"Statt'ann upp brekkurnar"

Besta lesendabréf sem ég hef séð í háa herrans tíð skrifar Pétur Óli Pétursson hefilstjóri í Morgunblaðið í dag. Það er eins konar sendibréf sem hann ritar sveitunga sínum Steingrími Joð. Þessi grein er svo frábær að ég leyfi mér að birta hana hér í heild (og leyfisleysi).

===== ===== ===== =====

Hífðu í búkkann og statt'ann upp brekkurnar, Steingrímur

Ég eygði satt að segja ákveðna von í brjósti mér þegar þú settist í stól fjármálaráðherra. Sú von var fyrst og fremst bundin við bakgrunn þinn. Drengur góður sem alinn var upp á íslensku sveitaheimili á íslenskum mat innan um íslenskt sauðfé og íslenska náttúru. Drengur sem breyttist í ungan mann sem barðist til náms í fræðum krafta fósturjarðarinnar og fjármagnaði námið með vörubílaútgerð í samstarfi við föður sinn. Ungi maðurinn var gríðarlega vinnusamur og vílaði ekki fyrir sér að fara í hrefnuflutninga landshlutanna á milli að loknum vinnudegi hjá Vegagerðinni, og var mættur með fyrstu mönnum í vegavinnu að morgni. Það minnkaði ekki vonarneistann að ungi maðurinn hafði á námsárum sínum reynst öflugur keppnismaður í blaki.

Þegar núverandi ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstri grænna var stofnað hafði ungi maðurinn elst. Hann hafði áratugareynslu af þingstörfum á elsta þjóðþingi heims, gegnt ráðherraembætti og allt. Vart var hægt að hugsa sér betri mann með jafngóðan bakgrunn til að rífa íslenska þjóð upp úr rústum íslenska efnahagshrunsins; bóndason úr Þistilfirði, ekki fæddur með silfurskeið í munni heldur heykvísl í annarri hendi og felgulykil í hinni. Maður sem lærði í uppeldi sínu að hafa orðheldni og vinnusemi að leiðarljósi. En viti menn! Hvað klikkaði? Við því er aðeins eitt svar; hann lenti í slæmum félagsskap í henni Reykjavík. En hvað er til ráða? Það er vitanlega að leita í ræturnar.

Skelltu þér til heimahaga í sauðburð og sjáðu lífið kvikna og vorið ganga í garð. Heilsaðu upp á gömlu sveitahöfðingjana, þar býr brjóstvitið sem gagnast hefur okkur vel öldum saman. Þar muntu komast að því að Brussel-peningunum er betur varið í samgöngubætur hér heima. Taktu beiðnabókina af Össuri, láttu Ögmund setja hann og rauðvínsliðið í farbann. Látum Stefán Þengilsson moka Víkurskarðið nokkur ár í viðbót og komum Vestfirðingum í vegasamband við um heiminn. Lögum hættuleg gatnamót, brýr og blindhæðir í vegakerfinu; það skilar sér strax í sparnaði í heilbrigðiskerfinu og kemur í veg fyrir örkuml einstaklinga. Smíðum nýjan Herjólf í Slippstöðinni á Akureyri, stóraukum þorskveiðar og framleiðslu á matvælum til útflutnings, t.d. með því að flytja Bakkavör heim og með lækkun á olíugjaldi getur þú bjargað þeim fáu vörubílstjórum sem eftir eru í landinu. Þetta voru nú kollegar þínir.

Þú hefur þetta allt í hendi þér, vinur minn. Ég trúi ekki að þú viljir láta minnast þín sem versta fjármálaráðherra Íslandssögunnar þegar möguleiki er á hinu gagnstæða. Láttu rakarasoninn frá Ísafirði bera þann titil áfram, þó hann hafi reyndar snúið frá villu vegar. Hann sá ljósið eftir að hann leitaði í ræturnar á Ísafirði, er honum varð litið upp í stjörnubjartan himininn og sá heillastjörnu sem nú fylgir honum, enda berst hann nú með kjafti, klóm og greininni tuttugustu og sjöttu fyrir íslenska alþýðu. Honum fer það svo vel úr hendi að það liggur við að ég fyrirgefi honum það að hafa sett Hagvirki hf. á hausinn með níðingsskap að hætti Breta.

Það er ekki of seint að snúa við blaðinu. Yfir Þistilfirði eru óteljandi heillastjörnur en í Evrópusambandsfánanum eru engar slíkar. Splittaðu nú drifið á Vabisnum, settu í fyrsta gír í háa kassanum, hífðu í búkkann og statt'ann upp brekkurnar. Þú getur þetta keðjulaus því hægri kanturinn er auður; þar nærðu spyrnu. Mundu að við tökum ekki hagvöxt að láni, við framleiðum hann. Tökum svo stöðuna í réttunum í haust. Þar flýgur kannski tappi af landaflösku því að í svona árferði þykir okkur vondur landi góður.

Kært kvaddur að sinni.
Pétur Óli Pétursson
Höfundur er hefilstjóri

 


mbl.is Tvöfaldur hausverkur af aðild Íslands að ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta er unaðslestur sannarlega og dýpri og merkingarríkari en yfirborðið segir.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.4.2011 kl. 12:04

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Algjörlega sammála þér Haraldur. Ég las þessa grein með athygli yfir kaffibollanum í morgun. Hreint frábær ritsmíð.

Kolbrún Hilmars, 16.4.2011 kl. 17:14

3 identicon

Hrikalega Flott ritsmíð, það vantar alls ekki,, en að blanda EU í þetta, það er steypa..

Kristinn M (IP-tala skráð) 17.4.2011 kl. 11:06

4 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Gæti orðið ein af áhrifamestu blaða greinum síðari tíma ef fjármálaráðherra les hana, og les hana rétt. 

Jón Baldur Lorange, 17.4.2011 kl. 11:32

5 Smámynd: Dagný

Hrein ritsnilld. Það má vona að fjármálaráðherra lesi hana, en lítil von til að hann fari eftir henni.

Dagný, 17.4.2011 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband