19.7.2011 | 21:40
Hræsni að flytja ekki inn lambakjöt?
Í kvöld sá ég fréttir á Stöð 2, sem ég geri jafnan ekki. Þar var leikið tilbrigði við Gylfa-stef um árásir á bændur, sem ýmist eru gerðar af illgirni eða asnaskap. Í þetta sinn var þó nýr flötur á stóra lambakjötsmálinu.
Fréttamaður spurði landbúnaðarráðherra - ekki einu sinni, heldur tvisvar - hvort það væri ekki tvískinnungur og hræsni að flytja út lambakjöt á sama tíma og innflutningur á sömu vöru er ekki heimilaður. Brusselskur undirtónn leyndi sér ekki.
Ef ég mætti gefa ráðherranum ráð væri það þetta:
Bjóða nú þegar út þann kvóta sem heimild er fyrir vegna innflutnings á lambakjöti. Innflutningur verði háður sömu einföldu skilyrðunum og gilda í ESB ríkinu Möltu, sem náði stórkostlegum aðildarsamningum eins og allir vita.
Malta hafði áralanga reynslu af því að flytja inn lambakjöt frá Nýja Sjálandi, stærsta útflytjanda lambakjöts í heiminum. Það eina sem breyttist við inngöngu var að þeim var bannað að flytja inn kjöt frá löndum utan Evrópuríkisins. Nei, ekki tollvernd heldur bann!
Það er örugglega engin hræsni, en núna mega Maltverjar eingöngu flytja inn dýrari innanlandsframleiðslu", þ.e. frá framleiðendum innan Evrópuríkisins.
Skilyrði landbúnaðarráðherra Íslands - að brusselskri fyrirmynd - væru að aðeins mætti flytja inn lambakjöt frá innlendum framleiðendum. Fréttamaðurinn og flokksfélagar hans myndu tæplega flokka það sem hræsni.
19.7.2011 | 00:27
Banna skal bændum að hafa það gott
Íslenskir sauðfjárbændur, sem eru ærlegir vinnandi karlar og konur, framleiða svo frábæra vöru að hún rokselst, ekki aðeins hér heima heldur á erlendum mörkuðum líka.
Flutt er út gæðakjöt og fyrir það fæst gott verð. Þessi gjaldeyrisskapandi útflutningur gengur svo vel að jafnvel gæti skort lambakjöti hér heima.
Sauðfjárbændur, sem hafa tekið á sig verulega kjaraskerðingu síðustu misserin, gerðu eðlilega kröfu um að fá að njóta góðs af. Það er jú þeirra góða vinna sem er grunnurinn að velgengninni.
Eins og oft áður, þegar bændur fara fram á eðlilegar kjarabætur, rignir yfir þá skömmum. Það er látið eins og þeir séu með frekju og yfirgangi að skaða hag almennings! Hækkunin til þeirra hefur samt ekki mælanleg áhrif á framfærslu heimilanna.
Upphafsmaður árásanna er Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sem hvatti neytendur til að sniðganga íslenskt lambakjöt. Hvað ætlar Gylfi að gera ef flugmenn fá launahækkun? Hvetja landsmenn til að hætta að fljúga?
![]() |
Lyktar af pólitík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)