Hlutfallslega stöðugt klúður

Fiskveiðistjórnun ESB er óhagkvæmt, óarðbært og illa útfært klúður sem skilið hefur eftir sig sviðna jörð, og embættismenn þurfa að axla ábyrgð. Þetta sagði fulltrúi eins kommissaranna í síðustu framkvæmdastjórn ESB. Í fyrravor kom svo út Grænbók um kerfið þar sem boðuð er endurskoðun á því, enn eina ferðina. Það hefur verið í endurskoðun í á annan áratug, en breytist aldrei neitt.

Í dag ritaði Jón Steindór Valdimarsson grein í Fréttablaðið sem er áhugaverð. Hann gerir Grænbókina og hið meingallaða kerfi að umtalsefni. Hann bendir réttilega á að 27 ríki "komi að borðinu" sem kunni að skýra erfiðleikana við endurskoðun þess þótt öllum sé ljós að kerfið sé eitt allsherjar klúður.

Í Grænbókinni er m.a. velt upp þeirri hugmynd að leggja regluna um hlutfallslegan stöðugleika af, en samkvæmt stefnuriti Samfylkingarinnar er sú regla hinn óbrigðuli öryggisventill sem íslenska þjóðin getur reitt sig á við inngöngu í Evrópusambandið (sjá hér, bls. 67).

Helstu gallar reglunnar eru taldir upp í Grænbók ESB:

  • Hún hefur leitt til kvótaskipta milli aðildarríkja eða útflöggunar útgerða.
  • Markmið um stjórnun veiðigetu hefur gert heildarmyndina enn óskýrari.
  • Verulegt misvægi er á milli úthlutaðs kvóta, raunverulegrar þarfar og nýtingar flotans.
  • Reglan tryggir ekki lengur að veiðiréttur haldist hjá viðkomandi veiðisamfélagi.
  • Hún dregur úr möguleikum sjávarútvegsins til að nýta eigin getu og taka upp nýjar aðferðir og tækni við veiðar.
  • Reglan veldur óeðlilegum þrýstingi á aukningu heildarkvóta.
  • Hún veldur brottkasti langt umfram það sem ásættanlegt getur talist.
  • Reglan er alvarlega gölluð og nær ekki fram markmiðum sínum.

Allt þetta telur Jón Steindór upp í grein sinni. Síðan greinir hann frá samantekt sem framkvæmdastjórn ESB gaf út í apríl í vor, í kjölfar viðbragða við Grænbókinni. Niðurstaðan er - ótrúlegt en satt - að mikill meirihluti styður að halda reglunni um hlutfallslegan stöðugleika og telur hana hornstein sjávarútvegsstefnu ESB. Bingó! Hið meingallaða klúður lifir áfram.

Þessu fagnar Jón Steindór í niðurlagsorðum, undir fyrirsögninni Reglan blívur. Eftir að hafa skrifað meira en 80 dálksentímetra lýsingu á hversu gallað og misheppnað kerfið er, endar hann greinina á stuttri málsgrein þar sem hann telur sér trú um að í þetta sinn muni samt eitthvað lagast og klikkir út með setningunni "Það er þróun sem ætti að vera Íslendingum að skapi."

Það eina sem ég get séð að skýri niðurstöðu greinarinnar og hina ótrúlegu kúvendingu í síðustu tveimur setningunum er að höfundurinn er í samtökunum Sterkara Ísland, sem aðhyllist aðild Íslands að ESB. Þetta hlýtur að flokkast undir ofurtrú á málstaðinn eða einhvers konar blindu. En greinin er fín, allt fram að síðustu málsgrein.

 


Bloggfærslur 4. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband