16.1.2009 | 14:16
ESB: Marklaust plagg í þjóðaratkvæði?
Nú vilja margir Framsóknarmenn knýja á um að flokkurinn setji stefnuna á Brussel og loki augunum fyrir því að vegir fullvalda þjóðar liggja til allra átta. Þetta er eitt stærsta verkefni framsóknarmanna á flokksþinginu, segir Valgerður. Á borgarafundinum á mánudaginn sagði varaformaður Samfylkingar að við getum komist inn í Evrópusambandið á einu ári.
Er þetta rétt?
Það er hægt að velta upp tveimur kostum og bara spurning hvor þeirra er vitlausari.
Ef gerður er samningur á næstu 12 mánuðum. þá verður hann sjálfkrafa orðinn marklaust plagg þann dag sem Ísland ætti kost á að ganga í sambandið. Það getur ekki verið hugmyndin að ætla að láta þjóðina kjósa um það. Ekki nema það sé viljandi gert til að spila með kjósendur og draga athyglina frá kreppunni og klúðrinu.
Staðreynd: ESB tekur ekki við fleiri ríkjum fyrr en Lissabon samningurinn hefur tekið gildi.
Staðreynd: Lissabon samningurinn getur ekki tekið gildi á árinu 2009.
Staðreynd: Samningurinn hefur í för með sér verulegar breytingar á ESB.
Staðreynd: Aðildarsamningur byggður á núgildandi lögum getur aldrei orðið marktækur.
Í Kastljósinu á mánudag lagði Guðmundur Ólafsson ríka áherslu á að segja fólki satt. Hvers vegna er það ekki gert? Á þetta sjónarspil að vera upphafið að Nýja Íslandi? Hjálp!
Samninganefnd ESB getur eingöngu samið á grundvelli þeirra laga sem nú gilda. Það getur ekki verið að hún sé hafin yfir lög" og geti samið eftir hugsanlegum reglum sem ekki eru ennþá til. Samningsmarkmið Íslands eru ekki heldur til. Ef samið er eftir núgildandi reglum verður þá allt í plati?
Og hvað svo?
Bíða róleg eftir að Lissabon samningurinn taki gildi. Fyrr komumst við ekki inn.
Þegar það gerist verða breytingar á ESB svo miklar að aðildarsamningur Íslands væri sjálfkrafa orðinn marklaus í mörgum efnisatriðum. Hvað á þá að gera? Láta Framkvæmdastjórn ESB sjá um að laga hann að nýju umhverfi"? Það heitir að semja af sér. Því miður eru Evróputrúarbrögð Samfylkingarinnar orðin svo svæsin að henni væri meira en trúandi til þess. Eins og eitt stykki bankahrun sé ekki nóg. Þyrfti þá að semja við ESB upp á nýtt og kjósa upp á nýtt?
Hvað breytist með Lissabon samningnum?
Meira og minna allt. Sem dæmi, þá breytist allur texti í því sem nú eru 27 fyrstu greinar Maastricht samningsins að hálfri grein undanskilinni. Flestar greinar þar fyrir aftan breytast eitthvað eða mikið, sumar alveg. Í Rómarsáttmálanum þarf að fara aftur í 11. grein til að finna texta sem stendur óhreyfður, þar fyrir aftan eru líka miklar breytingar. Einnig eru 27 af 37 bókunum (protocols) nýjar, auk breytinga á yfirlýsingum (declarations).
Þetta eru ekki einhver smáatriði.
Miklar breytingar á stjórnkerfinu þar sem færri menn fá meira völd. Breytingar á löggjöf og valdsviði, þar á meðal færist löggjöf í orkumálum til Brussel. Einnig er skotið inn í lögin tilvísun til hins innri markaðar" hér og þar, m.a. varðandi fiskveiðar. Slíkar tilvísanir hafa verið (mis)notaðar til að fella dóma hjá Evrópudómstólnum í málaflokkum sem ekki heyra undir ESB í orði kveðnu. Það er líka umbylting í utanríkismálum, sem m.a. kemur inn á viðskipti við ríki utan sambandsins.
Hvað er hægt að semja um núna?
Ekkert af viti, satt að segja. Ísland gæti búið í haginn með því að reyna að semja sig framhjá hinni skaðlegu sjávarútvegsstefnu ESB" eins og Robert Wade orðaði það á borgarafundinum. Það gæti kannski sparað tíma en erfitt að sjá hvaða vitglóra væri í því, svona úr samhengi við boðaðar breytingar. Viðæður gætu reddað nokkrum júrókrötum kokteilpartýum í Brussel og kannski kaffi og meððí í saumaklúbbi hinnar 344 manna héraðsmálanefndar.
Hinn kosturinn
Viðsemjendur gætu farið í þykjó" og ímyndað sér að Lissabon samningurinn verði lögfestur óbreyttur og samið á þeim grunni, án lagastoðar. Ef síðan samningurinn er felldur aftur á Írlandi er allt unnið fyrir gýg. Þá er bara að byrja upp á nýtt. Það er a.m.k. jafn víðáttuvitlaust og fyrri kosturinn.
Hvernig væri bara að segja satt?
Eignarhald auðlinda sé tryggt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvernig stendur á því að Valgerður og aðrir í Framsókn eru ekki betur upplýst um það hvað ESB þýðir fyrir okkur. Heldur Valgerður að við Íslendingar getum samið sér fyrir okkur, er það þannig sem hún hugsar þessa ESB inngöngu fyrir okkur Íslendinga ? Haraldur það stendur þarna í pistli þínum skýrum orðum hvað ESB þýðir fyrir Ísland. Værir þú ekki til í að senda henni Valgerði þennan pistil þinn svo hún fari að átta sig á því, hvaða lög og reglur gilda hjá ESB ... ? Mætti Valgerður kannski ólesin um ESB aðild á Framsóknarflokksþingið ? Hvað er að ???
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 16.1.2009 kl. 14:56
Það er merkilegt hvað hægt er að ræða um ESB fram og aftur án þess að taka á Lissabon samningnum. Þetta er plaggið sem við höfum aðgang að inngöngu í. For good or bad. Allt tal um að við getum verið með í sambandi um sameiginlega auðlyndastýringu án þess að gefa upp fullveldi yfir auðlyndum er náttúrulega bara fásinna. Þetta er grundvöllur sambandsins. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því skoða það sem valmöguleika. Allar áætlanir sem leiða að því að koma okkur upp úr þessu rugli eru þess virði að skoða. Það verður hinsvegar ekki gert með því að halda að maður geti bæði haldið og sleppt.
Héðinn Björnsson, 16.1.2009 kl. 14:57
Alltaf gott að rekast á blogg sem útskýrir á mannamáli hlutina fyrir hinum almenna borgara :)
A.L.F, 16.1.2009 kl. 14:59
Yrði ekki innganga í ESB banahögg íslenska landbúnaðar og fiskveiða? Tel svo vera nema annað kæmi í ljós!
Smyrill (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 15:27
Takk öll fyrir innlitið.
Guðbjörg Elín: Ég held að Valgerður sé bæði vel læs og skrifandi og viti sitthvað um Evrópusambandið. Þeir sem eru í pólitík eltast stundum við tískuna. Nú er best að nota frasa eins og: Könnum hvað er í boði, þjóðin á að ráða, skoðum kostina, pössum auðlindirnar og fleira í þeim dúr. Þá viðrar betur til atkvæðaveiða.
Mæli annars með þessari bók sem hægt er að lesa frítt á netinu. Þetta er "Reader friendly" útgáfa. Allt sem er feitletrað í lagatextum eru breytingar og/eða nýjungar sem Lissabon samningur hefði í för með sér.
Haraldur Hansson, 16.1.2009 kl. 15:30
Staðreynd: ESB tekur ekki við fleiri ríkjum fyrr en Lissabon samningurinn hefur tekið gildi.
--> rétt, en Ísland er ÞEGAR með auka-aðild að Evrópubandalaginu, sem þýðir að þetta atriði á ekki við.
Staðreynd: Lissabon samningurinn getur ekki tekið gildi á árinu 2009.
--> rétt, en skiptir ekki máli, Ísland mun fá aðild að Rómarsáttmálanum eða Lisboa sáttmálanum, eftir því sem við á þegar sótt er um aðild.
Staðreynd: Samningurinn hefur í för með sér verulegar breytingar á ESB.
--> rétt, en skiptir engu máli, því breytingarnar liggja fyrir og vitað er að hverju er gengið.
Staðreynd: Aðildarsamningur byggður á núgildandi lögum getur aldrei orðið marktækur.
--> rétt, það þarf stjórnarskrárbreytingu til, en það hefur alltaf legið fyrir.
Uni Gislason (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 23:16
Uni: Skamm, skamm, þú hefur gleymt að lesa heima.
Ef þú heldur í alvöru að innganga í Evrópusambandið sér bara einhver smá viðbót við EES aðild, þá þarftu heldur betur að herða þig. Ég mæli með bókinni sem ég vísa á hér í athugasemd fyrir ofan, hún varpar ljósi á mjög margt.
Þú færð ekki hátt á prófinu ef þú svarar öllum spurningum með "skiptir engu" eða "á ekki við". Vegna þess að það er rangt. Það skiptir öllu máli hvaða reglur gilda um sambandið sem menn vilja ganga í, hvernig stjórnkerfið virkar og hvert valdsvið þess er. Innganga er ekki tímabundin redding.
Breyting á stjórnarskránni er þessu óviðkomandi. Hana þarf að gera, en færslan er um aðildarsamninginn sjálfan, innihald hans og lagalegt gildi.
Haraldur Hansson, 17.1.2009 kl. 00:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.