13.6.2009 | 17:17
Enn endurtekið ESB-efni
Ef spurt er:
- Ertu fylgjandi aðildarviðræðum við ESB? segir meirihlutinn JÁ
Ef spurt er:
Ertu fylgjandi því að sækja um aðild að ESB? segir meirihlutinn NEI
Samt er þetta sami hluturinn. Það þarf að sækja um fyrst, svo koma viðræður.
Það er endalaust hægt að þræta um hvort spurning sé skýr og allir skilji hana eins. Sama gildir um könnun Heimssýnar í vikunni, sumir töldu spurninguna ekki nógu skýra. Misvísandi niðurstöður í mörgum könnunum sýna, svo ekki verður um villst, að það er rík þörf fyrir því að dreifa góðum upplýsingum til almennings. Hlutlausum, vönduðum og málefnalegum.Besta ráðið er að dreifa upplýsingariti inn á hvert heimili. Skipa má 5 manna ritstjórn á vegum Alþingis, þar sem ættu sæti tveir ESB-sinnar og tveir ESB-andstæðingar ásamt hlutlausum ritstjóra. Hann hlýtur að vera til. Í bæklingnum má taka saman allt það helsta um stjórnskipan innan Evrópusambandsins, hvað felst í valdaframsali, upplýsingar um ætlaðan hag af sambandsaðild og kostnað við hana og meginreglur og stefnu í helstu málaflokkum. Þá er líka von til þess að ekki verði einblínt um of á evruna, heldur líka fjallað um þætti sem skipta meira máli.
Það væri innlegg í málefnalega umfjöllun.
Í framhaldinu gæti hver og einn tekið upplýsta afstöðu í málinu. Þar með væri stjórnvöldum ekkert að vanbúnaði að sækja umboð til þjóðarinnar með lýðræðislegum hætti. Ef þjóðin segir já er hægt að sækja um aðild og vinna að málinu að fullum krafti með óskorað umboð.
En því miður virðast þeir sem vilja komast til Brussel vera hræddir við bæði upplýsingar og lýðræðið. Það er ekki merki um traustan málstað.
![]() |
58 prósent fylgjandi ESB-viðræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |