26.1.2009 | 20:57
Spaugstofan myndi ríkisstjórn
"Það blasir alveg við", sagði Björgvin G Sigurðsson aftur og aftur þegar hann sagði af sér. Afsögn hans var þúfan sem velti hlassinu og nú er rauðgrænn minnihluti í sjónmáli. Hversu oft sagði Björgvin "það blasir alveg við"?
Hann sagðist ekki hafa verið beittur neinum þrýstingi. Öll þjóðin hrópaði á afsögn hans í meira en 100 daga samfellt, en það er enginn þrýstingur. Þrátt fyrir "engan þrýsting" var afsögnin orðin að útspili Samfylkingarinnar seinna sama dag. Útspili sem Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að svara með því að taka til í Seðlabankanum. Það er eitthvað í þessu dæmi sem ekki gengur upp. Þetta var pólitísk flétta og nú er stjórnin fallin.
Skotin sem ganga á milli fráfarandi stjórnarflokka eru hörð. Ingibjörg Sólrún segir að Geir hafi "slegið á útrétta sáttarhönd" með því að hafna tilboði um að gera Jóhönnu að forsætisráðherra. Um hvað átti sú "sátt" að snúast? Hún sakar líka samstarfsflokkinn um "hrokafulla afstöðu" og að hafa ekki sýnt næga auðmýkt. Þetta er skrýtið orðaval. Jafn skrýtið og að Geir skyldi frekar láta stjórnina falla en að víkja forvera sínum úr seðlabankanum. Þau höfðu bæði tækifæri á að velja aðra leið, það átti að gera strax í október.
Ef hættumerkin blöstu við, hvers vegna fór þá svona illa?
Veikindi Ingibjargar Sólrúnar hafa afhjúpað Samfylkinguna sem eins manns flokk. Án hennar er allt í hers höndum og fylkingin langt frá því að standa undir nafni. Hingað til eru allar vangaveltur litaðar af því hvað er best fyrir flokkinn. Það gildir um alla flokkana. Ekki hvað best er fyrir fólkið.
Kannski er best að Spaugstofan myndi ríkisstjórn. Pólitíkusarnir geta séð um nokkra Spaugstofuþætti á meðan, þeir eru í góðri æfingu.
Ekki verið samið um neitt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.