4.10.2011 | 17:38
Vinsæll lýðskrumari
Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður, ritar kröftugan pistil á Pressuna í dag. Þar setur hann m.a. fram gagnrýni á stjórnlagaráð. Að því marki sem ég hef sökkt mér niður í texta stjórnlagaráðs get ég tekið undir þá gagnrýni. Tíunda það ekki frekar hér, kannski síðar.
Það er annar kafli í grein hans sem mér finnst magnaður.
Það er ekkert að því að fólk taki sig saman og stofni nýja stjórnmálaflokka. Það er hins vegar nauðsynlegt að það fólk deili svipaðri pólitískri hugmyndafræði og lífsýn.Stofnun nýrra flokka kringum vinsæla frasa eins og lýðræði, frjálslyndi, jafnrétti, siðferði og umhverfisvernd er á sandi byggt og hefur aldrei reynst vel. Slíkir flokkar splundrast gjarnan á fyrsta þingi eftir kosningar.
Svo þegar betur var að gáð reyndist þetta ágæta fólk hvorki vera lýðræðissinnaðra, frjálslyndara, jafnréttissinnaðra, siðlegra né umhverfisvænna en aðrir. En það eina sem það átti kannski sameiginlegt var lýðskrum og tækifærismennska.
Nú veit ég ekki hvort Brynjar er að beina þessum orðum sínum að einhverjum sérstökum, en nýtt og nafnlaust afl kom strax upp í huga mér við lesturinn. Þingmanni þess gekk vel að hitta kjósendur í ræðu í gær, einmitt með frösum. "Það er nefnilega ekki það sama að vera vinsæll lýðskrumari og standa sig vel í að gæta hagsmuna lands og þjóðar" eru lokaorðin í pistli Brynjars.
Mæli eindregið með að menn lesi pistil lögmannsins. Það sem hann segir um stjórnlagaráð er áhugavert.