Nýsköpun hin síðari

Þó að stjórnarslit liggi í loftinu grunar mig að hið rauðgræna bandalag verði ekki ofaná. Björn hefði átt að fara aðeins lengra aftur í tímann í vangaveltum um það sem við tekur. Ég giska á að það verði mynduð Nýsköpunarstjórn hin síðari eftir næstu kosningar.

Þetta er sem sagt mín spá: Það verða Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkur sem mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor.

Þegar núsitjandi stjórn var mynduð sáu sumir Nýsköpun endurvakta, þar sem Samfylkingin átti að vera arftaki Sósíalista og Alþýðuflokks sem mynduðu Nýsköpun með Sjálfstæðisflokknum 1944. En Samfylkingin hefur orðið að eins konar bræðingi; demó-júró-kratar.

Þó er Jóhanna Sigurðardóttir heiðarleg og sjálfri sér samkvæm, enda var það hennar vegna sem ég kaus Samfylkinguna síðast (verst að geta ekki kosið bara einstaklinga).


Sjálfsagt myndu margir fussa yfir Vinstri grænum í stjórn með íhaldinu. Allir frasarnir um að Steingrímur Joð kunni ekki annað en að vera á móti öllu fá að heyrast. Enn fleiri fussa yfir áframhaldandi setu Sjálfstæðisflokks í stjórn. En gott og vel, ég ætla samt að spá þessu.

Hvers vegna? Vegna Evrópumála og í ljósi þess að gullfiskaminni og tregðulögmál fylgja stjórnmálum. 

Fylgi flokkanna mun verða talsvert annað en það sem kannanir sýna núna. Mannabreytingar og stefnubreytingar munu skipta máli. Þeir sem sýna mestan heiðarleika í sinni naflaskoðun munu hagnast á því. Og þeir sem hafa kjark til að gera nauðsynlegar mannabreytinigar.

Hinn rauðgræni draumum Steingríms Joð þyrfti fulltingi Framsóknar, en þriggja flokka stjórn er ekki aðlaðandi kostur. Að endurtaka leikinn með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki væri glapræði fyrir báða (og þjóðina) í ljósi undangenginna atburða.

Evrópumálið verður hið stóra kosningamál og á þeirri forsendu mun Nýsköpun hin nýja ná saman. Að bjarga Íslandi frá því að vera innlimað í Evrópuríkið í miðri kreppu.

Nýsköpunarstjórnin hin fyrri lagði grunninn að nútíma velmegun, með stríðsgróðann að vopni, þó ekki hafi hún orðið langlíf.

Nýsköpunarstjórnin hin síðari mun fá það erfiða verkefni að leggja grunninn að Nýja Íslandi með stríðsskuldir útrásardólganna í farteskinu.


mbl.is ESB aðeins átylla fyrir stjórnarslitum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Hermannsson

Nýsköpunarstjórin fyrri vann það afrek fyrst og fremst að bjarga stríðsgróðanum frá botnlausu framsóknarsukki út um land allt, það hefði nákvæmlega ekkert orðið úr honum annað en stanslausar fyrirgreiðslur, mútur og spilling. En þeim mun oftar sem Steingrímur hunsar íhaldið og tilbiður Samfylkingu, því ólíklegra verður að íhaldið muni taka hann í stjórn.

Baldur Hermannsson, 4.1.2009 kl. 15:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband