Ég held með bændum

"Það ætti að leggja niður landbúnað og flytja hann inn í dósum" sagði ein sögupersónan í Punktinum hans Péturs, ef ég man rétt. En ég held með bændum, þótt aldrei hafi ég verið í sveit. Það væri nær að endurreisa stolt hins íslenska bónda.

Tvö síðustu sumur hef ég ferðast nokkuð innanlands og nýtt mér þjónustuna Beint frá býli sem hefur farið mjög vaxandi síðustu ár. Þetta er eitt af því sem bændur leggja til aukins fjölbreytileika í íslensku samfélagi.

Grænmeti í Árnessýslu, silungur frá Útey við Laugarvatn, nautakjöt frá Hálsi í Kjós og sauðakjöt frá Stað í Reykhólahreppi er meðal þess sem ég hef keypt beint frá býli. Að auki ávexti, kæfur, sultur, rjómaís, egg, reyktan rauðmaga og ýmislegt smálegt víða um land. Og nú er hægt að komast á bændamarkað í Reykjavík, þótt það jafnist ekki á við heimsókn í sveitina.

En bændur gera meira. Svo miklu meira.

bóndi kornÞegar maður keyrir um sveitir landsins er fátt yndislegra en að sjá bleika akra og slegin tún, kýr á beit og hesta í haga. Og þegar bóndi keyrir traktorinn og rúllar heyinu upp í "sykurpúða" er hann að nýta eina af auðlindunum; það sem landið gefur. Víða eru skjólbelti og öflug trjárækt, sem verður myndarlegri með hverju árinu. Bændur gera fallegt landið enn fallegra.

Búskapur hefur breyst mikið á fáum áratugum. Menn eru ekki lengur bara með nokkrar kýr í túninu heima og fé á fjalli eins og forðum. Nýjungarnar eru margvíslegar, t.d. eru ekki margir áratugir síðan kjúklingur var nær óþekktur á borðum landsmanna. Menn höfðu efasemdir um gróðurhúsin þegar þau komu en nú er íslensk kornrækt orðin að veruleika. Bændur hafa í raun verið duglegir við nýsköpun af ýmsu tagi.

Ferðaþjónusta og orkubúskapur

ferðaþjónusta bændaBændur bjóða upp á fjölbreytta ferðaþjónustu; gistingu, veitingar, sumarhús, hestaferðir, jöklaferðir og margt fleira. Margir fóru útí ferðaþjónustu til að drýgja tekjurnar, núna er hún ómissandi þáttur í þjónustu við ferðamenn hringinn í kringum landið. Án framlags bænda væri útilokað að bjóða upp á þá fjölbreyttu kosti sem ferðalöngum standa til boða.

Svo er það orkubúskapurinn. Bændur virkja ár og læki og selja rafmagn inn á landsnetið. Aðrir bora eftir heitu vatni á jörðum sínum og selja orku til neytenda. Það er ekki lengur hægt að setja samansem merki á milli bænda og sauðkindarinnar. Það er löngu liðin tíð. Bændur í dag eru jafnan vel menntaðir í búfræðum og margir með fína menntun á háskólastigi, enda störf til sveita orðin mjög fjölbreytt og krefjandi.

Umtalsverð atvinnusköpun

Þau störf sem landbúnaðurinn skapar - fyrir utan bústörf - skipta þúsundum. Nokkur fyrirtæki vinna úr mjólk og framleiða osta, jógúrt og fleira. Enn fleiri eru í kjötvinnslu og þar eykst fjölbreytnin á hverju ári. Grillkjöt af öllum gerðum er gott dæmi. Allt skilar þetta margvíslegum tekjum í ríkissjóð auk þeirra gæða sem víða má sjá og hvergi eru færð til bókar. Ef landbúnaðurinn væri "fluttur inn í dósum" myndu meira en tíu þúsund Íslendingar missa vinnuna.

Bóndi er bústólpi

sauðfjársmölunÍ viðtengdri frétt er sagt frá ólgu meðal sauðfjárbænda vegna verðskrár sláturleyfishafa og nýlega var talað um að sekta bændur fyrir að selja mjólk umfram kvóta. Reglulega heyrum við svo frá fólki sem sýpur hveljur yfir styrkjum til íslensks landbúnaðar. Þó myndu afskrifaðar skuldir miðlungs útrásardólgs dekka styrki til landbúnaðarins í einhverja áratugi.

Kerfið er auðvitað ekki gallalaust, en það fylgir sjaldnast sögunni hvað við fáum fyrir peningana. Það er þó svo miklu meira er ódýr mjólk og kótelettur á grillið.

Í flestum/öllum vestrænum löndum er landbúnaður styrktur. Tveir stærstu styrkþegar Evrópusambandsins eru stórar sykurverksmiðjur á Ítalíu. Hér ganga greiðslur beint til bænda í samræmi við framleiðslu. Kerfin geta því verið margvísleg.

Hvetjum bændur til frekari dáða

Frekar en að þrengja að bændum ættu stjórnvöld að vinna að metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir fjölbreyttan íslenskan landbúnað í góðri samvinnu við bændur. Renna stoðum undir búskapinn, lækka orkuverð til gróðurhúsa, lækka verð á áburði og ýta undir frekari nýsköpun. Þá mætti styrkja bændur enn betur til uppgræðslu og skógræktar því enginn hugsar betur um sveitir landsins en þeir sem búa þar.

Allt þetta er líka stór þáttur í að halda landinu öllu í byggð, að halda landinu fallegu, að viðhalda öflugri þjónustu í hinum dreifðu byggðum og að byggja undir ferðaþjónustu til framtíðar. Á endanum græðum við öll.

 


mbl.is Ólga í sauðfjárbændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég gæti ekki verið meira sammála þér.  Annars langar mig að benda þér og lesendum á grænmetismarkaðinn í Hveragerði sem er við hliðina á Eden um helgar.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.9.2010 kl. 08:38

2 identicon

Alveg hjartanlega sammála þér!  Frábær pistill.

Inga Heiða (IP-tala skráð) 6.9.2010 kl. 08:43

3 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Það væri gaman að sjá bylgjandi kornakra um allt land- og hver veit nema við gætum farið að framleiða Visky eins og Scotar ?

  ef á að rústa landbúnað og gott mannlif í sveitum eigum við ekkert eftir nema álver og kannski flota af herþotum sem arga um loftið alla daga.

Takk fyrir þennan pistil- margir virðast hata bændur.

 ERLA MAGNA

Erla Magna Alexandersdóttir, 6.9.2010 kl. 09:40

4 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka ykkur innlitið og athugasemdirnar.

Bendi á pistil um brasilíska landabúnaðarundrið sem Baldur McQueen skrifar á Eyjubloggið. Þar segir hann frá hvernig ríkið hefur á löngum tíma lagt fjármuni í þróun og rannsóknir sem skila sér nú í umbótum í landbúnaði.

Einmitt eitthvað þessu líkt á ég við með "metnaðarfullri framtíðarsýn". Ekki pólitík þar sem hugsað er í fjögurra ára tímabílum. Eflaust er sitthvað unnið í rannsóknum og þróun hér á landi en alvöru framtíðarsýn og langtímamarkmið myndu tryggja markvissari vinnu og auka líkur á vænlegum árangri.

Haraldur Hansson, 6.9.2010 kl. 12:58

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér góðan pistil Haraldur.

Eftir að hafa búið í 25 ár í ESB í landbúnaðarlandinu Danmörku, þar sem matvæli eru dýrust í öllu ESB og miklu dýrari en á Íslandi - og þar sem um 25% bænda verða gjaldþrota á næstu 5 árum - og þar sem hver bóndi er svo skuldugur að hann skuldar að meðaltali tæplega 600 miljónir ISK (27 miljónir DKK), þá ætti það að vera sæmilega heilbrigðum manni ljóst að ESB drepur landbúnað og rekstur bænda. Þeir danskir bændur sem eru ekki enn fluttir til Austur-Evrópu munu ekki eiga neitt nema svarta framtíð í vændum í dauðadansi sínum við ESB í Danmörku.  

Sá gjaldeyrir sem bændur gera okkur leift að spara hefur á Íslandi farið í að byggja upp restina af hagkerfinu og þar með er talið heilbrigðiskerfi okkar. Þess vegna er landbúnaður okkar hinn ómissandi grunnatvinnuvegur þjóðarinnar algerlega dýrmætur okkur öllum. Íslenskur landbúnaður á mikla framtíð fyrir sér í sjálfstæðu fullvalda Íslandi. Gagni hinsvegar Ísland í ESB mun íslenskum landbúnaði verða útrýmt á methraða. 

Gunnar Rögnvaldsson, 6.9.2010 kl. 19:36

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Besta leiðin til að endurreisa stolt bænda er að þeir hætti að vera sníkjudýr á framfæri skattgreiðenda.

Theódór Norðkvist, 6.9.2010 kl. 19:54

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ertu að tala um bændur í Evrópusambandinu Theódór Norðkvist? 75% af tekjum bænda í Danmörku koma frá skattgreiðendum. Landbúnaðarrekstur þar gefur þeim ekki neitt í aðra hönd. Það er auðvitað þessa vegna sem þú svo skynsamlega ályktar að það að ganga ESB sé það sama og að fara í hundana. Rétt ályktað hjá þér.  

Gunnar Rögnvaldsson, 6.9.2010 kl. 20:31

8 Smámynd: Haraldur Hansson

Þakka innlitið og athugasemdirnar.

Gunnar, eru ekki bændur í öllum löndum ESB farnir að kvarta undan CAP? Það gengur á með mótmælum og verkföllum og nú eru bændur í A-Evrópu farnir að kvarta sáran líka.

Theódór, eigum við ekki að fara varlega í að tala um sníkjudýr? Við höfum tvö splunkuný dæmi um að íslenskir bændur eru settir undir valdboð og verðlagseftirlit. Það er ekki skynsama leiðin til að auka framleiðni og minnka þörf fyrir styrki. Að ganga í ESB væri enn vitlausara (þótt færslan fjalli ekki um Evrópusambandið).

Haraldur Hansson, 6.9.2010 kl. 23:59

9 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Haraldur, það var hressandi að lesa þennan óð til landbúnaðarins og íslenskra bænda. Svona hollvinir íslensk landbúnaðar eru ekki á hverju strái. Takk.

Jón Baldur Lorange, 7.9.2010 kl. 00:11

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Bæta má við hér að ég lýsi eftir sterkari og virkari byggðastefnu. Höfuðborgarsvæðið þarf greinilega á meiri samkeppni að halda. Við verðum að halda öllu landinu okkar í blómstrandi byggð því annars verður of dýrt fyrir svo of marga að búa alla sína æfi í skráargatinu að Íslandi; Reykjavík.

Hér er ein tillaga: launatengd gjöld ættu að lækka í takt við fjarlægðina frá höfuðborgarsvæðinu. Þetta er norska lausnin.

Gunnar Rögnvaldsson, 7.9.2010 kl. 00:34

11 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Með inngöngu í ESB opnast mun fleiri möguleikar á útflutningi íslenskra hágæða landbúnaðarafurða. Framtíðin er þess vegna björt hjá bændum.

Jón Halldór Guðmundsson, 7.9.2010 kl. 08:08

12 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég þakka athugasemdirnar.

Jón Baldur: Það var pólitísk ákvörðun víða um hinn vestræna heim að niðurgreiða framleiðslu á mat. Þannig hefur það verið áratugum saman. Að stilla bændum upp sem einhverjum afætum vegna þess er jafn rangt og að tala um dugmikla útgerðarmenn sem sægreifa og óvini almennings útaf kerfi sem þeir báðu aldrei um en var sett upp af illri nauðsyn.

Haraldur Hansson, 7.9.2010 kl. 08:34

13 Smámynd: Haraldur Hansson

Gunnar: Norska lausnin hljómar vel, var ekki eitthvað í þessa veru gert í Danmörku líka? Þá þyrfti að afstýra niðurfellingu sjómannaafsláttar áður en það er um seinan, því það er óbeinn landsbyggðarskattur. Líklega eflir ekkert landsbyggðina meira en bættar samgöngur, en vönduð samgöngumannvirki eru ávallt arðbærar framkvæmdir.

Jón Halldór: Þessu trúðu finnskir bændur, sem nú hefur fækkað um helming. Þessu trúðu austur-evrópskir bændur, sem nú kvarta sáran og flosna upp. Eiga nú íslenskir bændur að trúa þessu líka?

Haraldur Hansson, 7.9.2010 kl. 08:38

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Með inngöngu í ESB opnast mun fleiri möguleikar á útflutningi íslenskra hágæða landbúnaðarafurða. Framtíðin er þess vegna björt hjá bændum.

Með fullri virðingu fyrir vitsmunum minna kæru landsmanna, þá er þetta eitt af því heimskulegasta sem ég hef heyrt. 

1) Ef Ísland gengur í ESB þá erum við skyldugir að taka upp evru.

2) Eftir áratugi í ESB og læstu gengisfyrirkomulagi EMU's ERM II er landbúnaður Danmerkur orðinn fullkomlega ósamkeppnishæfur og allur á hausnum. Bændur lifa þar sultarlífi og yfir 60% af tekjum þeirra koma frá skattgreiðendum. 1/4 þeirra verður gjaldþrota á næstu 5 árum og þeir eru að drukkna í skuldum. 

2) Sláturhúsin og kjötiðnaður eru næstum allt farið og flutt til annnarra ESB-landa. Til A-Evrópu og til Þýskalands því þýskir starfsmenn hafa ekki fengið launahækkun í 12 ár samfleytt. Þeir eru notaðir sem þrælar.

3) 350.000 fjölskyldur ungs fólks í Þýskalandi sem m.a. vinna við slátrun og kjötiðnað þurfa aðstoð félasmálastofnunar þó svo að bæði séu í fullri atvinnu. Launin eru undir 50 DKK á tímann. Láglaunafólk í Danmörku er með 120 DKK á tímann. Svona er að hafa læst gegni og svona er að búa í Þýskalandi. Paradís ESB.

4) Danmörk er eitt besta landbúnaðarsvæði Evrópu. En samt er landbúnaður þar á hausnum.

5) Írland er á hausnum eftir 8 ár með evrumyntina. Þeir geta ekki keppt lengur. Þeir hafa nefnilega ekkert gengi og neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka ESB hafa sprengt efnahag þess lands í tætlur.

6) Grikkland er á hausnum eftir 8 ár með evrumyntina og 29 ár í ESB. Þeir geta ekki keppt lengur. Þeir hafa nefnilega ekkert gengi og neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka ESB hafa sprengt efnahag þess lands í tætlur.

7) Spánn er á hausnum eftir 10 ár með evrumyntina og áratugi í ESB. Þeir geta ekki keppt lengur. Þeir hafa nefnilega ekkert gengi og neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka ESB hafa sprengt efnahag þess lands í tætlur. 

8) Portúgal er á hausnum eftir 10 ár með evrumyntina og áratugi í ESB. Þeir geta ekki keppt lengur. Þeir hafa nefnilega ekkert gengi og neikvæðir raunstýrivextir seðlabanka ESB hafa sprengt efnahag þess lands í tætlur.  

Svona nákvæmlega myndi fara fyrir sjávarútvegi Ísland. En ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil veit ég með 100% vissu að Ísland myndi mjög hratt verðleggja sig út úr myntbandalaginu og reyndar heiminum öllum - og hætta að geta selt svo mikið sem einn sporð af fisk til útlanda sökum innri verðbólgu sem ekki væri lengur hægt að lagfæra í gegnum gengið. 

Hér er ekki um að ræða 77 sardínur í $28 dós á mann eða 2000 tonn á ári. Hér er um að ræða 1,3 milljón tonn á hverju ári. Þetta eru þeir fjármunir sem notaðir eru til að byggja restina af íslenska hagkerfinu með. Grunnur efnahagslegrar tilveru Íslendinga.

Eina leiðin til að nýta landhelgi og auðæfi sjávar Íslands væri þá að láta útlendinga um að veiða fiskinn okkar. Þeir einir gætu keppt á mörkuðunum með því að borga lág laun, lítinn kostnað, miklu lægri skatta og með því að sigla um í ryðhrúgudöllum. Öðru nafni: þrælakistum. Þetta yrði ekki skínandi falleg útgerð, heldur þrælakista.

Þá myndu Íslendingar þurfa að flytja inn fisk sér til matar. Einungis vegna ógæfulegrar útópíu vissra kjána stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka sem myndi banna Íslendingum að fella gengið, því þá væri ekki lengur til neitt gengi sem hægt væri að fella. Það væri nefnilega horfið. Horfið um alla eilífð til Þýskalands og kæmi aldrei þaðan aftur.

Það er því virkilega mikið í húfi hér fyrir okkar góða land og okkur þjóðina. Mjög mikið í húfi. Sjálf tilvera þjóðarinnar er hér í húfi. Var það þetta sem árið 1944 snérist um? Snérist það um afsal á framtíð fyrir Ísland? Afsal á nýfengnu fullveldi Íslands? Það er ekki svo langt síðan 1944 var dagurinn í dag. Margir muna þann dag mjög vel ennþá.   

Og svo halda menn að íslenskur landbúnaður eigi að geta keppt innan þessarar vítisvélar efnahagsmála Evrópusambandsins. Hahah hahahah hahahah hahah hha hhahah ha hahha hhah hhaha hahh a haha hhaha hahah hhah hah. Hahah hahahah hahahah hahah hha hhahah ha hahha hhah hhaha hahh a haha hhaha hahah hhah hah. Hahah hahahah hahahah hahah hha hhahah ha hahha hhah hhaha hahh a haha hhaha hahah hhah hah

Hugleiðing um raun-stýrivexti 

Gunnar Rögnvaldsson, 7.9.2010 kl. 15:25

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Norska lausnin hljómar vel, var ekki eitthvað í þessa veru gert í Danmörku líka?

Nei Haraldur það er engin byggðastefna í Danmörku. Menn eru því nú að vakna upp við vondan draum í því landi. 60% af landsvæði Danmerkur er á leið í mikla eyði og auðn.

"Undir-Danmörk" eins og þetta er kallað í daglegu tali, er svæðið frá Norður-Jótlandi, niður allt Vestur Jótland, allt Suður-Jótland (landamærasvæðið) og allur suður hluti Sjálands og suðurhluti Fjónar. Þetta landsvæði er að breytast í útkjálkasvæði sem er ólýsanlega ólukkuleg þróun fyrir landið.

Skólar eru lagðir niður, sjúkrahúsum er lokað, barnaheimili hverfa, lögregla hverfur og símsvari kemur í staðinn, pósthús þurfa nú um daga 40-50.000 manns til að verða starfrækt áfram, landlægt er hátt atvinnuleysi og fólksflótti er mikill. Eymd og volæði breiðist yfir stóran hluta þessa litla lands. Landbúnaður er að hverfa og menningarlegt hlutverk hans visnar í öllu landinu. Kjarnar flosna upp og ekkert nema malbikið bíður með sínu himinháa fasteignaverði og baráttunni um vinnuna sem er of lítil og lifikostnaður himinnhár. Sé eign þin bara 50 km of sunnarlega á Sjálandi er hún lítils virði og selst ekki. Þá tilheyrir þú Undir-Danmörku og ert OUT.

Gunnar Rögnvaldsson, 7.9.2010 kl. 16:08

16 identicon

Það að kenna Evrunni um efnahagsvandræði grikkja, spánverja og annarra er álíka vitlaust og að kenna krónunni um hrunið hér eða dollaranum um efnahagsvanda bandaríkjamanna. Það er (vitlaus) hagstjórn stjórnvalda í öllum þessum löndum sem setur þau í vanda, en ekki gjaldmiðilinn, ekki síst eyðsla um efni fram. Hvað skyldu íslendingar hafa grætt mikið á "aðlögunarhæfni" krónunnar (les gengisfellingum) gegnum árin?! Og ef hagstjórnin innan EB er vitlaus þá er okkar síst betri, það er bitamunur en ekki fjár. Og hafi þeir sem vilja halda okkur utan við EB komið út fyrir landsteinana þá er það neðan þeirra virðingar að halda því fram að innganga í EB sé ótækt afsal á fullveldinu og að landið þurrkist út. Ég hef ekki séð að danir séu hættir að vera danir, eða portúgalir hættir að vera portúgalir. Stærsti munurinn á þeim og okkur virðist mér vera sá að þeir hafa einhver (eðlilega mismikil) áhrif á löggjöf og regluverk og velja síðan úr hverju þeir vilja fara eftir en gleyma þegjandi og hljóðalaust hinu. Við höfum engin áhrif, en höfum verið duglegust - ásamt Noregi - við að kokgleypa allar reglugerðir. Innganga í EB yrði að mínu mati líklega minni aðlögun en undirritun samningsins um EES og sú "aðlögun" sem hann hefur þegar leitt til. Ég held líka með bændum - og dáist að þeim, en það þýðir ekki að ég styðji ráðherra sem vill gera þá sem vilja spreyta sig á eigin vegum, t.d. fólkið sem framleiðir ís og ost á Erpsstöðum - þeim sem standa að Mjólku, að glæpamönnum sem á að refsa með sektum fyrir að vilja nota eigin mjólk til að skapa verðmæti heima, í stað þess að láta MS sjá um alla ísgerð í landinu, eða a.m.k. kaupa mjólkina til baka frá einokunarsamsölunni með tilheyrandi aukakostnaði. Beint frá býli er ekki fundið upp í bændahöllinni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur, þvert á móti, þetta kemur frá framtakssömum bændum, þrátt fyrir skrifræðið og milliliðina. Í nafni hagræðingar hefur verið komið á nánast algerri einokun í kjöt og mjólkurframleiðslu/vinnslu og t.d. lögð niður sláturhús víða um land - nú þurfa vestfirðingar að keyra á Sauðárkrók til að slátra, sem er í besta falli ill meðferð á skepnunum, að maður tali ekki um bændurna. Bráðum fer meira fé til afurðastöðva og flutningabílafyrirtækja en til bænda. Og norksa "lausnin": Hvergi í heiminum er jafn dýrar landbúnaðarafurðir og í einokuninni í Noregi. Og ekki eru bændur þar hálaunastétt, þvert á móti, flestir þurfa aukavinnu til að lifa af, rétt eins og hér. Og þrátt fyrir styrki og  lægri gjöld á landsbyggðinni fækkar á hverju einasta ári bændum þar, sem og öðrum íbúum dreifðra byggða. Það hverfur mikið af styrkjunum, rétt eins og í EB, í vasa milliliða - og í vasa risastórra einokunarbattería sem síst ættu að þurfa styrkina. Norska lausnin er ekki lausn heldur rándýr deyfing og veruleikaflótti. Það þarf hvorki styrki eða kvótakerfi til að valda fólksflótta úr dreifðum byggðum, fólk verður sífellt kröfuharðara til lífsgæða, vill menningu, afþreyingu og þjónustu sem ekki er nógu stór markaður fyrir í dreifbýli til að það beri sig. Það er stærsta ástæða fólksflutninga úr dreifbýli í þettbýli viða um heim. Og ég vil geta keypt Parmesan og Roquefort osta - í viðbót við það sem einkasala MS býður mér (sem er í sjálfu sér aðdáunarvert í fámenninu hér) án þess að Jón Bjarnason hafi sett á það 5000% toll - til að "verja matvælaöryggi Íslands" - þvílíkt bull í manninum!

Kristján Þ Davíðsson (IP-tala skráð) 8.9.2010 kl. 14:06

17 Smámynd: Haraldur Hansson

Heill og sæll Kristján.

Hefði viljað svara þessu fyrr en var fjarverandi. Betra er seint en aldrei segja þeir, svo hér koma smá viðbrögð.

Þú misskilur þetta með norsku lausnina. Þarna var talað um ívilnun til fyrirtækja í almennum atvinnurekstri en ekki landbúnað. Að lægri gjöld á fyrirtæki sem eru langt frá höfuðborginni sé mótvægi við hærri kostnað við aðföng og flutninga og renni stoðum undir reksturinn.

Auðvitað verða Danir áfram Danir. En eru þeir fullvalda þjóð? Ef skýringin á fullveldi er að geta áfram talað dönsku, keppt í fótbolta undir eigin fána og fengið sér öl og vínarbrauð, þá eru þeir það. En þjóð sem ekki hefur rétt til að setja sér lög í flestum málaflokkum og hefur ekki æðsta úrskurðarvald í ágreiningsmálum heldur, getur ekki talist fullvalda. Þótt Danir hafi tryggt sér frelsi frá evrunni hafa þeir ekki nýtt það heldur afsalað sér stjórn peningamála að auki.

Þú segir að við þurfum að "kokgleypa allar reglugerðir" en það er beinlínis rangt. Ísland getur komið að málum á vettvangi EFTA áður en þau verða að lögum. Síðan tekur við "þriggja þrepa afgreiðslan" hjá sameiginlegu EES nefndinni, sem er samráðsvettvangur ESB og EFTA. Þegar mál eru svo fullbúin þarf Alþingi að setja lögin. Innan ESB verða reglugerðir sjálfkrafa að lögum í aðildarríkjunum um leið og þær eru samþykktar í Brussel.

Ég efa það stórlega að "rödd við borðið" færi okkur tækifæri til meiri áhrifa. Danski þingmaðurinn Jens Peter-Bonde sat á Evrópuþinginu í Brussel í 29 ár fyrir Dani og sagðist í heimsókn hér á landi aldrei hafa upplifað það að geta haft áhrif á framgang nokkurs máls. Fyrir utan það að 11 nýir þættir færast undir fjarlægt vald við inngöngu, sem ekki heyra undir EES. Það má gagnrýna stjórnvöld fyrir að nýta ekki þau verkfæri sem eru til staðar, en það er allt annað mál.

Svo vona ég að þú sért ekki að misskilja orð mín þannig að ég sé að verja gerðir landbúnaðarráðherra. Þvert á móti er ég einmitt á þeirri skoðun sem þú lýsir í umfjöllun um ísinn á Erpsstöðum, ofurtollana og Parmesan ostinn.

Haraldur Hansson, 11.9.2010 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband