13.9.2010 | 00:44
Skrýtnasti flokkurinn
Evrópusamtökin eru skrýtin pólitísk hreyfing, líklega sú skrýtnasta í heimi. Aðal baráttumál félagsmanna er að svipta þjóð sína forræði í eigin málum og koma því undir fjarlægt vald. Meira að segja formleg yfirráð yfir verðmætustu auðlind sinni og öllum rétti til löggjafar í orkumálum, svo dæmi séu nefnd.
En við búum við skoðanafrelsi, sem betur fer. Evrópusamtökin eiga fullan rétt á sínum skoðunum eins og aðrir. Og dýrmætt málfrelsið gefur öllum rétt til að tjá skoðanir sínar. Evrópusamtökin hafa því stjórnarskrárvarinn rétt til að hafa rangt fyrir sér og fara með fleipur.
Til að vinna skoðunum sínum fylgi beita samtökin öllum ráðum. Síðustu dagana hafa árásir á íslensku krónuna verið áberandi og allt frá rafvirkja til ritstjóra lagt hönd á plóg. En hvaða skoðun sem við höfum á Evrópumálunum getum við öll verið sammála um nokkur atriði:
- Krónan hefur aldrei átt sæti á Alþingi Íslendinga.
- Krónan hefur aldrei samið fjárlög.
- Krónan samdi ekki frumvarpið sem varð að Ólafslögum og færði okkur verðtrygginguna, sem enn er í gildi.
- Krónan hefur aldrei tekið ákvörðun um að fella gengið.
- Krónan hefur aldrei verið fjármálaráðherra og ekki viðskiptaráðherra heldur.
- Krónan átti ekki sæti í einkavæðingarnefnd.
- Krónan var hvorki í stjórn Kaupþings né Íslandsbanka. Ekki einu sinni í Landsbankanum.
Samt tala menn iðulega um krónuna eins og hún sé lifandi vera, með sjálfstæðar skoðanir og mikil völd og vilji láta illt af sér leiða. Að hún sé óværa sem þarf að koma fyrir kattarnef. Að léleg stjórn efnahagsmála sé þessari kynjaveru að kenna, en ekki valdhöfum.
Blóraböggull er handhægt vopn
Þegar á móti blæs er gott að geta bent á blóraböggul. Allt er betra en að finna sekt hjá sjálfum sér. Þá er svo einfalt að gera gjaldmiðilinn að sökudólgi í miðju óörygginu sem fylgdi í kjölfar hrunsins. Einmitt á meðan fólk sér kjör sín og eignir rýrna er rétti jarðvegurinn fyrir svona boðskap. Og ef menn geta slegið tvær flugur í einu höggi og unnið vondum málstað fylgi í leiðinni, þá er þetta alveg kjörið.
Með því er líka hægt að færa fókusinn frá hinni raunverulegu stefnu Evrópusamtakanna, sem er að gefast upp á að ráða eigin málum. Slagorð um uppgjöf og aumingjaskap er ekki líklegt til vinsælda. Þess vegna hafa menn líka búið til orðaleppa eins og "að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum" til að nota um uppgjafarstefnuna.
En ekkert er nýtt undir sólinni. Það eru mörg dæmi um að skaðlegar hugmyndir fái hljómgrunn. Milljónir manna trúðu á yfirburði kommúnismans fyrir örfáum áratugum. Svo kannski er ég að hafa félagsmenn Evrópusamtakanna fyrir rangri sök. Kannski er þetta fólk sem trúir því, í hjartans einlægni, að það sé einhver vitglóra í því fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Enginn illvilji í garð þjóðarinnar, bara venjulegt velviljað fólk sem heldur að það sé að gera rétt.
Við verðum bara að treysta á að skynsemin hafi betur.
Athugasemdir
Svo má geta þess að Evrópusamtökin eru aðili að regnhlífarsamtökum evrópskra federalista, The European Movement, sem hafa það að markmiði að Evrópusambandið verði að sambandsríki eða eins og það heitir á heimasíðu samtakanna "united, federal Europe". Evrópusamtökin eru samkvæmt því samtök þeirra Íslendinga sem vilja sjá Ísland gert að einhvers konar fylki eða héraði í Evrópsku sambandsríki.
Hjörtur J. Guðmundsson, 13.9.2010 kl. 09:42
Samkvæmt stjórnarskránni Kafla X greinar 86/7/8. eru Evrópusamtökin á hálum ís með áróður sinn. Það er bara svoleiðis.
Valdimar Samúelsson, 13.9.2010 kl. 10:40
Flott grein hjá þér Haraldur.
Einnig mjög athyglisvert sem Hjörtur segir hér um aðild Evrópusamtakanna að samtökunum "The European Movement" sem hafa það að markmiði að Evrópusambandið verði að einu sameinuðu sambandsríki, United Federal Europe.
Það þarf að halda þessu atriði vel til haga í baráttunni.
Einnig tek ég undir með Valdimar Samúelssyni að þeir og einstakir aðilar þar eru oft á ansi hálum ís.
Er ekki ný búið að samþykkja lög um hópmálsóknir.
Getum við ekki ca 2000 manns tekið okkur saman og kært nokkra af ofstopafyllstu ESB sinnana í einum pakka fyir svik við þjóðina og landráð.
Slík réttarhöld myndu leiða ýmislegt fróðlegt í ljós og verða til þess að opna augu margra fyrir tilgangi þessa villu trúboðs og þeirra agenta !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.9.2010 kl. 10:59
Hægan, hægan!
Athugasemdir 2 og 3 eru mun þyngri og alvarlegri en innihald færslunnar gefur tilefni til. Stjórnarskráin er ekki 10 kaflar að lengd og inniheldur ekki 86 greinar, svo sýnilega er vísað í landráðakafla almennra hegningarlaga. Menn ættu að fara varlega í að saka fólk um landráð. Það eru mjög þungar sakir.
86. grein:
Þar er talað um að hafa í frammi ofbeldi, hótanir eða svik.
87. grein:
Greinin á við um að fá stjórn erlends ríkis til að "stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar".
88. grein:
Hún á einnig við um að fá erlent ríki til fjandsamlegra tiltækja og er þar átt við hluti eins og árásir og eignarspjöll.
Þótt ég sé ósammála Evrópusamtökunum í þessu stóra máli og telji kjánalegar árásir á krónuna vera málatilbúnað til að sneiða hjá málefnalegri umfjöllun, getur það ekki fallið undir hótanir eða svik að samtökin setji fram skoðanir sínar í opinberri umræðu. Að halda því fram er aðför að tjáningarfrelsinu.
Ég get heldur ekki séð að Evrópusamtökin (eða systursamtök) þeirra hafi gerst sek um neitt það sem hægt er að fella undir X. kafla almennra hegningarlaga og get því ekki tekið undir ásakanir um landráð.
Eigum við ekki að stilla á hófsamari bylgjulengd?
Haraldur Hansson, 13.9.2010 kl. 12:28
Gódur pistill og hnitmidadur. Ótrúlegt ad hér á thessu litla landi skuli vera til hópur fólks sem vill gera thad enn minna og undirgefid erlendu skrifraedi.
Halldór Egill Guðnason, 13.9.2010 kl. 18:59
Það er sérstakt að lesa það sem þú skrifar um þær þjóðir sem sömdu fyrir okkur stjórnarskrána fyrir rúmum 300 árum, gáfu okkur fullveldið fyrir rúmum 100 árum og hafa leyft okkur að vera sjálfstæð þjóð í rúm 60 ár og tryggja í dag sjálfstæði okkar með því að skiptast á að halda hér úti sveit herflugvéla sem sjá hér um allt eftirlit og alla öryggisgæslu.
Í öllum kennslubókum, nema þeim íslensku, er þrennt sem skilgreinir sjálfstæða þjóð: Sameiginlegt tungumál, sameinginlegt landsvæði og her til að verja þetta tvennt.
Í augum margra þjóða höfum við Íslendingar aldrei verið talin sjálfstæð þjóð því við höldum ekki eigin her. Jafnvel Danir litu á okkur sem hluta að Bandaríkjunum þegar þeim voru hér með sinn her.
Alveg sama hvað við Íslendingar berjum hausnum við steininn, herlaus ættbálkur telst ekki til sjálfstæðra þjóða í augum umheimsins.
Sást þú viðtalið við Afríkumanni sem Sjónvarpið sýndi eftir að ljóst var að Ísland komst ekki inn í Öryggisráðið? Þessi Afríkumaður sagði þetta hreint út, þeir litu ekki á okkur Íslendinga sem sjálfstæða þjóð því við höfðum engan her og því hvarlaði það ekki að þeim að kjósa okkur.
Með því að við vísum okkur til sætis með öðrum þjóðum Evrópu þá erum við að öðlast meira sjálfstæði og meira fullveldi en við nokkur tíma höfum haft. Þá fyrst erum við búin að tryggja okkar fullveldi og okkar sjálfstæði. Þá erum við endanlega orðin þjóð meðal þjóða.
Ég held að í þessari umræðu allri um fullveldi, sjálfstæði og ESB þá verði menn líka að horfa á stóra sviðið.
Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.9.2010 kl. 22:13
Friðrik, ber að skilja athugasemd þína þannig að til þess að geta talist sjálfstæð þjóð þurfum við að koma okkur upp her eða eiga hlutdeild í einum slíkum? Og ef leiðin til þess er að ganga í Evrópusambandið er það í mótsögn við málflutning aðildarsinnar, en þeir hafa mótmælt því ítrekað að sambandið ætli að koma sér upp sameiginlegum her.
Í Sviss, Belgíu og Finnlandi eru töluð fleiri tungumál en eitt. Þetta eru þá ekki sjálfstæðar þjóðir samkvæmt skilgreiningunni sem þú setur fram. Ég er hvorki sammála því né þessu um herinn, svo sýn okkar á það er ólík.
Veigamesti hluti sjálfstæðisins er að hafa sjálfsforræði í eigin málum, hvort heldur það fellur undir löggjafar-, framkvæmda- eða dómsvald. Stærstan hluta þessa forræðis þarf að láta af hendi ef við "vísum okkur til sætis" innan Evrópusambandsins.
Ágætur listamaður sagði eitt sinn: "Til þess að ríki geti talist alvöru ríki þarf það að eiga her, flugfélag og bjór. Að minnsta kosti bjór." Lega landsins hefur tryggt okkur þokkalegan frið og gerir herinn léttvægastan af þessu þrennu og einnig því þrennu sem þú nefnir.
... og svona í lokin, þótt það sé léttvægt:
Það er sérstök orðanotkun að segja að aðrar þjóðir hafi gefið okkur fullveldi og leyft okkur að vera sjálfstæð. Auk þess fer því fjarri að erlendar þjóðir hafi samið fyrir okkur stjórnarskrá fyrir 300 árum, Danir áttu ekki einu sinni stjórnarskrá fyrr en löngu síðar.
Haraldur Hansson, 13.9.2010 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.