5.12.2009 | 18:25
Íslendingar vilja gefast upp
Það eru allir búnir að fá hundleið á IceSave, þessu leiðindamáli sem þjóðin fékk í fangið í hruninu. En það er sama hversu leiðinlegt IceSave er, við verðum að nenna því. Vítið til að varast er þegar Svavar Gestsson sagði í vor "ég nennti þessu ekki lengur" og kom heim með "glæsilegan samning", sem Alþing gaf síðan falleinkunn.
Nú hefur verið stofnaður hópur á Facebook sem gengur út á að nenna þessu ekki lengur. Á hádegi höfðu 3.100 þreyttir Íslendingar játað á sig uppgjöf. Í skýringu með áskorun hópsins segir m.a.:
Hversu sárt sem það nú er þá er engin önnur leið fær en að samþykkja Icesave, að Ísland gangist við skuldbindingum sínum og geti þannig staðið hnarreist meðal annarra fullvalda þjóða.
Við þessa einu setningu er a.m.k. tvennt að athuga.
Að gangast við skuldbindingum sínum: Um þetta snýst deilan að stórum hluta. Ekki hefur verið sýnt fram á hverjar skuldbindingar Íslands eru að lögum. Þess vegna er óráð að slaka á þeim fyrirvörum sem Alþingi hefur sett í lög.
Þá er engin önnur leið fær: Svona tala bara kratar. Öll þeirra kosningabarátta gekk út á að það væri "engin önnur leið fær" en að skríða inn í ESB og taka upp evru. Nú á að bakka með lög sem Alþingi hefur sett, af ótt við Breta. Í þessu erfiða máli standa fleiri leiðir til boða. Meðal annars að láta lögin frá því í sumar standa óbreytt og leyfa svo málinu að hafa sinn framgang.
Það kann að kosta erfiðleika, en að gefast upp verður enn dýrara.
Facebook hópurinn sér ekki annan kost en að gefast upp fyrir ESB og Bretum. Hversu hnarreist göngum við þegar búið er að kalla skert lífskjör yfir þjóðina? Jafnvel stefna greiðslugetunni í tvísýnu.
Bara af því að við nenntum þessu ekki lengur!
![]() |
Samkomulag um afgreiðslu Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |