11.7.2011 | 08:29
McDonalds aðferðin - börn og heilaþvottur
Börn eru mjög móttækileg fyrir skilaboðum og um leið getur barnssálin verið viðkvæm og varnarlaus. Þess vegna er víða óheimilt að birta auglýsingar í sjónvarpi, sem beinast að börnum og/eða auglýsa í barnatímum. Meðal annars gilda reglur hér á landi sem takmarka slíkar auglýsingar.
Alþjóðlega hamborgarafabrikkan McDonalds leggur verulega fjármuni í markaðsmál. Það sem hefur lukkast hvað best er að bjóða upp á barnabox sem innihalda hæfilegan skyndibita fyrir börn og gefa þeim leikföng í kaupbæti.
Hugmyndin er ekki aðeins að fá börnin til að draga foreldra sína á staðinn, heldur fyrst og fremst að "ala upp viðskiptavini framtíðarinnar". Þeir sem venjast því sem börn að fá smá gjafir frá McDonalds eru líklegri til að verða viðskiptavinir í framtíðinni.
McDonalds gætir þess að fara ekki yfir velsæmismörk og verður ekki sakað um að stunda heilaþvott.
En hvenær fara auglýsingar yfir strikið og verða áróður? Og hvenær er áróður kominn á það stig að teljast heilaþvottur? Þarna er stundum erfitt að greina á milli.
Áróður um ágæti leiðtoganna í Kreml eða Kína á tímum Maós (mynd) hafa menn talið falla undir heilaþvott. Svo ekki sé talað um N-Kóreu nútímans.
Því miður eru til dæmi sem eru nær okkur í tíma og rúmi þar sem gengið er fram á ystu brún í þessum efnum. Jafnvel farið yfir strikið.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins notar árlega um 380 milljarða króna í auglýsingar/áróður. Drjúgum hluta þess fjár er varið í verkefni þar sem höfðað er til barna. Hugsunin er sú sama og hjá McDonalds; þau sem venjast því sem börn að fá smá "gjafir" frá ESB eru líklegri til að verða sáttir og þægir þegnar í framtíðinni.
Hér eru fáein dæmi og sum nokkuð skuggaleg. Undirstrikuðu orðin eru tenglar, fyrir þá lesendur sem vilja skoða sýnishorn.
- Stórar fjárhæðir settar í myndabækur og netleiki, sem eiga að auka "evrópska samkennd og virðingu fyrir Sambandinu".
- Leikskólabörn fá ESB litabækur þar sem skilaboð eins og "Evrópa - landið mitt" eru sett í myndirnar.
- Ef Sambandið niðurgeiðir drykki fyrir skólabörn ber skólum að hafa merki þess á áberandi stað í mötuneyti eða fatahengi.
- Í net-bókaverslun Sambandsins er barnahorn með ESB sögum fyrir börn.
- Vefsíðan Europa Go er hönnuð fyrir markhópinn 10-14 ára og á að efla Evrópuvitund barnanna.
- Í samvinnu við Barnbury er framleitt sérstakt ESB súkkulaði.
- Grunnskólum er uppálagt að helga Evrópudaginn, 9. maí, ágæti sambandsins og uppfræða börnin um hvað ESB gerir fyrir þau.
- Vefsíðan Euro Kid's corner er til að fræða börnin um evruna.
- Ætlast er til að skólar hafi Evrópuviku, þar sem þemað er ágæti sambandsins. Í löndum með eigin mynt á að hafa skólasjoppu þar sem eingöngu má greiða með evrum.
Hugsanlega er of djúpt í árinni tekið að saka Sambandið um heilaþvott, en þetta eru óneitanlega tilburðir í þá átt. Það er eitthvað mikið bogið við "samstarf sjálfstæðra ríkja" þegar viðhafa þarf skoðanamótandi áróður gagnvart börnum og ungmennum til að sannfæra þegnana um ágæti þess.
Guli liturinn í tólf-stjörnu-fánanum er jafn varasamur og gula litarefnið sem notað er í frostpinna og margir vilja banna. Það er full ástæða til að setja "innihaldslýsingu" á Evrópusambandið með tilheyrandi viðvörunum.
Enginn flokkur á Íslandi myndi þora að hafa digran "Kynningarsjóð ríkisstjórnarinnar" á stefnuskrá sinni. Sjóð sem stjórnin mætti nota til að fjármagna áróður um eigið ágæti. Eins og teiknimyndasögur um hvað börnin séu lánsöm að njóta visku og leiðsagnar landsfeðranna, náðar þeirra og umhyggju.
En í Brussel, höfuðborg pólitískrar firringar í heiminum, er það daglegt brauð. Á því er eitthvað ógeðfellt yfirbragð.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)