Sukk og svínarí. Patró og Álftanes.


Er réttlætanlegt að sameiginlegir sjóðir séu notaðir til að draga óreiðumenn að landi? Og verðlauna þá!

Á sukkið á Álftanesi að auka enn á svínaríið í garð byggðarlaga eins og Patreksfjarðar?


Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar samkvæmt III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga. Meðal helstu verkefna hans er að sjá um jöfnunarframlög vegna reksturs grunnskóla og þjónustu við fatlaða, en um þriðjungur tekna sjóðsins er hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga.

Í lögunum er heimild til „að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum", enda geta sveitarfélög orðið fyrir skakkaföllum, tekjutapi eða ófyrirsjáanlegum útgjöldum. Af texta laganna má ráða að höfundar hans hafi ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að vel stætt sveitarfélag gæti keyrt sig í þrot með allt að glæpsamlegu ábyrgðaleysi, eins og að byggja 2007 sundlaug eða aðrar skýjaborgir.


Patreksfjörður (sem nú er hluti af Vesturbyggð) hefur mátt þola hvað mesta blóðtöku allra byggðarlaga; um 30% fólksfækkun á tveimur áratugum. Það verður ekki skýrt með óábyrgu framferði heimamanna. Hörmulegar samgöngur vega þar drýgst, minnkandi kvóti hefur haft sitt að segja, hrun sparisjóðsins var dýrkeypt og innlausnarskylda í félagslega íbúðarkerfinu er mjög þungur baggi, eins og á öðrum sveitarfélögum þar sem íbúum fækkar.

Vesturbyggð vantar um 270 milljónir til að koma fjármálum sínum í viðráðanlegt horf. Það er baggi sem hefur vaxið á löngum tíma vegna þátta sem heimamenn ráða litlu eða engu um. Skyldi þeim ekki þykja súrt að sjá Jöfnunarsjóð leggja 1.000 milljónir í að draga óreiðumenn á Álftanesi upp úr sundlauginni? Þetta „tilboð" kemur nokkrum dögum eftir að fólki í Vesturbyggð var misboðið og gekk af fundi ráðherra um samgöngubætur.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur líka heimild til „að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga", en sameining er sett sem skilyrði fyrir milljónunum þúsund. Þau útgjöld er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta með vísun í þá heimild. Að auki á sveitarfélagið að fá að halda sundlauginni dýru og íþróttamiðstöðinni.

Það væri nær að setja myndarlega fjárhæð í vegabætur í Barðastrandarsýslu, sem hefur orðið svo illa útundan í samgöngumálum að það er okkur öllum til skammar

Ef einhver banki lánaði Álftanesi milljarða af hugsunarleysi eða glannaskap á hann að taka afleiðingum gjörða sinna. Semja sjálfur við skuldarann. Viðhalda kröfum eða afskrifa skuldir og taka á sig tapið sem hann á skilið. Hirða sundlaugina upp í skuld ef með þarf. Það á ekki að vera hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að lina högg bankans.


Í öllum landshlutum eru fámenn sveitarfélög sem ekki njóta hagkvæmni fjöldans. Það er ekki bundið við V-Barðastrandarsýslu. Hjá þeim vega framlög úr jöfnunarsjóði drjúgt. Það hlýtur að rýra getu sjóðsins ef þúsund milljónum er kastað í einhverja dellu eins og að greiða glæpsamlegar skuldir óreiðumanna. Svo er gráu bætt ofan á svart með því að gefa skúrkunum lúxussundlaug í verðlaun.

Það er eitthvað mikið bogið við þetta.

----- ----- -----

Höfundur tengist Patró/Vesturbyggð ekki neitt. Þetta er því ekki blogg um eigin hagsmuni.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ásgeir Bjarnason

Þetta er svo satt.

Það er eiginlega varla hægt að trúa því að yfirvöld séu að fara svona illa um almannahagsmuni.  Og svona verið að hlaða undir erlenda banka sem hafa fengið góða vexti fyrir eitthvað sem okkur er sagt að sé áhættuþóknun þeirra.

Fyrir hverja í ósköpunum er eiginlega þessi skjaldborg?

Jón Ásgeir Bjarnason, 8.10.2011 kl. 20:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband