31.12.2008 | 10:44
ÍSLAND punktur ESB
# 1 Hvað er þetta Evrópusamband?
Íslenskir kjósendur þurfa að fá svör við þessari spurningu áður en þeir geta ákveðið hvort stjórnvöldum verði veitt umboð til að ræða við ESB um aðild að sambandinu.
Spurningin Hvað er ESB?" er ekki um aðildarviðræður, samninga, eða einstaka málaflokka. Aðeins kerfið sjálft.
Nokkrir spurningar sem varða veginn eru þessar:
- Hvað felst í valdaafsali til stjórnar Evrópusambandsins?
- Hvernig breytist hlutverk Alþingis við inngöngu í ESB?
- Hve mikið fjölgar þeim lögum sem Alþingi fær beint frá ESB?
- Hve miklu ráða Íslendingar um eigin velferð eftir inngöngu?
- Hvaða málaflokkar flytjast til ESB sem ekki heyra undir EES?
- Mun Ísland eiga fulltrúa í Framkvæmdastjórninni?
- Hvert verður hlutverk forseta ESB og hvert er valdsvið hans?
- Verður sjálfstæð utanríkisstefna ekki leyfð?
- Hver yrði atkvæðaréttur Íslands og áhrif á ákvarðanatöku?
- Ætti Ísland fulltrúa í mörgum nefndum ESB og hvað gera þær?
Ég ætla að láta pólitíkusum eftir að svara en set fókusinn á hvort innganga í ESB sé holl fyrir stjórnkerfið, dragi úr spillingu, klíkuskap og einkavinavæðingu og bæti lýðræðislega stjórnarhætti. Þannig hefur umræðan verið, sem er skiljanlegt í ljósi sukksins sem bankahrunið afhjúpaði.
Stjórnarskráin
Nigel Farage, er annar leiðtoga Eurosceptics flokksins á Evrópuþinginu. Í byrjun ávarpsins hér fyrir neðan nefnir hann að ársreikningar ESB hafi ekki verið endurskoðaðir, en þeir hafa ekki hlotið áritun endurskoðenda síðan 1994 vegna óreiðu.
En ræða Farages er annars um svindlið með stjórnarskrána.
Eins og fram kemur í ræðunni var Stjórnarskráin felld í Hollandi og Frakklandi og síðan umskrifuð og samþykkt sem Lissabon samningurinn". Það var gert til að sniðganga lýðræðið. Markmiðið með stjórnarskránni er að breyta ESB úr sambandi 27 sjálfstæðra ríkja í eitt sjálfstætt sambandsríki. Einn helsti kosturinn við hina dulbúnu stjórnarskrá er að þar er gert ráð fyrir möguleikanum að segja sig úr ESB. Frábært!
Lýðræðið í framkvæmd
Í stuttu ávarpi hér fyrir neðan gerir Daniel Hannan athugasemd við hvernig ESB gefur skít í lýðræðið, með því að hundsa úrslitin í þjóðaratkvæðinu á Írland. Við reynum ekki einu sinni að þykjast" segir hann, bara höldum áfram í eigin heimi og látum eins og kjósendur séu ekki til.
Fjármál og þingmenn
BBC Newsnight gerði úttekt á fjármálaspillingu meðal þingmanna ESB, sem þeir kalla Euro Bureau Bluff". Í ljós kom að flestir þingmenn taka við risnugreiðslum án tilefnis, ferðapeningum umfram kostnað o.s.frv. Chris Davis, þingmaður frá Bretlandi, segir að verði skýrsla um málið dregin fram í dagsljósið muni það leiða til fangelsisdóma. Enda fær enginn að sjá hana nema í lokuðu herbergi að undangengnum þagnareiði.
Það er verið að vinna í málinu" segir Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins. Hún segir þetta viðloðandi vandamál" ekki síst eftir að launalægri þingmenn frá A-Evrópu tóku þar sæti. Þeir sem telja að eftirlaun ráðamanna á Íslandi séu ósómi ættu að kynna sér eftirlaun þingmanna ESB. Einu úrbæturnar sem boðaðar hafa verið eru skýrari reglur um ferðapeninga.
Framkvæmdastjórnin (EU Commission)
Framkvæmdastjórn ESB, eins konar ríkisstjórn Evrópu, fer með framkvæmdavaldið. Þar situr nú einn fulltrúi frá hverju ríki. Í framkvæmdastjórn Barrosos eru nokkrir fulltrúar sem hafa þurft að víkja sæti í pólitík heimafyrir og aðrir sem hlotið hafa refsidóma í sakamálum. Í ræðunni sem hér fylgir gerir Nigel Farage stutta úttekt á ráðherralistanum". (Úttektin á íslensku í þessari færslu.)
Ef Íslendingar ættu sæti í EU Commission þyrftum við að tilnefna Árna Johnsen til að eiga fulltrúa á pari við hinar þjóðirnar. Eurosceptics er flokkur sem telur 37 þingmenn (5%) frá 10 löndum, sem gagnrýna mjög spillingu og ólýðræðislega stjórnarhætti innan ESB. Evrópusambandið er í grunnin byggt á 19. Aldar hugmyndum um heimsveldi. Það er kjörið fyrir Íslendinga að kynna sér störf Eurosceptics.
Aðildarumsókn Íslands
Áður en stjórnmálamenn fara í viðræður þurfa Íslendingar að veita þeim umboð í þingkosningum (eða þjóðaratkvæði ef þing er ekki rofið). Komist meirihlutinn að þeirri niðurstöðu að ESB sé fínn klúbbur, sem er vænlegur fyrir Ísland, er hægt að hefja viðræður.
Þrátt fyrir sáran skort á lýðræði, virðingarleysi fyrir borgurunum, peningasukk og spillingu gætu Íslendingar sagt já. T.d. ef menn telja það kost að minnka spillinguna hér og fá enn meiri spillingu í útlöndum í staðinn. Eða ef menn eru svo blindaðir af evrunni sem kæmi kannski eftir 10 ár að það sé í lagi að fórna hverju sem er og bíða. Eða ef menn eru orðnir svo dofnir af kreppunni að þeir leiti að patentlausn sem er ekki til.
Líka er hugsanlegt að það sé til einhver kostur við ESB sem er svo stórkostlegur að hann vegi upp alla gallana. Ég kem ekki auga á hann. Svo kann að vera að menn trúi að innganga í ESB hafi í för með sér efnahagslegan ávinning sem munar um, umfram EES samninginn. Aðeins kosningar svara spurningunni.
Þessi færsla er eins konar framhald af inngangi ESB #0
Vangaveltur um aðildarumsókn og samning verða í ESB #2.
Umsókn í þjóðaratkvæði? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir þetta. Nigel Farage er greinilega mjög eitruð tunga þarna
Haukur Nikulásson, 31.12.2008 kl. 11:03
Einar Solheim, 31.12.2008 kl. 11:31
Þetta er nú ekki að blogga um frétt heldur tilraun til að senda frá sér áróður....en gott og vel.
Gísli Ingvarsson, 31.12.2008 kl. 11:51
Sælir og takk allir fyrir innlitið.
Gísli: Það er rétt athugað hjá þér að pistillinn var ekki hugsaður sem blogg við frétt meðan ég setti hann saman. Inntakið er að viðræður þurfi að bera undir dóm kjósenda áður en þær geta hafist - og að kynna þurfi hvað ESB er.
Þegar ég ætlaði svo að setja hann á netið var þar frétt þar sem inntakið var að viðræður þurfi að bera undir dóm kjósenda áður en þær geta hafist. Tengingin gat ekki verið betri.
Haraldur Hansson, 31.12.2008 kl. 12:11
Takk fyrir þetta Jón Frímann.
Ég vek athygli þína á að frétt BBC sem þú vísar á er að hluta byggð að viðtali við Siim Kallas, sem er kommisar í stjórn Barrosos og fer þar með málefni yfirstjórnar og endurskoðunar.
Að spyrja hann álits á hugsanlegum misfellum í framkvæmd fjármála ESB gefur álíka hlutlaust svar og ef þú spyrðir Hannes Hólmstein álits á þeirri fullyrðingu að frjálshyggjan sé orsök efnahagsvandans og að hún sé búin að vera. Kallas er fyrst og fremst að verja eigið skinn, eins og pólitíkusa er háttur.
Ég skil að þú viljir ekki að taka orð Eurosceptics manna sem hinn eina sannleika og það á enginn að gera. En frekar en að leita í smiðju Kallas mæli ég með að þú gúgglir hlutlausar upplýsingar. T.d. er Jens-Peter Bonde talinn áreiðanlegur og "maður fólksins", með mikla reynslu af Evrópuþinginu. Hann er ekki par sáttur.
Haraldur Hansson, 31.12.2008 kl. 14:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.