira vægi en stærstu þjóðirnar miðað við fólksfjölda. Þetta virðist vera svona tiltölulega sanngjarnt, að mínu mati.
Jón Halldór Guðmundsson, 1.12.2009 kl. 07:49
Takk bæði fyrir innlitið og athugsemdirnar.
Helga: Takk sömuleiðis, við vonum það besta.
Jón Halldór: Það er ekki Evrópusambandið sem gefur þessa bók út, heldur Jens-Peter Bonde. Hann hefur lagt sig fram um að gefa út efni fyrir almenning einmitt vegna þess að ESB stendur sig ekki.
Lissabon samningurinn sjálfur er eins og lög um breytingar á lögum. Það er stutt síðan ESB gaf út uppfærða útgáfu af þeim samningum sem breytt er með Lissabon og hún er ekki svona skýr og vel fram sett eins og hjá Bonde.
Atkvæðavægi verður framvegis eingöngu miðað við höfðatölu. Það er hlutfallið í Lissabon dálknum sem gildir frá nóv. 2014.
Haraldur Hansson, 1.12.2009 kl. 08:57
Haraldur,
Er eitthvað óeðlilegt að miða atkvæðisrétt við höfðatölu? Væri bara ekki besta mál að við tækjum þá aðferð líka upp í okkar alþingiskosningum?
Andri Geir Arinbjarnarson, 1.12.2009 kl. 12:01
Andir Geir: Í Bandaríkjunum er öldungadeildin skipuð tveimur fulltrúum frá hverju fylki, óháð fólksfjölda. Það er ekki að ástæðulausu.
Það er ekkert eðlilegra en jafn atkvæðisréttur allra þegna, þannig á það að vera í kosningum hér á landi. Það er líka eðlilegt að atkvæðaréttur sé jafn, t.d. þegar mörg félög eru sameinuð, sem eiga sterkan samnefnara.
Þegar mörg ólík ríki eru sameinuð undir einn hatt þarf þetta ekki að eiga við. Þau stærstu hafa þá mest vægi, mest frumkvæði og munu marka stefnuna. Hagsmunir geta verið ólíkir.
Ísland er eina landið í heiminum sem beinlínis lifir á sjávarútvegi en í Evrópuríkinu er litið á útgerð sem aukabúgrein í landbúnaði sem gengur fyrir styrkjum, sem mestanpart eru grundvallaðir á byggðasjónarmiðum (svona til að nefna stærsta dæmið). Ísland mun ekki breytast í mið-evrópskt iðnríki með því að detta inn í Evrópusamrunann.
Ef menn vilja ganga þarna inn þarf að tryggja að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um að þar með er hún að fela forræði í nánast öllum málaflokkum yfirþjóðlegri stjórn þar sem við sjálf höfum ekkert vægi. Að láta af hendi fullveldið. Mér finnst það vægast sagt vondur kostur.
Haraldur Hansson, 1.12.2009 kl. 13:02
Eitt,
Ekki er rétt sem kemur fram að atkvæðavægið verði einungis miðað við höfðatölu. Í lissabon er innleiddur tvöfaldur meirihluti, 55% ríkja sem í búa 65% íbúa ESB. Ísland er nánast valdalaust m.t.t. seinni meirihlutans en jafn valdamikið og Þýskaland mt.t. fyrri hlutans. Í grein sem unnin var af undirrituðum fyrir Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins (http://media.evropunefnd.is/u/d/vaegiislands.pdf), kemur til dæmis fram að hlutfallslegt vægi Íslands í ráðherraráðinu verður nú 1,8% samanborið við 2,4% hjá Danmörku, þrátt fyrir mikinn mun í íbúatölu. Ein helsta gagnrýnin á umrætt kosningakerfi er einmitt sú að hún umbunar stórum og smáum ríkjum á kostnað meðalstórra.
kv. Pawel
Pawel Bartoszek (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 13:39
Atkvæðavægi eins þingmanns á íslenska þinginu er tæplega 1,6%. Við vitum öll hve miklu einn þingmaður ræður, t.d. Frjálslyndir eða Borgaraflokkurinn, sem höfðu 4 þingmenn. Það eru þó 6.3% í 4 þingmönnum. Þeir ráða samt engu.
Gleðilegan fullveldisdag.
Gullvagninn (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 16:03
Þakka innlitið og athugasemdirnar.
Pawel, ég hef nefnt 55% regluna í athugasemdum og fyrri færslum (t.d. hér). Þakka þér að benda á grein þína sem er fróðleg samantekt.
Ef þú skoðar linkinn í færslunni vísar hann í bók sem Jens-Peter Bonde ritstýrði. Í umfjöllun sinni, sem víða má finna, talar hann um atkvæðavægið sem eina raunverulega mælikvarðann á áhrif innan ráðherraráðsins. Bonde sat á Evrópuþinginu í 29 ár og átti sæti í báðum stjórnarskrárhópum ESB, svo hann þekkir málið vel.
Að tala um áhrif kjósenda er mjög langsótt, vægast sagt. Fyrir því eru margar ástæður sem ég gef mér kannski tíma í að tíunda síðar. Læt duga að sinni að benda á að íbúar 26 aðildarríkja fengu ekki að kjósa um stjórnarskrána. Það segir meira en mörg orð um áhrif kjósenda í Evrópuríkinu.
Haraldur Hansson, 1.12.2009 kl. 16:37
Sælir.Við getum í raun hugsað okkar,atkvæðagreiðslu eftir mörgum leiðum.
1.Atkvæðagreiðsla,þar sem að hver íbúi hafi sama vægi.(Þetta kerfi myndi aldrei henta okkur,nema við viljum hverfa inn í mergðina og týnast).
2.Atkvæðagreiðsla þar sem vægið verði miðað auðlinda viðkomandi ríki.(Þetta kerfi myndi henta okkur,sem myndi aldrei vera samþykkt að öðrum þjóðum).
3.Atkvæðagreiðsla miðað við umsvið.(Hér er aðferð,sem notuð er hjá t.d.LÍÚ.)(Hér er aðferð,sem örfáum ríkjum myndi þjóna.Íslendingar væri ekki eitt af þeim).
Þar sem að Lissabon-samningur hefur þegar verið samþykktur,sé ég ekki betur að nr.1 er niðurstaðan.Þá spurningin:Er það sem við viljum?
Ingvi Rúnar Einarsson, 1.12.2009 kl. 17:42
Andri Geir:
"Er eitthvað óeðlilegt að miða atkvæðisrétt við höfðatölu? Væri bara ekki besta mál að við tækjum þá aðferð líka upp í okkar alþingiskosningum?"
Nei, ekki þegar um ríki er að ræða eins og Evrópusambandsríkið.
Hjörtur J. Guðmundsson, 8.12.2009 kl. 07:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.