22.11.2008 | 14:04
Þess vegna mæti ég
Enn heyri ég of marga finna sér ástæðu til að mæta ekki á Austurvöll. Eða búa hana til. Sumir segja að mótmælin snúist bara um einn seðlabankastjóra, það er rangt. Aðrir að þetta séu sellufundir fyrir vinstriflokka, sem er líka rangt. Enn aðrir blogga um að þetta séu bara kröfufundir um inngöngu í ESB, sem er fráleitt. Sumir setja fyrir sig einstaka ræðumenn þó þeir séu orðnir um tuttugu og tali hver á sínum forsendum. Aumasta afsökunin er þó veðrið.
Ég mæti vegna þess ...
... að kerfið er hrunið og það er ekki einkamál stjórnvalda hvernig byggt er upp.
... að orðspor Íslands hefur boðið hnekki erlendis og stjórnin aðhefst of lítið í því.
... að ég get ekki sett traust mitt á óbreytta sitjandi stjórn.
... að ég tel að skipa eigi þjóðstjórn sem situr þangað til hægt er að kjósa.
... að upplýsingar sem við fáum eru oft misvísandi. Stundum rangar.
... að enn hefur ekki einn einasti maður í stjórnkerfinu þurft að stíga til hliðar.
... að í öllum ríkisbönkunum sitja stjórnendur úr þeim gömlu.
... að nú er frjór jarðvegur fyrir nýjar hugmyndir. Þær verða að komast að.
... að það er vanvirðing við kjósendur að ætla sitja sem fastast.
... að gamli klíkuskapurinn er svo augljóslega enn til staðar.
... að það er pólitískt ofbeldi að neita fólki um kosningar, tilræði við lýðræðið.
... að mátturinn býr í fjöldanum. Því fleiri sem mæta, því stærri verður röddin.
... að ég vil sjá Nýja Ísland rísa, en ekki síga aftur í gamla farið.
Þess vegna mæti ég. Mættu líka, þín vegna.
Athugasemdir
Ég gæti ekki hafa orðað þetta betur. Við mætum sem fólk, ekki flokksleppar!
Ævar Rafn Kjartansson, 22.11.2008 kl. 14:15
Vel að orði komist.
Theódór Norðkvist, 23.11.2008 kl. 13:28
Ég tek undir það. Það er í allra þágu að gera óréttlæti og spillingu upp.
Vésteinn Valgarðsson, 24.11.2008 kl. 07:11
Vá, ég hef hvergi séð mínar ástæður punktaðar svo nákvæmlega niður, Haraldur
Guðjón: Ég veit ekki hvaða Emil þú ert að ávarpa. Greinarhöfundurinn heitir Haraldur. Ég átta mig heldur ekki á samlíkingu þinni við uppreisnarleiðtoga í Afríku. Finnst þér aðstæður hér á landi vera svipaðar og í Afríku? Ef svo er, finnst þér þá stjórnvöld hér vera betri en hinir svokölluðu "íslensku uppreisnarleiðtogar"? Heldurðu að hér myndi allt fara fjandans til ef fólkið fengi að hafa meiri áhrif??
Mín svör við spurningum Guðjóns eru eftirfarandi:
1. Já
2. Nei, fólk á að laga sig að breyttum aðstæðum en þó er óréttlátt að velta byrðunum á hluta fólks. Fólk sem hefur ekki átt kost á að kaupa sér húsnæða nema á okurverði (hér er ég ekki að tala um einbýlishús eða lúxushúsnæði, heldur venjulegar blokkaríbúðir fyrir venjulegar fjölskyldur) á ekki að bera syndir annarra með fallandi húsnæðisverði og verðbótum. Það er eðlilegra að þeir sem seldu á því verði og högnuðust á ástandinu taki skellinn.
3. Ísland á að standa við allar alþjóðlegar skuldbindingar og helst að vera leiðandi í innleiðingu reglna sem stuðla að réttlæti, jöfnum tækifærum, siðgæði og gegnsæi.
Ætlar þú að mæta í mótmælin, Guðjón?
Jóhann (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.