Harry Potter bjargar ekki Íslandi

harry_potterÞað er hægt að spara heimilum stórfé með því að taka upp evru, sagði utanríkisráðherra í DV-grein nýlega og vísaði í útreikninga kaupfélagsstjóra úr Borgarfirði. Hann boðaði töfralausn þar sem vextir lækka, útgjöld minnka, allir græða og - hókus pókus ... það kostar ekkert; enginn tapar.

En efnahagsbati og stöðugleiki er ekki eitthvað sem kemur í gjafaumbúðum frá Brussel. Það er sök sér þótt kaupfélagsstjóri trúi á Harry Potter lausnir en ekki boðlegt að ráðherra prediki þær á prenti. Þær virka nefnilega ekki í alvörunni.

Í sunnudagspistli á Telegraph.co.uk fjallar Evans-Pritchard um fjárhagsvanda Portúgals og Írlands, einnig AGS, evruna og myntbandalagið. Meðal annars er vitnað í Simon Johnson, fyrrum yfirhagfræðing AGS, sem utanríkisráðherra ætti frekar að veita athygli en kaupfélagsstjóranum með reiknistokkinn, sem þó er eflaust drengur góður.


portugalPortúgal

Á Íslandi tók það fégráðuga glæpamenn nokkur ár að setja hagkerfið á hliðina með því að ræna bankana innanfrá. Í Portúgal þurfti enga bankaræningja, það tók aðeins áratug að setja landið á hausinn í evrulandi. Fyrri hluti greinarinnar í Telegraph er um hrikalegan vanda Portúgals.

Fyrir hálfum örðum áratug voru erlendar skuldir landsins engar, þ.e. nettóstaðan var í plús. Svo kom evran. Glaðir Portúgalar "kíktu í pakkann" og vextir lækkuðu mikið. En nú vita þeir að vaxtalækkun fæst ekki frítt, skuldir ríkisins eru orðnar 109% af landsframleiðslu.

The brutal truth is that Portugal lost competitiveness on a grand scale on joining EMU and has never been able to get it back.

Þetta eru einmitt vondu fréttirnar fyrir Portúgal. Án eigin gjaldmiðils er torfundin leið út úr vandanum, hvað sem Össur og kaupfélagsstjórinn segja. Harry Potter lausnir virka nefnilega ekki í alvörunni.


irelandÍrland

Þeir sem aðhyllast upptöku evrunnar á Íslandi hafa margoft bent á Írland sem "sönnun" þess að hér hefði allt farið betur ef við værum í ESB og með evruna. Össur utanríkisráðherra er einn af þeim.

Nú heyrast þessar raddir ekki lengur (nema frá stöku krata), enda sannleikurinn hægt og bítandi að koma í ljós. Vandi Íra er enn að aukast og hann vex hratt. Skuldir blása út en greiðslugetan minnkar. Rétt eins og í Portúgal þá er evran sem myllusteinn um háls Íra.


En hvað um Ísland?

Fyrir meira en tveimur árum lýsti forseti Tékklands evrunni sem "hagfræðitilraun sem mistókst". Í lok greinar sinnar segir Evans-Pritchard að með evrunni hafi evrópska myntbandalagið  hugsanlega "skapað ófreskju". Á Íslandi er þessi sama evra boðuð sem allra meina bót.

Það er ábyrgðarhluti þegar ráðherra boðar töfralausnir sem eru ekki til. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir bætta hagstjórn, vandaða stjórnsýslu og fagleg vinnubrögð. Harry Potter bjargar ekki Íslandi. Ef Össur trúir á Potter, evruna og jafnvel jólasveininn líka, ætti hann að nýta hæfileika sína á öðrum sviðum en í pólitík. Við höfum ekki efni á annarri hagfræðitilraun sem er dæmd til að mistakast.

 


Bloggfærslur 21. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband