17.7.2009 | 12:37
Til hamingju með Nýja Ísland
Þær eru orðnar allmargar bloggfærslurnar sem skrifaðar hafa verið undir fyrirsögninni "Til hamingju Ísland". Þar er vitnað í Silvíu Nótt, fígúru sem gekk út á að vera fyndin með fíflaskap. Það er kannski við hæfi eftir gjörninginn á Alþingi í gær.
Búsáhaldabyltingin var krafa um Nýja Ísland, þar sem spillingunni skyldi úthýst og virðing Alþingis endurreist. Þar átti allt að vera uppi á borðum og lýðræðið bæði virt og virkt.
Í gær sáum við útkomuna á Alþingi. Svo ég spyr:
Til hamingju með hvað?
Að 32 þingmenn komu í veg fyrir að þjóðin fengi að kjósa um þetta stærsta mál í sögu lýðveldisins?
Að 33 þingmenn studdu - nokkrir gegn vilja sínum - að sækja um aðild Íslands á ESB?
Að lýðræðisumbæturnar á Nýja Íslandi felist í því að hafna beinu lýðræði en þvinga þingmenn til að kjósa "rétt" undir hótunum um stjórnarslit?
Hvað það var átakanlegt að heyra hvern þingmanninn af öðrum biðjast afsökunar á atkvæði sínu?
Að nú er það minnihlutinn sem ræður, í krafti pólitískra þvingana?
Til hamingju með hvað?
Að nú, þegar þjóðin þarf á samheldni að halda sem aldrei fyrr, skuli hún klofin með því að þvinga mál í gegnum þingið með pólitískum skollaleik?
Einn stjórnarliða líkti atkvæðagreiðslunni við spennandi kappleik þar sem tvísýnt er um úrslit. Núna fagnar hann úrslitum. Það spillir örugglega ekki gleði hans að "andstæðingurinn" í leiknum var hálf íslenska þjóðin. Ekki heldur að hann hafði "sigur" með bolabrögðum, svindli og pólitísku ofbeldi. Það eru stigin sem skipta máli, segja þeir í boltanum.
Til hamingju með hvað?
Með ríkisstjórnin sem hefur ekki skýrt og ótvírætt umboð frá kjósendum til að sækja um aðild að ESB en gerir það samt?
Að helmingur þjóðarinnar er með og helmingur á móti? Það er langt frá því að vera sá einhugur sem er nauðsynlegur í slíku stórmáli.
Að Alþingi skuli sækja um að komast í Evrópusambandið, sem beitti sér af fullum þunga gegn Íslandi í IceSave, án þess að útkljá það mál fyrst?
Nei, ég sé ekki hvað það er sem maður á að vera að springa úr hamingju yfir. Kannski yfir því að umsókn sé móðgun við Tyrki? Nei, ég held ekki. Ég kaus Vinstri græna vegna andstöðunnar við ESB. Nú hafa liljurnar fölnað og ég vildi að ég gæti tekið atkvæði mitt til baka.
Að sækja um aðild í miðri kreppu er eitruð blanda af uppgjöf og úrræðaleysi.
Svo segja þessir kratar "Til hamingju Ísland!"
Nýja Ísland hvað?
Aðild Íslands móðgun við Tyrki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vígreifir ESB-sinnar mega ekki ætla sér lokasigur strax. Það skríða óhjákvæmilega ormar út úr þessum tunnum sem verið er að slá lokin af.
Haraldur Baldursson, 17.7.2009 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.