17.8.2010 | 22:03
Vaxa "knérunnar" í ESB?
Í grein í Fréttablaðinu í dag segist greinarhöfundur ekki ætla "að höggva í sömu knérunna". Þessi klúðurslega afbökun á þekktu orðasambandi segir mér að höfundur viti ekki hvað knérunnur er, en hann heldur sig vita það. Þess vegna finnst honum ekkert að því að birta svona vitleysu á prenti, undir fullu nafni og mynd að auki.
En ég ætla ekki að skrifa mola um málfar, heldur innihald greinarinnar, en þar er m.a. umfjöllun í sama "gæðaflokki" um ESB og auðlindirnar.
Höfundur greinarinnar er Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, sem hvatt hefur til "málaefnalegrar umræðu um Evrópusambandið". Maður skyldi ætla að formaðurinn þekkti nokkuð til reglna ESB.
Í grein sinni segir formaðurinn meðal annars:
Hefur Evrópusambandið sölsað undir sig auðlindir Pólverja, til dæmis skógana eða kolanámurnar? Svarið er nei, enda hefur Evrópusambandið engan rétt til þess. Það sem ég hef aldrei skilið eru þau rök nei-sinna að Evrópusambandið ætli sér að sölsa undir sig auðlindir Íslands, þegar ljóst er að það hefur aldrei gert það í öðrum aðildarlöndum.
ESB stjórnar því ekki hvernig þjóðir nýta námur og nytjaskóga, en er hins vegar með sameiginlega sjávarútvegsstefnu sem öll aðildarríki verða að falla undir. ESB stjórnar eingöngu nýtingu á auðlindum sjávar (og að einverju örlitlu leyti nýtingu beitilanda), en hefur ekki afskipti af öðrum auðlindum. Að bera námur og nytjaskóga saman við fiskveiðar er því algerlega út í hött. Eins og að bera saman epli og skrúfjárn.
Hvernig má það vera að formaður Evrópusamtakanna birti svona vitleysu á prenti, sem innlegg í ESB umræðuna? Mér detta tvær skýringar í hug.
1) Að höfundur skrifi gegn betri vitund í þeim tilgangi að draga upp glansmynd af ESB. Svona skrif gera ekki annað en að leggja stein í götu málefnalegrar umræðu um Evrópusambandið.
2) Að höfundur þekki í raun ekki sérstöðu sjávarútvegs í auðlindamálum ESB, en haldi sig gera það. Þess vegna finnist honum ekkert að því að birta svona vitleysu á prenti, undir fullu nafni og mynd að auki.
Ég satt að segja veit ekki hvort er verra.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)