11.9.2010 | 12:36
Íslenska krónan árið 1922
Reglulega er lækkun á verðgildi íslensku krónunnar gagnvart þeirri dönsku notuð sem rök fyrir því að nú þurfi að leggja hana af og taka upp "sterka mynt" í staðinn, evruna. En í þá umfjöllun vantar ávallt það sem mestu máli skiptir. Þess í stað er hamrað á því að frá því að leiðir gjaldmiðlanna skildi árið 1922 hafi verðgildi dönsku krónunnar tvöþúsundfaldast gagnvart þeirri íslensku.
ÁRIÐ 1922 voru Íslendingar ein fámennasta og fátækasta þjóð Evrópu. Fáeinum áratugum síðar var þjóðin orðin ein sú ríkasta. Risastökk frá örbyrgð til allsnægta, sem hefði verið útilokað með ónýta mynt.
ÁRIÐ 1922 var höfuðstaður Íslands fátæklegur kaupstaður í Kvosinni en Kaupmannahöfn var borg með 6-sinnum fleiri íbúa en Ísland.
ÁRIÐ 1922 lágu þjóðvegir um alla Danmörku, dönsku járnbrautirnar höfðu þá gengið í 78 ár og Kastrup flugvöllur var í smíðum; einn fyrsti alþjóðaflugvöllurinn fyrir farþegaflug í heiminum.
ÁRIÐ 1922 stóð vegakerfið á Íslandi saman af nokkur malarvegum og troðningum. Hér var ekkert flugfélag og enginn Íslendingur með réttindi til atvinnuflugs.
ÁRIÐ 1922 var háskólinn í Köben meira en fjögurra alda gamall en á Íslandi var háskóli enn aðeins draumur. Húsakostur danskra var prýðilegur, en á Íslandi var hann mun lakari og sumir bjuggu enn í torfbæjum. Og þannig mætti áfram telja.
EN ... ÁRIÐ 2010 búa Íslendingar við áþekk kjör og Danir í nútímalegu samfélagi með öllum þægindum 21. aldarinnar. Framfarirnar á Íslandi eru meiriháttar. Kreppan setur tímabundið strik í reikninginn, en afrekið er staðreynd.
Á 88 árum hefur danska krónan tvöþúsundfaldast í verði gagnvart krónunni okkar, en framfarir og uppbygging eru a.m.k. hundrað sinnum meiri hér en í Danmörku á sama tíma.
Krónan var látin fylgja pundinu í fjórtán ár með slæmum árangri. Ef íslenska krónan hefði fylgt þeirri dönsku alla tíð hefði ekki orðið neitt risastökk en við ættum tvöþúsund sinnum sterkari krónu.
Vill einhver skipta?