Og svo, þegar varnirnar bresta ...

Það er enn hægt að koma í veg fyrir upplausn og óeirðir, en tíminn er ekki endalaus. Ekki frekar en tíminn sem menn höfðu til að breyta IceSave í dótturfélög, hann rann út. Á sama hátt mun tími stjórnarinnar renna út og allt fara í bál og brand ef ekki verður breytt um kúrs. Að láta eins og það sé ekki raunveruleg hætta er eins og að stinga hausnum í sandinn.

Hættan er fyrir hendi og hún fer vaxandi. Við sáum það á laugardaginn. Fyrsti ræðumaður á Austurvelli var ungur laganemi, þar fór kona sem var augljóslega reið. Textinn sem hún flutti var á köflum ungæðislegur og ekki sá besti sem við höfum heyrt. En það skipti ekki máli. Hún náði til fjöldans því að hann er líka reiður. Eftir fundinn fór hópur fólks að lögreglustöðinni við Hlemm og þá sögu þekkja allir.

En þetta er bara undanfari. Á meðan reiðin og ólgan fær að safnast upp, eins og vatn í lóni, eykst þrýstingurinn á stíflugarðinn. Ríkisstjórnin er eina stjórnvaldið sem hefur tækin til að lækka í lóninu og hleypa ólgunni í æskilegan farveg. Geri hún það ekki mun stíflan bresta og allt fara í bál og brand. Það þýðir ekki að halda að slíkt geti ekki gerst á Íslandi.

Tækið sem stjórnin hefur er skynsemi. Hana á að nota til að koma með upplýsingar og auka traust. Að upplýsa fólk t.d. um gang mála í skilanefndum bankanna. Að endurvekja traust t.d. með nauðsynlegum mannabreytingum og loforði um kosningar. Það þýðir ekki að segja að það megi ekki kjósa. Og það hækkar bara í lóninu ef gengið er þvert gegn vilja yfirgnæfandi meirihluti fólks í lýðræðisríki. Skýrasta dæmið er óbreytt stjórn seðlabankans, sem er óhjákvæmilegt að skipta út.

Stjórnin hefur enn einhvern tíma til að afstýra óeirðum. Um daginn setti ég saman blogg "Tillaga um aukið traust - en ekki vantraust" með þremur hugmyndum sem ég er sannfærður um að væru til bóta. En verði ekkert gert heldur áfram að hækka í óánægjulóninu. Á endanum munu varnirnar bresta. Það er glapræði að láta eins og það geti ekki gerst. Það mun gerast - nema skynseminni verði hleypta að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Tek undir með þér að tíminn er að renna út fyrir stjórnina að lægja öldurnar. Fundurinn á laugardaginn, vantrauststillagan, sem var reyndar frekar illa undirbúin og framkvæmdin eftir því og borgarafundurinn í kvöld, þetta eru þrjár viðvörunarbjöllur sem klingja í eyrum yfirvalda.

Mannabreytingar, meiri upplýsingagjöf, t.d. með sérstakri vefsíðu þar sem framgangur rannsóknar á hruninu verða raktar, að svo miklu leyti sem það er hægt án þess að spilla fyrir rannsókninni og síðast en ekki síst að frysta eignir og stöðva frekari þjófnað útrásarmannanna.

Taki ríkisstjórnin ekki þessi skref er hætt við að upp úr sjóði.

Theódór Norðkvist, 24.11.2008 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband