ESB-UMMÆLI VIKUNNAR

"Það sem maður eignast fyrirhafnarlaust, það er manni sama um." sagði síðari viðmælandi Gísla Einarssonar í þættinum Út og suður á sunnudaginn. Hún heitir Sigríður Jónsdóttir og er bóndi í Arnarholti í Biskupstungum. Auk búmennskunnar er hún kennari, hönnuður og ljóðskáld með meiru.

Undir lok viðtalsins berst ESB í tal og þetta svar Sigríðar eru ummæli vikunnar.

Gísli: "Skil ég það rétt að þú setjir Evrópusambandið og fíkniefni í sama flokk?"

Sigríður: "Ég geri það já. Nema þetta er ekki skilgreindur sjúkdómur og ekki til meðferðarstofnanir varðandi þessa Evrópusambandsfíkn."

Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Sigríður sagði umræðuna um að ganga í Evrópusambandið sprottna af minnimáttarkennd. Hugmyndin sé af sömu rót og þegar menn vildu rífa gömul hús af því að þau voru byggð af vanefnum. Skömmuðust sín fyrir þau, vildu losna við þau og byggja nýtt og betra.

Að vilja ganga í Evrópusambandið stafi af sjálfsfyrirlitningu, sem leiði til þess að einstaklingurinn rífi sjálfan sig niður. Til þess noti menn ýmsar leiðir, svo sem ofát, áfengisneyslu og misnotkun fíkniefna. Villuskoðanir um Ísland innan Evrópusambandsins séu af sömu rót.

Þetta var hressilegt viðtal, sem má sjá og heyra hér

Það er margt fleira athyglisvert í samtalinu við Sigríði. Gísli ræðir við hana um fullkomið frelsi, trú, búskap, þröstinn sem stritar fyrir ungana sína og um ástina, sem verður til af fyrirhöfn. Líka um baráttu gegn innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm. "Það er svo fljótlegt að eyðileggja hluti" sagði Sigríður um það, og gæti átt við margt annað líka.

Lokasvarið í viðtalinu er svo punkturinn yfir i-ið:
Gísli: "Hver er þín framtíðarsýn?"
Sigríður: "Það er að verða 85 ára með karlinum mínum."

Framtíðarsýnin þarf ekki endilega að vera hnattræn.


mbl.is Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband