3.12.2009 | 22:00
Grjótkast úr glerhúsi ESB
Það er í sjálfu sér gott mál að alþjóðasamfélagið hafa vakandi auga með lýðræði og mannréttindum í heiminum. Það er hins vegar ómarktækt með öllu þegar þeir sem sjálfir sniðganga lýðræðið krefjast þess af öðrum að þeir virði það.
Talsmaður yfirmanns utanríkismála ESB, Catherine Ashton, sagði við fjölmiðla í dag að ESB muni óska eftir því við deilendur í Hondúras að þeir endurreisi lýðræðið og stjórnarskrá landsins.
Þetta kallast að kasta steinum úr glerhúsi.
- Breska barónessan Catherine Ashton hefur aldrei verið kosin af neinum til að gera neitt, en er nú samt utanríkisráðherra Evrópuríkisins. Handvalin í starfið af pólitíkusum, á klíkufundi bakvið luktar dyr.
- Sama klíka handvaldi forseta fyrir Evrópuríkið, mann sem enginn þekkir og vissi ekki sjálfur að hann væri í framboði.
- Evrópuríkið hefur nýlega lögfest nýja stjórnarskrá, án þess að bera hana undir atkvæði þegna sinna, að Írum frátöldum. Þeir sögðu nei og voru þá látnir kjósa aftur.
- Í Evrópuríkinu er ríkisstjórn (commission) sem fer með framkvæmdavald. Hún er ekki kjörin í lýðræðislegum kosningum.
- Í Evrópuríkinu er þing sem fólk fær að kjósa fulltrúa á. Kjörsókn var 43% vegna þess að almenningur veit að atkvæði þess skiptir engu máli.
Ashton barónessa starfar fyrir skrifræðisbákn sem er búið að úthýsa lýðræðinu. Hún ætti að sjá sóma sinn í því að gagnrýna ekki stjórnarfar í fjarlægum ríkjum fyrr en búið er að koma á lýðræði í ESB og setja þegnum Evrópuríkisins stjórnarskrá með eðlilegum, heilbrigðum og lýðræðislegum hætti. Fyrr er hún ekki marktæk.
![]() |
ESB gagnrýnir að Zelaya hafi verið hafnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |