17.7.2011 | 20:21
Þorsteinn Pálsson er vanhæfur og á að víkja
Þorsteinn Pálsson á sæti í samninganefnd Íslands í viðræðunum við Evrópusambandið.
Þar starfar hann sem embættismaður en ekki stjórnmálamaður. Sem slíkur hefur hann eitt og aðeins eitt hlutverk. Að vinna samkvæmt embættisbréfi að þeim markmiðum sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis, frá 9. júlí 2009. Ekkert annað.
Hann þarf að sýna fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Til að viðhalda trúverðugleika sínum sem embættismaður á hann ekki að blanda sér í pólitíska umræðu um málið, sem er stórt og umdeilt meðal landsmanna.
Það hefur Þorsteinn Pálsson samt gert, því miður. Hann hefur því sjálfur skapað sér vanhæfi. Í nýrri grein í Fréttablaðinu fer hann langt út fyrir þau mörk sem embættismaður í hans stöðu þarf að setja sér, ekki síst í athugasemdum í garð bænda.
Þetta er því miður ekki eina dæmið. Þorsteinn hefur ítrekað skrifað fyrir ESB aðild í föstum pistlum sínum í Fréttablaðinu. Um þá sem eru mótfallnir aðild Íslands að Sambandinu notar hann iðulega uppnefnið Evrópuandstæðingar" eins og þar fari hópur fólks sem leggur fæð á heila heimsálfu.
Í greinum hans frá 28. maí og frá 2. júlí má sjá dæmi um hvernig Þorsteinn Pálsson fer út fyrir ramma skynseminnar í aðgreindum málum. Í þeirri seinni vefst það ekki fyrir honum að gera meintum "Evrópuandstæðingum" upp skoðanir.
Ekki spurning um mannréttindi
Samkvæmt 34. grein stjórnarskrárinnar er hæstaréttardómurum, einum manna, bannað að bjóða sig fram til Alþingis. Ekki til að svipta þá mannréttindum, heldur er þetta ákvörðun byggð á heilbrigðri skynsemi til að forðast óeðlilega hagsmunaárekstra. Stjórnmál og embættisstörf fara ekki saman í þeirra tilfelli. Þetta vita dómarar þegar þær sækjast eftir starfinu.
Á sama hátt þarf embættismaður í stöðu Þorsteins Pálssonar að halda sig til hlés í pólitískri umræðu um aðildarumsóknina. Það hefur ekkert með skoðanafrelsi eða tjáningarfrelsi hans að gera. Aðeins heilbrigða skynsemi. Þetta mátti Þorsteinn Pálsson vita þegar hann tók sæti í samninganefndinni.
Hvernig eiga bændur að geta treysti því að embættismaður, sem sýnir af sér slíka hegðan, sé fær um að vinna að þeim markmiðum sem Alþingi hefur sett og varða landbúnað?
Þorsteinn Pálsson hefur - eða hafði - um tvennt að velja. Annars vegar að halda sig frá hinni hápólitísku umræðu um aðildarumsóknina þar til starfi nefndarinnar er lokið. Hins vegar að afþakka sæti í nefndinni (eða segja sig úr henni) og geta þá tjáð sig óhindrað.
Í ljósi þeirra afglapa sem hann hefur þegar gert sig sekan um er í raun ekki um annað að velja fyrir Þorstein Pálsson en að víkja sæti. Ef Nýja Ísland á einhvern tímann að verða að veruleika þarf að gera alvöru kröfur um vandaða stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð. Þar með talið að menn uppfylli kröfur um hæfi og sýni af sér heilbrigða skynsemi á meðan þeir sinna trúnaðarstörfum sem embættismenn. Þorsteinn Pálsson gerir það ekki.
Því miður tel ég hverfandi líkur á að Þorsteinn Pálsson geri hið eina rétta og segi sig úr nefndinni. Það eru enn minni líkur á að honum verði vikið úr henni af utanríkisráðherra, sem sjálfur á sorglega sjaldan samleið með sannleikanum þegar Evrópusambandið er annars vegar.
Pólitískur ákafi hefur borið skynsemina ofurliði, bæði ráðherrans og Þorsteins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2011 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)