Mótmælafundur hægri manna

Mótmæli vegna hrunsins mikla eru ekki einkamál vinstri mann. Eða ættu ekki að vera það. Nú hefur Heimdallur tekið tappann úr og það verður ekki aftur snúið. Ályktun þeirra um breytingar í Seðlabanka, FME og ríkisstjórninni er skýr og blátt áfram. Og djörf! Næsta skref hlýtur að vera að þeir geri sig meira áberandi í málefnalegri umræðu. Ég reikna með að sjá mótmælafund hægri manna auglýstan innan tíðar. Eða borgarafund.

Málflutningur hægri manna eftir hrun hefur aðallega verið þrenns konar: Að gera lítið úr mótmælum með því að tengja þau við skrílslæti og eggjakast. Að gera mótmælin tortryggilegt vegna þess hver talar en ekki hvað er sagt. Að stimpla fundi sem halelújasamkomur í einkaeign Vinstri grænna, femínista og fólks á vinstri vængnum.

Vissulega eru til málefnaleg framlög frá mönnum á bláa kantinum og sumt vel skrifað. Meðal annars umræður um ESB og gjaldmiðilsmál. Eflaust eitthvað fleira gott sem hefur farið fram hjá mér, þó ég lesi mikið og hlusti. Og það er einmitt kjarninn: Farið fram hjá mér.

Mótmælafundir á Austurvelli fara ekki framhjá neinum. Borgarafundur í Háskólabíói ekki heldur. Það á heldur ekki að fara fram hjá neinum hver framtíðarsýn hægri manna er fyrir Nýja Ísland. Fyrir áttavilltan mann eins og mig væri fengur í að skoða allt litrófið. Allar raddir eiga að heyrast og það þarf ekki að bíða eftir að landsfundur gefi línuna.

Það verður kosið og tíminn líður hratt. Ef menn á hægri vængnum einblína á það að gera alla hina tortryggilega falla þeir á tíma. Ná ekki að móta stefnu sína og eiga þá ekki önnur vopn en gamla hræðsluáróðurinn. Ég efast um að það vopn virki lengur svo vakning Heimdellinga gæti verið fyrsta skrefið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband