13.10.2010 | 23:53
Hvað kostar að gera ekkert?
Þau eru orðin ansi mörg viðtölin og fréttirnar þar sem útlistað er hvað kostar að leiðrétta lán þar sem orðið hefur forsendubrestur. Menn tala um 200 milljarða og skipta "tapinu" niður á stofnanir. Samt er aðeins verið að leiðrétta "skuldir" sem urðu til í verðbólguskoti; við forsendubrest.
En hvað kostar að leiðrétta þau ekki? Hefur það verið vandlega reiknað?
Mun það leiða af sér fjöldagjaldþrot og fólksflótta? Vonleysi og uppgjöf ungs fjölskyldufólks? Þá verður það dýrara fyrir samfélagið þegar upp er staðið. Lánveitendur sitja þá uppi með fjölmargar íbúðir, sem standa ekki undir kröfunum og taka á sig raunverulegt tap með öðrum hætti. Þá tapa allir.
Eitt skal yfir alla ganga. Sami forsendubrestur, sama leiðrétting.
Ungur maður gekk berserksgang hjá umboðsmanni skuldara í dag. Með hverri vikunni sem líður án úrbóta þyngist róurinn og líkur á berserksgangi aukast. Vandinn hefur blasað við í tvö ár. Ríkisstjórn sem vaknar ekki fyrr en átta þúsund manns mæta á Austurvöll og berja tunnur er ekki sérlega trúverðug, því miður.
![]() |
Líst illa á almenna niðurfærslu skulda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.10.2010 | 08:45
Er harmónikkutónlist landbúnaður?
Getur billjard talist fullgild landbúnaðargrein? En harmónikkutónlist? Eftir margra ára vinnu er loksins hugsanlegt að skrifræðisbatteríið í Brussel geti svarað þessum spurningum í júlí á næsta ári. Það væri móðgun við snigla að segja að hlutirnir breytist á hraða snigilsins í Evrópuríkinu.
Pólverjar gerðu Brussel ljótan grikk.
Þeir lögðu fram tillögur um að breyta styrkjakerfinu í landbúnaði þannig að það verði réttlátt og sanngjarnt. Þjóðverjar og Frakkar vilja engar breytingar og hafa tryggt sér meirihlutastuðning. Það verður engu breytt.
Bændur í gömlu ríkjunum (EU15) fá styrki eftir gömlu flóknu kerfi sem tók mið af framleiðslu, en í nýju ríkjunum er miðað við stærð jarðanna. Þetta þýðir að bændur í Grikklandi geta fengið 500 í styrki á hvern hektara á meðan bændur í Eystrasaltsríkjunum fá minna en 100 á hektrarann. Þessu héldu Pólverjar að hægt væri að breyta. (Í hvoru kerfinu myndi Ísland lenda?)
Leggja þarf fram tillögur um breytingar á landbúnaðarstefnunni (CAP) í júlí á næsta ári. Þær eiga gilda fyrir tímabilið 2014-2020. Já, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þetta er dæmi um hversu óskilvirkt og svifaseint allt kerfið er. Svo halda menn á Íslandi að hægt sé að ganga í ESB og breyta sjávarútvegsstefnunni! Hún er búin að vera í endurskoðun síðan 1983 en breytist aldrei.
Billjard og harmónikkur
Þótt grunni hins spillta styrkjakerfis verði ekki breytt mun uppistand Pólverja líklega hafa tvær breytingar í för með sér. Annars vegar að sett verði 155 milljóna króna þak á styrki til einstakra bænda. Hins vegar að skilgreint verði betur hvað telst "virkur landbúnaður".
Meðal þess sem er til skoðunar er 59.585 landbúnaðarstyrkur til harmónikkufélags í Svíþjóð og 31.515 styrkur til billjardklúbbs í Danmörku. Nefndin þarf að taka afstöðu til þess, fyrir júlí 2011, hvort billjard og harmónikkutónlist teljist virkur landbúnaður. Ekki er með öllu útilokað að hún komist að niðurstöðu á tilsettum tíma. Annars verður málið tekið upp aftur þegar endurskoðun hefst fyrir árið 2021.