Jafnvel kratarnir efast

Á vef RÚV var frétt í gær um að innan þingflokks Samfylkingarinnar aukist nú efasemdir um nauðasamningana um IceSave.

Það er merkilegt. Alveg stórmerkilegt.

Þegar jafnvel kratar eru farnir að efast og vilja setja fyrirvara, sem gæti hægt á ESB hraðlestinni til Brussel, þá er eitthvað alvarlegt að. Þetta segir okkur skýrar en nokkuð annað hversu vondir samningarnir um IceSave eru.

Nú er spurning hversu margir þingmenn endurtaka leikinn frá því á fimmtudaginn. Þá kom hver á fætur öðrum og sagði "Ég er á móti og segi ... segi já".

Það er hægt að hafna IceSave af mikilli kurteisi. Ekki með því að segja nei, heldur með því að setja fyrirvara við ríkisábyrgð. Það er diplómatísk höfnun með boði um áframhaldandi viðræður og leit að ásættanlegri niðurstöðu.

Það getur ekki verið ástæða til að óttast harkaleg viðbrögð og refsiaðgerðir. Vestrænum réttarríkjum er ekki stætt á að beita slíku í deilumáli sem þessu. Það er ekki eins og Steingrímur Joð og félagar séu að framleiða efnavopn.


Ef menn í alvöru þora ekki að hafna ríkisábyrgð af ótta við afleiðingarnar, þá er eitthvað virkilega ljótt í trúnaðarskjölunum sem við almenningur fáum ekki að sjá.  


Ótrúleg ummæli

Í annarri frétt RÚV í dag segir:

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu ... að það væri hins vegar ekki kostur í stöðunni fyrir Alþingi að fella samninginn enda hafi verið skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Þetta er makalaust. Lítur forsætisráðherra á Alþingi sem stimpilpúða fyrir stjórn sína? Samningurinn var einmitt gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis vegna þess að Alþingi - og aðeins Alþingi - getur skuldbundið ríkið til að gangast í ábyrgð. Ekki ríkisstjórnin. Ekki samninganefnd. Aðeins Alþingi. Þess vegna er málið til afgreiðslu þar.

Það ætlar seint að ganga á Nýja Íslandi að koma á alvöru skiptingu framkvæmda- og löggjafarvalds.

 


mbl.is Borga tvo milljarða fyrir Breta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Var þetta í alvöru svona?!?:  ". . hins vegar ekki kostur í stöðunni fyrir Alþingi að fella samninginn enda hafi verið skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis".  Veit ekki hvort þetta er grátlegt eða spaugilegt.   Það liggur bara í orðunum:"Sko, ég ræð öllu í þessu landi og enginn, ekki Alþingi, ekki Forsetinn,  og allra síst þjóðin geta neitað neinu sem ég segi og vil.  OG EF ÞIÐ ERUÐ Á MÓTI ÞÁ SEGIÐ ÞIÐ JÁ"  Það verður að taka á þessum einvaldi og stoppa frekari eyðileggingu.  Við erum komin í hættu.

Elle_, 24.7.2009 kl. 00:27

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þetta er ekki rétt eftir henni haft í fréttum. Á www.althingi.is segir hún

Ég tel það ekki kost í stöðunni að fella þann samning en auðvitað fær þingið þennan samning til meðferðar og hann er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis á ríkisábyrgðinni. Auðvitað er eðlilegt að Alþingi skoði þá umgjörð sem hún vill hafa um þann samning og veit ég ekki betur en að þingið sé að skoða það. (Forseti hringir.) Ég mundi óska eftir því að það yrði skoðað það vel að breið samstaða gæti náðst um samninginn.

Magnús Helgi Björgvinsson, 24.7.2009 kl. 00:44

3 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Ætli þingfríið fram yfir verslunarmannahelgi verði ekki notað til að berja fólk til hlýðni við einvaldinn 'Jóku klóku'

Ísleifur Gíslason, 24.7.2009 kl. 01:43

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Takk öll fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Magnús Helgi: Takk fyrir þetta. Eins og þú sérð er klausan um ummæli Jóhönnu eins konar viðbót við færsluna, undir millifyrirsögn. Þegar ég sá þetta á vefnum fannst mér "ummælin" með slíkum ólíkindum að ég sleppti að minnast á þau. Þegar svo RÚV birti sama textann bæði á vefnum og í textavarpi taldi ég rétt eftir haft.

Þar sem ég hef aldrei eytt færslu eða athugasemdum læt ég textann standa ásamt leiðréttingu þinni, enda átti fyrri hluti færslunnar að vera aðalatriðið.

Haraldur Hansson, 24.7.2009 kl. 08:31

5 Smámynd: Elle_

Haraldur, það er von að fólk haldi að RUV fari ekki með meiriháttar rangfærslur á 2 stöðum.  Finn þetta ekki  undir althingi.is og veit ekkert hvort það var vitlaust eða ekki hjá RUV.

Elle_, 24.7.2009 kl. 10:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband