17.6.2009 | 15:05
Hvers vegna 17. júní?
Hvers vegna höldum við 17. júní hátíðlegan? Það er ekki vegna þess að þann dag árið 1397 var Eiríkur af Pommern krýndur fyrsti konungur Kalmarsambandsins. Heldur vegna þess að þann dag árið 1811 fæddist Jón Sigurðsson, á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Eiríkur var aðeins unglingur þegar hann tók við völdum og varð konungur Íslands. Ísland hafði þá lotið stjórn erlendra konunga allt frá því að Gamli sáttmáli var gerður 1262.
Jón Sigurðsson var óumdeildur leiðtogi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þó íslenska þjóðin væri sú fámennasta og fátækasta í Evrópu, var Jón sannfærður um að henni farnaðist betur ef hún réði sínum málum sjálf. Með bjartsýnina að vopni og óbilandi trú á land og þjóð barðist hann fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands. Að losa þjóðina undan erlendum yfirráðum.
Þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldið á Þingvöllum 1944, rúmum sex áratugum eftir daga Jóns, kom aldrei annar dagur til greina en 17. júní. Fæðingardagur frelsishetjunnar frá Hrafnseyri.
Nú, 65 árum síðar, er átakanlegt að hlýða á forsætisráðherra landsins flytja þjóðhátíðarræðu. Í stað þess að blása þjóð sinni bjartsýni í brjóst og benda á þá möguleika og tækifæri sem sannarlega eru til, talar ráðherra um að ákvarðanir séu erfiðari og þungbærari en orð fá lýst. Í stað þess að leita lausna er vonast eftir flóttaleið. Í stað þess að segja "vér mómælum allir" að hætti Jóns er sagt "við verðum að borga IceSave". Bjartsýni, kraftur og trú fá ekkert pláss í boðskap ráðherrans.
Uppgjöfina vill ráðherrann fullkomna með því að gera Nýja sáttmála. Ekki við Hákon gamla eða Kalmarsambandið, heldur við portúgalskan valdamann, breskan verðandi forseta og Evrópusambandið.
Verði það raunin er hið raunverulega innihald 17. júní horfið. Þó fólk geti farið í skrúðgöngur og haldið á fána er merkingin farin. Þessi dagur stendur fyrir sjálfstæði og fullveldi. Fyrir bjartsýni og trú. Fyrir framtak og óttaleysi. Fyrir elju og dugnað. Hann er tileinkaður Jóni Sigurðssyni. Ef gengið er gegn öllu sem hann stóð fyrir er það ekki við hæfi að halda þjóðhátíð á fæðingardegi hans.
Ég óska öllum Íslendingum til hamingju með daginn. Þjóðhátíðardag Íslendinga. Ég vona að 17. júní verði áfram dagurinn okkar, um alla framtíð. Ekki 9. maí, þjóðhátíðardagur Evrópuríkisins, heldur 17. júní. Og ég vona að það verði íslenski fáninn sem blaktir við hún, en ekki blá evrópsk dula með gulum stjörnum.
Lýðveldið veikara en nokkru sinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og það þurfti bara einn mann til. Hvar er hann nú?
Jón Steinar Ragnarsson, 17.6.2009 kl. 15:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.